Skip to content

12. Áramótin: Litið um öxl

Ameríka er þekkt fyrir fangelsin sín. Hérna eru fleiri í fangelsi heldur en í flestum vestrænum ríkjum samanlagt. Þrátt fyrir að vera aðeins 5% af jarðarbúum er tæpur fjórðungur af öllum föngum jarðarinnar í bandarísku fangelsi. Á Íslandi eru 47 af hverjum 100.000 íbúum í fangelsi, í Bandaríkjunum eru það 743, það er um 1580% fleiri miðað við höfðatölu. Fólk fer í fangelsi fyrir fáránlegustu brot. Hafi þau farið einusinni í fangelsi er allar líkur á að þau fari þangað aftur. Þegar út úr fangelsi er komið er ekki nokkur leið að fá vinnu né finna sér heimilli, ameríski draumurinn er úti.
Í Ann Arbor hitti ég mann. Hann var í slitnum fötum, órakaður og illa lyktandi. Hann var heimilislaus. Ég talaði við hann vel og lengi, við áttum góða samleið. Hann hafði góða innsýn í veruleikann. Við gátum talað saman um heimspeki, pólitík, samfélagið, taugakerfið og stjarnfræði. Ég velti því fyrir mér hvernig svo vel mæltur og vel lesinn maður byggi á götunni. Hvers vegna er maður, sem augljóslega á margt sem hann getur deilt með hinum akademíska heimi, ekki í skóla, að kenna, að skrifa, að smíða eða hana? Einhverstaðar í samræðunum kom það í ljós:
„Þegar ég var 17 ára var ég dæmdur í fangelsi. Ég var nokkur ár í fangelsi. Ég er búinn að vera laus um 5 ár núna. En ég fæ enga vinnu. Enginn ræður mann í vinnu sem hefur verið í fangelsi.“
Og hvers vegna var dæmdur í fangelsi?
„Fíkniefnabrot. Ég var með of mikið af fíkniefnum á mér. Þess vegna þurfti ég að dúsa nokkur ár í fangelsi.“
Í dag drekkur þessi maður ekki áfengi, hann reykir ekki sígarettur og tekur engin ólögleg vímuefni. „Ég reyki reyndar mikið gras, ég gæti ekki verið án kannabis, ég elska gras. Nú get ég reykt það án þess að brjóta nein lög,“ sagði hann mér eftir að hafa útskýrt að gras sé nú löglegt í Michigan hafi maður fengið það áskrifað frá lækni. Þessi maður er fyrirmyndar þegn. Snjall hugur sem á mikla möguleika. En vegna heimskulegs brots þegar hann var unglingur, og vegna hrikalegs refsikerfis á hann hvergi heima nema á götunni að mati samfélagsins hérna vestan Atlandshafsins.

Nýlega voru áramót. Margir nýta þessi tímamót til að líta yfir liðið ár og rifja upp það helsta. Ég ætla einmitt að gera það. Hérna í Ameríku hef ég kynnst svo mikið af merkilegu fólki og heyrt svo mikið af áhugaverðum sögum. Á þessum gregórísku tímamótum ætla ég að deila með ykkur nokkrum áhugaverðustu sögunum sem ég hef heyrt. Fyrsta sagan var af manni sem var sendur á götuna af ósanngjörnu refsikerfi bandaríkjamanna. Hér fyrir neðan fylgja svo tvær aðrar sögur sem ég hef heyrt af amerísku fólki á liðinu ári. Neðar mun ég segja ykkur frá Greg. Smiði sem frá Idaho sem lenti í vinnuslysi og þurfti að leggjast undir hnífinn í framhaldinu. Þegar hann mætti til vinnu, frískur, nokkrum vikum síðar, var honum sagt að hann hefði verið rekinn. Hann hafði verið frá vinnu í of langan tíma og gæti því ekki snúið þangað aftur. Ég ætla að byrja á sögunni af Assötu, dásamlegri konu í Detroit sem hóf um fimmtugt að ferðast um heiminn með bakpoka á bakinu. Mjög áhugaverð saga.

Assata bauð mig velkominn á heimillið sitt Í Detroit. Í Húsinu var par frá Montréal, ásamt Rússa sem hafði verið þar í lengri tíma. Assata sjálf er blökkukona, yfir fimmtug. Hún ver stundum sínum við að föndra, semja tónlist eða smíða allskyns listaverk. Hún var óvenju brosmild. Full af jákvæðri orku. Ég spurði hana hvers vegna hún byrjaði í CouchSurfing.
„Þegar ég var yngri fór ég í ýmiss ferðalög. Ég man það tildæmis að ég fór með vinkonu minni til Bahama. Við vorum þar á hóteli, með einkaströnd og öllu. Núna átta ég mig á því að ég var eiginlega ekki að ferðast. Ég fór aldrei út fyrir verndað svæði hótelsins. Ég fékk aldrei að kynnast alvöru Bahama.“
Sagan af Assötu, er saga af menneskju sem sér allt í einu fleiri hliðar á lífinu, að lífið er ekki jafn einfalt og það virðist. Hún var lögga, en nú er hún mótmælandi. Hún sagði mér frá reynslu sinni sem löggu og fékk mig til að sjá að löggan hefur líka hlið á málunum (þó svo að hún sjái ekki endilega hlið glæpamannana eða mótmælendanna). Það sem gerir sögu Assötu áhugaverða er að þessi stökkbreyting á veruleikasýn hennar varð ekki fyrr en á fertugsaldri. Eftir að hún hafði lokið við þessa meintu tilraunamensku æskuskeiðsins. „Næst þegar ég fór til Karíbahafsins, þá var ég farfuglaheimilli. Ég öppgreitaði mig upp frá túristahóteli yfir í hostel. Þar kynntist ég ungu fólki sem virtist hafa mun skemmtilegri ferðasögur en mér væri nokkurntíman unt að öðlast á verndarsvæðum hótelanna. Loks ákvað ég það. Að næst þegar ég ferðaðist, ætlaði ég að lifa með heimamönnum. Ég fór til Afríku, skráði mig á CouchSörfing, og bjó með þessari indælu fjölskyldu á meðan ég var þar. Ég fékk að kynnast því hvernig alvöru lífið er þarna í Afríku. Ekki bara einhverja glansmynd sem túristar fá, heldur fékk ég alvöru ferðareynslu.

Ég segi þessa sögu, söguna hennar Assötu, því að sjálf býr hún í borg sem hefur verið málað einhvernvegin öðruvísi en hún er. Hvað Detroit er, er eitthvað sem maður getur bara séð ef maður kemur til Detroit og kynnist fólkinu sem býr þar. Assata er lifandi dæmi þess að ekki er allt sem sýnist. Hennar saga af lífinu er akkúrat öfug við staðalmynd miðaldra blökkukvenna, sem eru ungir róttæklingar, finna sér svo stað í lífinu og setjast í helgan stein. Assata hóf að ferðast um mitt æviskeiðið. Og er enn að. Á meðan borgin hennar hrörnaði, er Assata frísk sem aldrei fyrr.

Nú, að lokum, ætla ég að segja söguna af Greg.

Það var snemma morguns að ég stóð við afleggjara í suður-Idaho að reyna að komast til Boise. Annar eða þriðji bíllinn framhjá stöðvaði, skrúfaði niður rúðuna og kynnti sig: „Sæll, ég heiti Greg.“ Þar sem við keyrðum í áttina til Boise, sagði hann mér söguna sína. Konan hans var í bílnum fyrir framan, þau voru á leiðinni til Boise, þar sem dóttir þeirra átti heima. Hún átti bílinn sem konan hans keyrði. Þau voru að skila honum. Þau ætluðu svo að keyra þessa klukkutímaferð til baka saman, í bílnum sem ég var í. Hann sagði mér frá persónulegri reynslu. Hann og konan hans keyrðu eitt sinn alla leiðina frá Idaho til Georgiu (3 dagar stanslaust) til að vera með syni þeirra í gegnum veikindi. Það fanst mér merkilegt. Ótrúlegasta sagan, og því miður sú sorglegasta var af því hvers vegna hann flutti í þennan bæ sem hann tók mig uppí í, smábær á engum kortum í klukkutíma fjarlægð frá dóttir sinni.
„Þannig var mál með vexti að ég var að vinna við að gera við trukka fyrir ákveðið fyrirtæki. Fyrirtæki sem flytur korn og kúaafurðir hérna á svæðinu, allt suður til Nevada og stundum Californiu. Ég fékk borgað í fastakaupi og var því með mjög stöðugan fjárhag. Keypti mér fínt hús hálftíma fyrir utan Boise, í fjöllunum. Ég var mjög ánægður með það. Ég hef aldrei búið í betra húsi á ævinni. Þú munt sjá það. Við keyrum fram hjá því á eftir. Einn daginn lenti ég í nokkuð alvarlegu slysi. Braut nokkur bein og þurfti að fara í aðgerð, ég get enn ekki snúið höfðinu til hægri lengra en þetta. En ég var heppin. Í fyrsta lagi að hafa ekki algjörlega lamast. En það var meira. Þegar læknarnir voru að laga mig eftir slysið, fundu þeir fyrir algjöra tilviljun illkynja æxli á byrjunarstigi. Ég hefði bara þurft að vera 2 – 3 vikur á spítala, en út af æxlinu þá var ég alls 6 vikur. Þeir náðu að fjarlægja æxlið. Það bjargaði lífi mínu víst. Hefði ég ekki lent í þessu slysi, þá hefði æxlið aldrei komið í ljós fyrr en of seint og ég væri líklegast rúmliggjandi núna, ef ekki dáinn. Þannig að ég var heppinn. Jæja, sex vikum síðar, þegar ég ætla að mæta til vinnu er mér tjáð að ég hafi verið of lengi frá vinnu og væri því ekki lengur með þessa vinnu. Þeir væru búnir að ráða annan. Ég, á mínum aldri, að jafna mig eftir erfiða meðferð, fæ ekki aðra vinnu svo gott. Og ofan á það þá sat ég uppi með sjúkrakostnaðinn. Krabbameinsmeðferðin var ekki tryggð. Nú, ég þurfti að selja húsið mitt út af þessu. Missti allt nema konu mína og börn. Núna nokkrum árum síðar fékk ég loksins aðra vinnu. Mjög svipað og seinast, nema bara hérna lengst í burtu. Þess vegna þurfti ég að flytja í bæinn þar sem ég tók þig uppí. Húsið er allt í lagi svo sem, en ég myndi mun frekar vilja búa í gamla húsinu. Við vorum að klára fluttningarnar í síðustu viku, og við þurfum ekki lengur auka bílinn. Þess vegna erum við að skila bílnum hennar dóttur minnar. Við þurfum hann ekki lengur.“
Ég hlustaði með ákefð á þessa hjartnæmu sögu. Eftir að hún var öll sögð tjáði ég auðvitað reiði mína í garð bandaríska heilbrigðiskerfisins sem skilur sjúklinga eftir í gríðarlegri skuld. En ennfremur tjáði ég reiði mína í garð bandarískra verkalýðslaga, sem geta rekið menn fyrir þær sakir að þeir verða alvarlega veikir yfir skammt skeið. Það var verið bjarga lífi hans. Þess vegna var hann rekinn. Hann hefði vitaskuld getað sleppt krabbameinsmeðferðinni og mætt til vinnu þar til krabbinn yfirbugaði hann. En fyrst og fremst varð ég reiður út í fyrirtækið sem gerði honum þetta, manneskjunum sem tóku þessa illu ákvörðun að svipta manninum öllu fjárræði bara því það var verið að bjarga lífi hans. Svona óþjóðalýður þrífst hérna í Bandaríkjunum. Svona óþjóðalýður situr á toppi ameríska draumsins. Svona óþjóðalýður er sá sem sýgur allan merg úr blóði góðra manna eins og Gregs.

Það mætti halda að ég sé ekkert búinn að vera að ferðast. Að höggið við að missa bakpokann minn og vera handtekinn strax við komuna í Kaliforníu hafi slegið á ferðakraftinn minn. Kannski er það satt. En ég er svo sannarlega kominn með kraftinn á nýjan leik. Ég keypti mér nýjan og betri bakpoka, nýtt og betra tjald, nýjan prímus og nýjan áttavita og er aftur kominn á veginn sem aldrei fyrr. Nú er ég meira að segja kominn með nýjan ferðafélaga, hana Chantal, jafnöldru mína sem var handtekinn með mér í San Francisco. Stúlku sem ég bjó með þessar þrjár vikur sem ég var í San Francisco. Ég segi ykkur meira frá þessum þrem vikum og ferðinni okkar Chantal til Yosemite og Death Valley í næsta pistli. Kannski segi ég ykkur jafnvel frá Las Vegas og Miklagljúfri ef ég er þess legur. En líklegra er að ég geri það ekki fyrr en í þarnæsta pistli.

Verði ykkur að góðu og gleðilegt nýtt ár

Rúberg
8. janúar 2012
Las Vegas, Nevada.

11. Lítil jólahugvekja frá San Francisco, Kaliforníu

Sagan segir að kona að nafni María og eiginmaður hennar, Jósef, hafi verið á ferðalagi um Ísrael einhverntíman á árabilinu 7 – 2 fyrir krist. Þau voru fátæk og ferðuðust áfram á gestrisni þeirra sem urðu á vegum þeirra. Þetta hefur verið erfitt ferðalag, sérstaklega þar sem María átti von á sér. Þegar svo kom að því að hún fæddi voru það ókunnugir sem veittu henni aðstöðu, og líklegast hjálp, við fæðinguna. Jesús af Nasaret fæddist í fjárhúsi ókunnugra sem voru reiðubúin að hjálpa ferðalöngum í nauð.

Ísrael um 4 fyrir krist hefur verið góður staður og tími til að ferðast. Skemmtilegt að hugsa til þess að uppruni kristinna jóla var á ferðalagi. Pælið í því. María og Jósef þurftu að reiða sig á gestrisni ókunnugra til að fæða son sinn. En rómantískt.

Ég segi þessa sögu, ekki vegna þess að ég trúi henni eða vegna þess að hún kemur jólahátíðinni, hátíð rísandi sólar, eitthvað við, heldur segi ég þessi sögu því ég er líka að halda upp á jólin á ferðalagi, alveg eins og María og Jósef héldu upp á fæðingu sonar síns á ferðalagi. Ég er á framandi slóðum alveg eins og María og Jósef voru milli 7 og 2 fyrir krist. Og það er ekki í fyrsta sinn.

Aðfangadag jóla 2007 sá ég Macchu Picchu. Ég var í Perú með frænda mínum Skúla Pálma. Það var lokin á nokkura daga göngu um Andesfjöllin þar sem áfangastaðurinn voru þessar merku minjar. Þegar klukkan sló sex á staðartíma vorum komnir aftur til Cuzco og héldum jólin saman í litlu hótelherbergi.

Núna fjórum áður síðar held ég aftur upp á jólin á vegum úti. Í þetta sinn í San Francisco. Alveg eins og María og Jósef lentu í bobba í Betlehem þegar hún skyndilega þurfti að fæða, þá komst ég í hann krappan hérna í Frisco. Occupy San Francisco á 101 Market st. var lokað af lögreglunni minna en 12 tímum eftir að ég kom hingað. Ég vaknaði klukkan 4:30 aðfaranótt sunnudags við það að óeirðarlögreglan réðist á svæðið vopnuð kylfum og piparúða. Ég var umkringdur og kom engum vörnum við. Þegar ég ætlaði að yfirgefa svæðið í friði, var mér meinað að fara, ég var víst í varðhaldi. Nokkrum mínútum síðar var ég handtekinn fyrir að koma mér upp „ólöglegu gistiplássi“ (illegal lodging)¹. Alveg eins og þegar ókunnugir aðstoðuðu Maríu og Jósef út úr sínum vandræðum þá voru ókunnugir (Chantal og Dagny sem sátu með mér í prísundinni) sem hjálpuðu mér með því að skjóta undir mig skjólhúsi þegar ég átti engin hús að vernda hérna í Frisco. Chantal og Dagny eru ekki ókunnugir lengur og buðu mér að vera hjá þeim yfir jólin, boð sem ég þáði. Rétt eins og María og Jósef voru í húsum velvildarmanna yfir fæðingu frelsarans² þá er ég heima hjá Chantal og Dagnyar þegar stór hluti jarðarbúa fangnar þessari fæðingu.

Ég hafði gælt við hugmyndina að reyna að koma mér til Þorleifs frænda um jólin. Ég hætti við þau plön þegar leið á desember og ég sá fram á að þurfa að fara yfir Kaliforníu, Yosamite, Nevada, Miklagljúfur, Nýju Mexikó o.s.frv. með hraði. Frekar Nýt ég ferðarinnar og held upp á jólin hjá ókunnugum.

Þetta er einungis lítil jólahigvekja og verður ekki lengri í bili. Kannski segi ég frá því hvernig ég hélt upp á amerísk jól árið 2011 í næsta pistli.

Þar til þá

Jóla Rúnar
San Francisco, California
24. desember 2011

_________

1: (Skrifað í dagbókina mína sunnudaginn 11. desember 2011)

Ég var handtekinn í nótt.

Þau handtóku mig fyrir „Illegal lodging“.

Í meginatriðum var ég sofandi í svefnpokanum sem Nancy og Verne gáfu mér. Klukkan 04:30 réðist óeirðarlögreglan á mig, fjötraði mig og þvingaði mig upp í bíl þar sem þau keyrðu mig eitthvert sem ég vissi ekki hvar. Þau héldu mér föngum við fjandsamlegar aðstæður, móðguðu mig og vini mína, meinuðu mér að fara á salernið, að borða eða drekka og henntu mér svo á götuna þremur tímum síðar með hótun um að ef ég mætti ekki til þeirra aftur 6 vikum síðar, þá muni ég lenda í verri vandræðum.

Hvers vegna voru þau svona vond?
Afhverju eru þau að gera þetta við mig?

Handtakan var algjörlega ólögleg*. Þau skrifuðu nafnið mitt vitlaust.
Fokk þau tóku fingraförin mín.
Hveri veit nema ég aftur til Bandaríkjanna eftir þetta.

Vonda, vonda fólk.
Vondu ,vondu löggur.

2: Hér nota ég orðið „frelsarinn“ bara vegna þess að það stuðlar og hljómar vel. Ég kaupi ekki að Jesús hafi frelsað nokkurn frá neinni synd.

*Ég var handtekinn ásamt 55 öðrum fyrir brot sem er jafn alvarlegt að ganga yfir götuna ekki á gangbraut. Handtakan var að mínu mati óréttmæt af eftirtöldum ástæðum. a) Þúsundir annarra í San Francisco „brutu“ sama ákvæði um að hafa komið sér upp „ólöglegu gistiplássi“ þessa sömu nótt án þess að vera handtekin fyrir það. Við vorum valin úr fyrir pólitískar skoðanir okkar, ekki því við brutum þetta ákvæði, annars hefðu allir heimillisleysingar verið handteknir þessa nótt. b) Lögreglan gaf mér viðvörun um handtöku mína, en bara að mér sofandi. Ég var ekki með neina meðvitund þegar viðvörun um handtöku kom og þar af leiðandi gat ég ekki vitað að ég væri að brjóta nein lög. Lögreglan hefði átt að vekja mig og segja mér að fara ÁÐUR en hún handtók mig. c) Ákvæðið um „ólöglegt gistipláss“ er svo lauslega skilgreint að hver sem er getur verið handtekinn fyrir að vera hvar sem er. Það minnir á stjörnuspánna í Mogganum það er svo hlægilega lauslegt. Fólk var handtekið hvort sem það var í svefnpoka, á dýnu, undir teppi eða undir berum himni á klæðunum sínum, hvort sem það stóð, sat, labbaði eða lá. Allir sem voru þarna voru handteknir fyrir að koma sér upp „ólöglegu gistiplássi“ hvort sem þau gistu eða ekki. Og d) Ég kom mér ekki upp neinu „gistiplássi“ ef svo má heita. Gistipláss krefst einhverskonar skýlis, ég var bara í svefnpoka á dúkalögðum pappa sem tók mig 5 mínútur að ganga frá. Eins og einn hinna handteknu sagði: „Mótmæli að nóttu til eru nú kölluð ‚gistipláss‘ og þeir hafa gert þau séu ólögleg“ (Protesting at night is now called lodging, and they’ve made it illegal).†

Nánar má lesa um handtökuna á ýmsum fréttasíðum, til dæmis hérna: http://www.sfbg.com/politics/2011/12/11/police-arrest-55-early-morning-raid-occupy-sf

10. Þegar ég og Benjamín ferðuðumst til Kaliforníu

Áður en ég byrja.

Ég klúðraði. Ég fór illa að ráði mínu. Ég skildi bakpokann minn eftir á röngum stað og á röngum tíma. Ég faldi hann. Ég taldi að það væri öruggt. Það var það ekki. Ég klúðraði. Hlýju fötin mín, vegabréfið mitt, græjurnar mínar, svefnpokinn og tjaldið. Ekki bækurnar mínar, tölvan, myndavélin og veskið mitt þó. En allt hitt. Í höndunum á þjófi núna. Ég klúðraði.
Og í eina skiptið þar sem ég þurfti alvarlega á þjónustu lögreglumanna að halda, þá fékk ég auðvitað hálfvita löggumann. Ég veit ekki hvað það er… Er löggan samansafn hálfvita og vondra manna, sem gera ekkert nema pína mótmælendur og vera með derring? Maður spyr sig.

Núna byrja ég.
Ég, Benjamín og Phil að aka niður 101, nýbúnir að borða ljúffengar Quesedillur er Phil eldaði í vaninum sínum. Ég sitjandi á gólfinu, Benjamín í farþegasætinu og Phil að keyra. Við erum í Suður Oregon, stöðvum við hvert tækifæri til að skoða þessa gullfallegu strandlengju sem Oregon er fræg fyrir. Gullið. En bíddu nú við. Hver er Benjamín, og hver er Phil?

1. Hvernig ég hitti Benjamín.
Ég tók lestina (eða Maxinn) eins langt vestur og ég komst frá Portland. Þaðan þurfti ég að ganga heilan helling áður en ég fann sómasamlegan afleggjara til að geta húkkað. Hálfri mílu frá þessum afleggjara fékk ég loks far þangað afan á pallbíl. Þegar ég gekk yfir brúnna sá ég mann í fjarska, puttaling eins og mig.
„Sæll vertu.“
„Komdu sæll.“
„Á puttanum?“
„Jamm. Þú líka?“
„Já.“
„Hvert er förinni heitið?“
„Að þjóðvegi 101.“
„Ég líka. Til Kalíforníu?“
„Aha, San Fracsisco. En fyrst til Redwoods.“
„Vó, akkúrat eins og ég.“
„Jæja, langar þér að ríða á vaðið í smá stund á meðan ég fer þangað inn og fæ mér hamborgara.“
„Ég var að spá hvort við ættum ekki að vera samfó frekar.“
„Já, afhverju ekki. Sæll ferðafélagi, ég heiti Benjamín, hvað heitir þú?“

Og síðan þá hef ég og Benjamín ferðast saman frá Portland þar sem það vildi svo til að fyrsti puttalingurinn sem ég hitti á vegum úti var á sömu leið og ég.

Það er gaman frá því að segja að Benjamín hefur atvinnu af lífinu á vegum úti. Hann er það sem við hinir kalla atvinnumaður, eða prófesíónal. Hann skrifar pistla og tekur upp vídeó sem hann fær borgað fyrir (ég mæli með að skoða síðuna hans www.adventuresauce.com/). Sjálfur er hann á frá Ann Arbor, Michigan¹, að ferðast suður frá vetrinum. Hann ætlar að hitta kærustuna sínu hérna í San Francisco.²

2. Svo kemur Phil
Við, Benjamín, fengum nokkur för og gistum á skrítnum stöðum áður en við komum að þjóðvegi 101 sem liggur meðfram strandlengju Washingtonfylkis, Oregon og mestmegnis Kalíforníu. Hann er frægur fyrir að fara meðfram gullfallegri kyrrahafsströnd Bandaríkjanna. Eitt farið okkar, sem keyrði okkur af 26 og inn á 101, var það fallegur að taka okkur í lítinn leiðsagðann leiðangur. Sýndi okkur meðal annars klettana þar sem Goonies, mynd Stevens Spielbergs, var tekin upp, svo og sýndi hann okkur fleiri skóga, risa tré og gullfallegar strendur með hvítum sandi.

Það leið ekki á löngu áður en Phil tók okkur Benjamín uppí. Hann ekur um og lifir í gömlum amerískum sendiferðabíl sem hefur verið breytt í húsbíl, svokallaður hippavan. Hann er á leiðinni suður til Costa Rica frá British Columbia, Kanada. Sjálfur er hann Ástrali frá New South Wales. Við þremenningarnir ókum saman eftirmiðdegið, allan næsta dag og morguninn þar eftir. Við kláruðum kyrrahafsströnd Oregon á tæpum tveim dögum. Við stöldruðum við þar sem við vildum staldra við, skoðuðum það sem við vildum skoða, gistum þar sem við vildum gista. Við tókum okkur semsagt góðan tíma við að aka þessa leið. Þetta voru góðir tímar.

3.Nancy og Verne í Gasquet, California
Phil ætlaði ekki að skoða rauðviðina jafn harkalega og við Benjamin. Hann hafði reddað sér vinnu við að snyrta gras í Eureka Californiu, aðeins sunnar en þjóðgarðarnir frægu. Okkur Benjamín langaði nefninlega að tjalda einhversstaðar lengst inn í skóginum þar sem enginn getur angrað okkur. Lífið í skóginum, eins og Valden forðum (sjá 3. The Appalachian Trail at Franconia Notch in the White Mountain National Forest, New Hampshire). Við vissum líka að vegir okkar lægu ekki saman. Við puttalingarnir Benjamín ferðumst allt öðruvísi en fulltimer-inn Phil sem getur ekki hugsað sér að sofa í tjaldi við vegkantinn. Við kvöddum Phil í Crescant City, borguðum okkar hluta af bensíninu (bara sanngjarnt fyrir þriggja daga ferð, ferðalangur fyrir ferðalang) og hófum að undirbúa fyrir þessa miklu skógarferð. Ef við gætum værum við viku í skóginum. Við þurftum bara að finna út hvar í skóginum væri best að vera, og til þess þurftum við upplýsingar frá netinu og heimamönnum. Við trúðum að við fengjum upplýsingarnar í Crescant City.
Í miðjum undirbúningnum (sem var unninn í Starbucks) kemur miðaldra kona að Benjamín: „Fyrirgefðu? Benjamín?“
Benjamín: „Ha?“
„Þú ert Benjamín, er það ekki?“
„Ehh jú.“
Kona: „Ohh, en frábært. Ég er áskrifandi að síðunni þinni. Ég horfi á myndböndin þín. Ég sendi þér tölvupóst um daginn. Sástu hann ekki?“
Benjamín: „Ég fæ svo marga tölvupósta hann hlýtur að hafa farið framhjá mér. Hvað heitir þú?“
Kona: „Nancy. Ég sá vídjóið þitt í Oregon á YouTube og hugsaði með mér: „Hann hlýtur að vera einhverstaðar hérna nærri.“ Ég sagði það við þig [bendir á manninn sinn]: „Hann er ábyggilega hérna í kring akkúrat núna,“ og hérna ertu.“
Benjamín: „Vá en frábært. Frábært að hitta þig. Og þú bara þekktir mig. Þetta er frábært.“
Nancy: „Þetta er maðurinn minn, Verne, og við vorum að spá í hvort þú viljur ekki koma í kvöldmat til okkar. Þú getur tekið þér sturtu, hlýjað þér og svona. Við getum svo spilað saman og eitthvað, langar þér að koma?“
Benjamín: „Þetta er Rúnar, vinur minn. Við erum búnir að vera að ferðast saman síðan í Portland. Það vildi svo til að við hittum á sama afleggjarann á sama tíma á leiðinni á sama staðinn. Hann er svalur náungi.“
Við heilsumst
Nancy: „Þú ert velkominn líka. Hvað segið þið, viljið þið koma í kvöldmat til okkar, og að spila og svona. Það verður rosa gaman.“

Við skelltum okkur til þeirra,. Við höfðum eytt nóttinni ofan á varamannaskýli á hafnaboltaleikvangi og ruslað okkur hvítlauksbrauði í morgunmat. Boðið var því mjög kærkomið og Nancy og Verne voru líka afbragðs fólk. Þau höfðu gengið pílagrímsgöngu Santiago de Compostela og voru að þjálfa sig til að fara aftur. Þetta voru gamlir hippar frá 7. áratugnum. Nancy hafði sjálf húkkað sér um allt 68 og Verne er blúsari af guðs náð. Þau eru sannarlega af 69 kynslóðinni frægu. Ég er kominn til Kalíforníu. Ég get ekki beðið eftir að sjá Ground Zero. San Francisco.

Þetta var skrítið. Við Benjamín höfðum átt hræðilega nótt. Svo hræðileg var hún að ég tók þá ákvörðun þá þegar að héðan í frá verð ég Straight Edge (það er að halda heilanum mínum hreinum af öllum efnum sem aftra huganum frá því að starfa eðlilega)³. Og núna vorum við í þessu hlýja húsi að borða þennan yndislega mat. Þau buðu okkur líka gistingu sem við þáðum. Reyndar sváfum við þarna tvær nætur. Nancy og Verne vissu ýmislegt um rauðviðina, hvar væri best að vera og annað slíkt sem kom sér mjög vel upp á framhaldið. Einnig buðu þau okkur í skoðunarferð um skógana í kring, sem þau óku okkur til. Nancy og Verne voru frábær. Áður en við kvöddumst þá gáfu þau mér ýmislegt drasl til að byrja endurnýjun aleigu minnar. Gammósíur, hlýja peysu, svefnpoka og, það besta, gamla strigapokann hennar Nancyar. Axlapoki sem hún notaði sjálf til að húkka sér um bandaríkin á sjöunda áratugnum frá San Francisco. Þetta er poki sem var eflaust notaður í seinna stríðinu, svo gamall er hann. Og hann kom sér vel í rauðviðunum.

4. Redwood National and State Parks
Ef þið hafið séð seinustu Stjörnustríðsmyndina, atriðið í frumskóginum, þar sem Ewokarnir búa, seinna tungl Endor, þá hafið þið fengið smekkinn af því hvernig rauðviðirnir líta út. Þetta eru þau tré sem vaxa til að verða þau hæstu í heimi. Gullfalleg. Við Benjamín vorum nokkra daga í skóginum. Við tjölduðum algjörlega óáreittir. Það var enginn í skóginum nema við. Vá hvað það var kúl. Benjamín tók sínar myndir og ég tók mér margar gönguferðir. Ein besta sem ég tók var um svæði sem heitir Fern Canyon. Göngustígurinn fer úr gilinu á einum ákveðnum stað og heldur áfram meðfram því. Ég neitaði að fara úr gljúfrinu og hélt áfram meðfram ómerktum rollustíg inn í því þar til að ég sá brú einhverri mílu síðar. Þá prílaði ég upp úr gilinu, fór aftur á merktan stíg og fékk að njóta þess að ganga meðal þessara risa aleinn allan daginn. Gullið.

Eitt sem ég vill segja í lokinn varðandi rauðviðina. Einn rauðviður getur aldrei staðið einn. Hann þarf hjálp frá rótum allra hinna trjánna í samfélaginu til að geta staðið svona langt upp í himininn. Rætur trjánna eru nefninlega mjög grunnt undir yfirborðinu. En þær ná langt til allra átta. Þær flækja sér síðan saman til að mynda eina heild rauðviðaskógs. Hvert tré fær stuðning frá öllum hinum trjánum. Saman standa þau, sundruð falla þau. Eitthvað sem ég hugsaði mikið um meðan ég sat í varðhaldi lögreglunnar ásamt tugum annarra mótmæla hérna í San Francisco. En meira um það síðar.

Rúnar Berg (ekki segja löggunni) Baugsson Sigríðarson
San Francisco, California
11. desember 2011

_________

1: Sama Ann Arbor og ég gerði garðin frægan í Október seinastliðnum (sjá. 5. Michigan: Eða hvernig ég tók Liberty Plaza).

2: Fyrir myndbönd sem Benjamín tók af mér sjá youtupe síðuna hans (Youtupe: AdventureSauce), ég er í myndböndunum My Oregon Van Time Lapse og All Night Time Lapse (Sleeping On Dugout Roof).

3: Edrú er ekki góð þýðing þar sem Staight Edge er um miklu meira en bara að halda sér frá vímuefnum. Þetta snýst um hámarksafköst hugans. Alkahol, Kanabis, koffín og fleira eru huganum til trafala og því er betra að sleppa þeim. Ég geri það af því það hentar mér best sem sjálfráða einstakling en alls ekki því ég á við fíkn að stríða eða vegna þess að samfélagið lítur hornauga á þessi efni.

9. Bakpokanum mínum var stolið í Californíu

… og öllu draslinu mínu með honum.

Nú þarf ég að byrja að sanka að mér drasli að nýju.

Rúnar Berg
Crescant City, California
2. desember, 2011

8. Occupy Idaho, Washington og Oregon

„You’re on the wrong side of history.“ Öskruðu mótmælendur á óeirðarlögregluna meðan hún var að berja á okkur hérna í Portland. Við höfðum verið í mótmælagöngu um miðbæinn. Markmiðið var að loka sem flestum bönkum. Fyrsti bankinn tók nokkurn tíma og nokkrir mótmælendur voru handteknir. Næsti banki hafði heyrt af því hvað var að gerast og lokaði á undan okkur. Við gengum því næst fram hjá fjölmörgum útibúum sem öll voru lokuð. Markmiðinu var náð. Þvílík gleði. Við söfnuðumst saman fyrir utan eitt útibúið, einhver var með gettóblaster og spilaði fönk sem við öll dönsuðum við. Svona eiga byltingar að vera. Við marseruðum áfram um bæinn og sáum fleiri opin útibú. Við fórum að þeim og þau lokuðu. Nærveran ein var nóg til að loka þeim. En gleðin entist ekki fram á nótt. Óeirðarlögreglan mætti á svæðið þar sem við stóðum fyrir utan eitt útibú Chase bankans, sem er í eigu JPMorgan. Hún var staðráðin í að þessi mótmæli ættu að leysast upp í ofbeldi. Stundum velti ég því fyrir mér hvað það er sem gerir óeirðarlögreglu svona æsta í að berja fólk. Frá upphafi göngunar þá ógnuðu þessar lögreglur okkur fyrir það eitt að stíga fæti af gangbrautinni og út á götu. Hún var staðráðin í að berja okkur, en þurfti bara að finna afsökun fyrir það. Við vorum inn í anddyri Chase útibúsins, og það var nóg afsökun fyrir lögguna að ráðast á okkur með piparúða. Eftir það sakaði hún okkur um að vera á götunni og tefja traffík, þó svo að enginn væri á götunni nema hún sjálf. Hún hélt því áfram að ráðast á okkur, skipandi okkur að fara af götunni á sama tíma og hún ýtti okkur af gangstéttinni og út á götu. Þvílíkir hrottar.

1.
Frá því seinast eru þrjár borgir sem ég verð að segja ykkur frá. Fyrst er það Boise, höfuðborg Idaho, næst er það Seattle, stærsta borg Washington-fylkis og seinast er það Portland, Oregon, borgin sem Celeste, vinkona mín sem ég hitti í Níkaragva fyrir tæpum hálfum áratug síðan. Ég ætla að byrja á Boise.

2.
Einn daginn hafði ég fundið mér flottan stað í þinghúsi Boise. Þarna var sófi, nettenging, innstunga, salerni í 20 metra fjarlægð, hiti og vinnufriður. Þetta var fullkominn staður til að sitja og hangsa á internetinu eða skrifa stöff. Ég var rétt búinn að átta mig á þessari staðreynd þegar lögreglumaður kemur til mín og segir: „Afsakaðu að ég skuli trufla þig, en það er verið að rýma svæðið. Hvenær sem þú ert tilbúinn, værirðu þá til í að pakka saman og yfirgefa. Bara þegar þú ert tilbúinn.“ Ég furðaði mig á þessari rólegu og yfirveguðu rýmingu, pakkaði saman og gekk út. Þar sá ég starfsmenn þinghússins standa fyrir utan og stara. „Hvað er um að vera?“ Spurði ég lögreglumann sem stóð og stýrði umferð frá bygginguni. „Það barst sprengjuhótun ásamt bréfi með hvítu dufti.“ Þá þegar áttaði ég mig á því í hvaða landi ég er staddur. Land tækifæranna þar sem vitleysingjar halda að það sé sniðug hugmynd að hrekkja stjórnmálamenn með hvítu dufti með þeim afleiðingum að -þú veist- ég er rekin burt af stað sem ég var nýbúinn að uppgötva. Fúlt.

Ég átti yndislegan tíma í Boise. Þetta var svona staður þar sem allt small. Ég hitti yndislegt fólk og var ástfanginn af því um leið. Ástin var gagnkvæm. Ég kom þarna fyrsta dag götutökunnar, ennþá svektur yfir því að hafa ekki komist til Yellowstone (sjá 7. Viðstöðulaust á vegum miðvesturríkjanna). Ég fékk far að borginni og þurfti að labba í gegnum hana til að halda áfram til vesturstrandarinnar. Borgarstæðið var fallegt. Fjöll allt um kring, mun fallegri en Esjan, annars eðlis en Þorbjörn. Ég finn á mér að ég er að nálgast afleggjarann út úr borginni þegar ég sé þinghúsið og miðborgina. Í næstu húsaröð við er fyrsti dagur mótmælabúða Boise. Ég er ekki lengi að hugsa mig um og slæst í för með þeim. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun.

Þennan fyrsta dag voru mikil hátíðarhöld. Einn strákur hafði komið alla leið frá tjaldbúðunum í New York. Hann var virkur þátttakandi í götutökunni þar frá byrjun og var því hokinn reynslu, reynslu sem hann deildi með sinni heimaborg, Boise. Ég lærði líka fullt frá honum og öðrum í þessara borg. Réttara sagt lærðum við öll hvort af öðru. Menntun er öðruvísi í götutökunum en gengur og gerist í vestræna menntakerfinu þar sem upplýsingum er hamrað í nemendur. Við í götutökunum deilum reynslu og upplýsingum og komumst að sameiginlegri niðurstöðu sem við túlkum öll á okkar hátt. Hvernig fær maður allsherjarþing til að virkar betur? Hvernig er best að stýra slíkum þingum? Hvernig virka þau yfir höfuð? Hvað eru beinar aðgerðir? Hver er munurinn á samstöðu og sameiningu? Hvað eru ofbeldislausar aðgerðir? Hvernig hef ég kúgað aðra? Hvernig lýt ég á mig sem „æðri“ sökum kynþáttar, kyns, kynhneigðar, félagsgáfum, menntun, stétt o.s.frv.? Þessar spurningar og miklu fleiri fékk ég svar við í Boise. Götutökurnar eru ekki bara máttlaus mótmæli gegn auðvaldinu, heldur eru þetta beinar aðgerðir í að mennta hvort annað, í að kenna hvorum öðrum hvernig samfélög virka, í að vera góð við hvort annað. Sem slíkar eru götutökurnar besti skóli sem ég hef nokkurntíman farið í.

Ég sagði við fólk (mest í djóki) áður en ég kom hingað til Ameríku að ég væri að koma hingað til að gerast hippi. Í Boise komst ég næst því að vera old skúl hippi a la ’69. Dæmigert augnablik þarna sat ég undir tré og las eða orti meðan vinir mínir sátu í hring, drukku kaffi, spiluðu á gítar og sungu lög gegn stríði og óréttlæti í heiminum. Boise mun ávallt eiga sé stað í hjarta mínu upp frá þessu. Ég sakna Boise nú þegar.

3.
Aðstæður voru örlítið öðruvísi í Seattle.

Fyrsta morgunninn í Seattle var fólk að flykkjast til Portland. Heyrst hafði að lögreglan væri að fara að rýma tjaldbúðirnar þar. Nærliggjandi götutökur fylgdu liði til að aðstoða mótmælendur við að halda búðunum opnum. Daginn eftir heyrði ég sögurnar:

„Þetta var ýkt flott, við vorum svo mörg. Við stóðum gegn lögreglunni, hlupum í átt til hennar og hún flúði. Lét okkur alveg vera eftir það. Bara einn var handtekinn fyrir að kasta flugelda að löggunum. Tvær löggur særðust en enginn mótmælandi meiddist.“

„Ég reyndi að segja öllum að þetta væri bara byrjunin. Þegar allir voru farnir kom löggan aftur og rýmdi svæðið svo auðveldlega. Þetta var svo auðvelt fyrir hana. Við vorum svo fá og þreytt og gátum ekkert gert.“

Seinasta kvöldið í Seattle hljóp einn mótmælandinn um búðirnar eins og hann væri genginn af göflunum: „Hafið þið heyrt það, hafið þið heyrt það? Þeir eru með jarðýtur í New York. Það er verið að lúmskra á bræðrum okkar og systrum. Við verðum að gera eitthvað. Við verðum að standa með bræðrum okkar og systrum í New York. Með jarðýtum. Við verðum að gera eitthvað“ Klukkan var meira en miðnætti svo við fórum að sofa. Næsta kvöld, þegar ég skoðaði fréttirnar í Portland sá ég að mótmælandinn sagði satt. Lögreglan mætti með jarðýtur að tjaldbúðunum í New York og rýmdi þær með öllum ráðum tiltækum. Tjalbúðirnar í Portland voru líka horfnar.

Einn úr tjaldbúðunum í Boise var á leiðinni til Seattle. Ég fékk far með honum. Það snjóaði á leiðinni og veginum var lokað. Um tímabil leit út fyrir að við værum fastir einhversstaðar lengst út í rassgati, austurhluta Washington. Sem betur fer opnaði vegurinn og ég áður enn ég vissi af var langþráðu markmiði náð. Vesturströndin, ó hin blessaða vesturströnd Bandaríkjanna. Mikið var ég feginn að ná henni. Laus úr kulda miðvesturríkjanna og til Cascadíu, norðvesturríkja Bandaríkjanna, þar sem hlýir hafstraumar halda vetrinum hlýjum. Verst að allan veturinn blása vestanvindar sem ganga í skugga um að það styttir aldrei upp.

Mikið var erfitt að finna salerni í Seattle. Paul sagði mér að það væri sport að loka almenningssalernum eftir að einhver hafi verið að skjóta heróíni. Ein dama sagði mér að það gengi ekki að hafa spegla á salernum því að kókfíklar væru alltaf að brjóta þá og nota sem flatt yfirborð fyrir línu. Djöfull er pirrandi þegar samfélagsvandamál verða til þess að ég sé í spreng mest allan daginn.

Ég var ekki jafn ánægður með Seattle og ég hélt ég yrði. Móttökurnar í götutökunni voru fjandsamlegar. Ég býst við að því sé um að kenna fíkniefnavandamáli borgarinnar. Í Seattle er fjöldi fólks með geðraskanir, eiturlyfjafíklar og heimilislausir sem fá enga hjálp frá borginni. Heldur ráfa þau um götur borgarinnar. Götutökurnar hafa veitt þessu fólki hæli sem samfélagið hefur hingað til neitað að veita þeim. Gallinn er að þetta fólk þarf aðstoð sem götutökurnar geta ekki veitt þeim. Þetta fólk þarf læknishjálp. Því færast þessi félagslegu vandamál yfir til tjaldbúðanna. Þessi vandamál taka orku frá mótmælendum sem skilar sér í að ég fæ verri móttökur en ella.

Á sama tíma og fólk með þessi vandamál ráfa um göturnar eru Seattle (fræg fyrir WTO óeirðirnar 1999) draumaborg neysluhyggjunnar. Macy’s, GAP, Forever 21, jú neim itt, þær eru allar þarna. Og þær glimra. Þriggja hæða tískuvöruverslanir sem eru ein til tvær húsaraðir á stærð. Fólk getur svo sannarlega gleymt sér í hausttískunni á meðan Starbucks starfsmenn þurfa að hringja á sjúkrabíl því einhver tók of stórann skammt á klósettinu þeirra, aftur.

Seattle átti samt sín augnablik. Ég sótti úkulele tónleika, skoðaði frábæra bókabúð, sá ýkt svalan markað og slíkt. Ég endaði Seattle með hópfaðmlagi, þannig að það má segja að margt hafi farið vel.

4.
Ímyndið ykkur þetta: Brúnt rúgbrauð frá sjötta áratugnum stoppar á Starbucks. Út úr stígur ungur drengur, klæddur eins og haustið, tré eða bangsi… allavega mjög hippalegur. Hann faðmar miðaldra konu sem er líka hippaleg, hleypur inn á Starbucks og beint á klósettið. Hann kemur af klósettinu og spyr ringlaðann starfsmann (langt hár og hippaleg mállýska, greinilega ekki fæddur og uppalinn í Starbucks): „Hvar er ég?“ „Þú ert í Portland, Oregon maður. Portland, Oregon.“

Ég fæ að hringja í hjá Starbucks. Ég hringi í Celeste og finn út að það er hentugast fyrir okkur að mæla okkur mót í miðbænum. Ég finn út að besta leiðin þangað er með Maxinum. Ég kem úr honum heldur ringlaður. Ætla að hringja í Celeste og láta hana vita hvar ég er en fæ ekki internetsamband (ég hringi með netinu). Ég færi mig inn í anddyri nálægrar skrifstofubyggingu og reyni aftur. Ekkert samband. Hendi af mér bakpokanum og geng í kringum húsaröðina í leit af sambandi. Tveimur húsaröðum síðar fæ ég samband og hringi. Ég tala við Celeste, hún ætlar að koma til mín. Ég skelli á og geng af stað aftur að bakpokanum mínum. Þá átta ég mig á að áðan hafði ég gengið mjög grunsamlegur í átt að stórri byggingu. Horft öryggisvörðinn í augun, hent af mér stórum farmi og gengið burt með fartölvu. Ekkert lítið grunsamlegt. Þegar ég kem aftur að byggingunni sé ég að öryggisvörðurinn er að tala við löggu. Þau hætta samræðunum og stara á mig. Ég geng skömmustulegur að bakpokanum, tek hann upp og læt mig hverfa hið snarasta. En skammarlegt.

Jæja, ég var tvær vikur í Portland. Tvær vikur af lúxuslíferni þar sem ég svaf á dýnu undir hlýrri sæng í upphituðu húsi með eldhúsi og meðfylgjandi búsáhöldum. Algjör lúxus. Á þessum tveim vikum fékk ég mér þónokkra bjóra, en Portland er frægt fyrir brugghúsin sín, ég tók mér nokkrar gönguferðir, sótti einhver sjóv (meðlegendur Celestar eru öll tónlistarmenn), tók þátt í einni kröfugöngu, hélt upp á þakkagjörðarhátíðina, keypti ekkert á föstudeginum svarta (black friday) og fleiri sem krafðist lágmarks viðleitni. Þetta voru frábærar tvær vikur.

Í dag, þegar þetta er birt, eru þrír mánuðir síðan ég lenti í New York. Þvílíkir þrír mánuðir. Hefði ég komið inn í landið á venjulegum stimpli þá væri ég orðinn ólöglegur núna. En ég fékk áritun og er því öruggur í þrjá mánuði í viðbót. Þrír mánuðir af fleiri ævintýrum. Þrír mánuðir af Ameríku. Kannski fer ég til Mexíkó að þremur mánuðum liðnum, kannski hitti ég Alex vinkonu mína í Hudson, New York (sjá 2. New York – Boston, MA) eða kannski enda ég ferðina með siglingu um Kyrrahafið með Cody og vinum hans frá Omaha (sjá 6. Með hljómsveitarvan í Kansas og Nebraska). Það er allt á huldu. Hvað sem líður eru spennandi tímar framundan. Nú, í fyrsta sinn í ferðinni, hef ég slegið mér upp í föruneyti. Ég er ekki einn að ferðast lengur. Ég segi ykkur allt frá því í næsta pistli.

Runar (formerly known as Berg)
Bandon, Oregon
1. desember 2011

7. Viðstöðulaust á vegum miðvesturríkjanna

Yellowstone þjóðgarðurinn í Wyoming er þekktur fyrir tvennar sakir. Í fyrsta lagi er þetta fyrsti þjóðgarður heims. Friðlýstur árið 1872 og varð fyrirmynd allra þjóðgarða víðsvegar um heiminn í dag. Í öðru lagi er askjan, sem þjóðgarðurinn er í, sú stærsta í Ameríku og talin uppspretta einhverja mögnuðustu elgosa sem jörðin hefur séð seinustu milljón árin. Eldgosið fyrir rúmum 2 milljón árum kemst ofarlega á lista yfir öflugustu eldgos sem vitað er um. Seinasta stórgos sem átti sér stað í þjóðgarðinum, fyrir um 700 þús.árum síðan, olli kjarnorkuvetri um gjörvalla jörðina. Heimamenn tala um að það sé kominn tími á nýtt stórgos. Afleiðingarnar verða stórkostlegar fyrir alla íbúa Norður Ameríku en líka fyrir jarðarbúa yfir höfuð. Ég gef fjallinu svona 100 þús. ár til að gjósa. Líkurnar á að það gjósi á mínum líftíma eru innan við hálft prósent samkvæmt því. Ofarlega í minninguni er Danau Toba á Súmötru sem ég heimsótti árið 2008. Það eldfjall er talið hafa útrýmt öllum tegundum manna nema Homo Sapiens og Homo Neanderdal fyrir um 70 þús. árum síðan. Ferðalagið um það eldfjall var ógleymanlegt, ég var því spenntur fyrir því að heimsækja Yellowstone.

Nú ætlaði ég að ferðast viðstöðulaust frá Omaha til Vesturstrandarinnar með smá viðkomu í Yellowstone. Það ferðalag var ógleymanlegt

Viðstöðulaust puttaferðalag er ferðalag þar sem ferðamátinn er húkkuð för án þess að stígið sé frá veginum eitt andartak, þar sem maður bókstaflega lifir á puttanum. Seinustu tvo mánuðina hef ég aldrei verið lengur en tvo daga viðstöðulaust á puttanum. Nóttin á milli hefur alltaf verið í tjaldi meðfram veginum. Oftast hef ég gist hjá CouchSörferum (sófahýslum) á milli í tvær eða fleiri nætur, notað tíman til að skoða borgina/staðinn sem ég er á í hvert sinn. Frá því ég skildi við Cody, Ellen og restina af liðinu í Omaha NE komst puttaferðareynslan mín á nýtt plan. Ég húkkaði mér viðstöðulaust í 6 daga, byrjaði á hrekkjavökunni, 31. október, og endaði 5. nóvember. Alla leiðina frá Omaha til Boise, Idaho, í gegnum 4 fylki, þúsundir mílna, yfir fjöll, gegnum skóga, gegnum gljúfur, um borgir, um bæji á strjálbyggðasta svæði meginlandsfylkjanna.

Að húkka sér viðstöðulaust í svo langan tíma er áhugaverð reynsla. Áður en ég kem að ferðasögunni ætla ég að deila smá innsæi inn í þetta líferni. Lífið á vegum úti.

  1. Maður veit aldrei hversu langt maður kemst hvern dag. Maður veit ekki hvar maður endar og þar af leiðandi veit maður ekki hvernig komandi nótt verður.
  2. Maður veit nokkurnveigin hvert maður er að fara en hvernig maður fer þangað lærir maður á meðan maður er á leiðinni. Bílstjórar gefa manni oft ráð sem maður tekur framyfir plönin sín. Oftast eru þau þess virði en það getur komið fyrir að svo er ekki.

Með öðrum orðum: Hafirðu einhver plön, geturðu gleymt því að þú fylgir þeim eftir, hafirðu einhverja hugmynd um hvernig hlutirnir munu æxlast, geturðu gleymt því að þeir geri það.

Ég skráði nákvæmlega hvernig ferðin var í dagbókina mína. Ég nenni ekki að afrita það allt en ég mæli með því, ef þið komið einhverntíman í heimsókn til mín í náinni framtíð, að þið gluggið í dagbókina mína og lesið hvernig þetta ferðalag var nákvæmlega. Hér fyrir neðan eru nokkrir útvaldir partar

 

Dagur 1. Þjóðvegur 75 norður (Zombie Hitchhiking; Hrekkjavökuhúkk).

2. Tíma gangur. Fullt af bílum. Enginn stoppar. Kannski ætti ég að færi mig hinum meginn við fylkismörkin, yfir til Iowa, og taka interstatið til Sioux City. Fæ að lokum far til Blair. Fokk hvað ég er svangur. Hafði engan morgunmat fengið.

„Eggs & Bacon (skipt út fyrir Hash Browns) + All you can eat pancakes.“ Jess. Loks get ég borðað. Feitur sunnudagsbröns ☺.

Hádegi: Fæ fljótt aftur far í næsta bæ með kristnum babtista, mjög trúaðum. Hann keyrir mig að kirkjunni sinni. Fæ þar sturtu og kaffi og eitthvað. Fæ líka tækifæri til að segja skoðun mína á Jesúa frá Nasaret (Jesús Kristi), að Jesúa hafi sjálfur verið róttækur í sinni trú, að hann hafi tekið afstöðu sem endurspeglaði ekki það sem stóð að Guð hafði sagt í gamla testamentinu. Og að þess vegna þurfi ég ekki endilega að trúa öllu sem Jesúa sagði. Ég má gagnrýna það sem Jesúa átti að hafa sagt alveg eins og að Jesúa mátti gagnrýna það sem Guð átti að hafa sagt.

Annar langur gangur upp 75. Klukkustund líður áður en ég fæ far til Decatur. Farið segir mér að taka 51 vestur í gegnum Norfolk, og þaðan á 20. Hérna eru akrarnir smærri, og fleiri tré heldur en nær Omaha. Ég er kominn á verndarsvæði Indíána. Ég stend við gatnamót 75 og 51 í svona 30 mínútur. Hérna er engin traffik. Á þessum hálftíma keyra svona 3 bílar framhjá mér.

Áður en ég veit af er ég kominn í trukkalest. Trukkur stoppaði við Decatur. Hann sannfærði mig um að halda áfram upp 75, keyrði mig einhverjar 20 mílur og spurði svo: „kanntu að keyra?“. Já, svara ég, en bendi á að ökuskírteinið mitt sé í Amasonskóginum (sjá LINK). „Það skiptir engu máli,“ Hann stoppar trukkinn þar sem fullt af öðrum trukkum og stórum landbúnaðarvélum hafði verið lagt. Hann skreppur í burtu og kemur til baka á pallbíl með eldsneytistank í eftirdragi og segir: „Þú ekur þá þessum.“

Ég fylgi stóru landbúnaðarvelunum á einhvern akur. Þær hefja uppskeru og mér er skutlað aftur á þjóðveginn, 75 þ.e. Ég fæ 20 dali fyrir þessa hðálftíma „vinnu“ (vonandi les bandaríska innflytjendaeeftirlitið þetta ekki☺).

Það er langur gangur áður en nokkur stoppar. Klukkan er 4 og það fer að styrrast í sólsetur. Indjáni stoppar og keyrir mig aðeins áfram. „Þú ert á verndarsvæði vinur minn. Um’aha. Við erum enn dáldið tortryggnir á ykkur hvítu mennina. Því miður.“

Indíánasystkyni stoppa næst. Þau voru að hittast fyrst núna eftir 20 ára fjarveru og voru á leiðinni frá Um’aha verndarsvæðinu í kasínó í næsta verndarsvæði. Þau stoppa og ég sé bilaðan bíl við vegakanntinn. „Guðslukka!“ Það er stoppað strax og keyrt mig beinustu leið til Sioux City. Er kominn fyrir rétt fyrir myrkur. „Listen, I know your way man. But if there is anything, just give me a call. If it starts raining or something don’t hesitate to give me a call. Here is me phone number. I’ll give you a place to sleep, man.“ Ég tjalda bara við aðreinina að 20 vestur. Inn í loopunni. Veðrið er gott og engin þörf á að taka útúrdúr inn í borgina fyrir þægilegt rúm. Á morgun er það vestur eftur 20. Alla leiðin til Wyoming.

 

Dagur 2. 20 vestur

Aftur hefst dagurinn á 2 tveggja tíma göngu, í þetta sinn vestur eftir þjóðvegi 20. Fæ nokkra stubba og set markið á O’neil, 100 mílur vestur.

Ég er kominn lengst út í rassgat. Klukkan er að verða 11. Einhver stoppar. „Ég er að fara til Wyoming, ekki alla leiðina til Yellowstone, en við fylkismörkin ertu meira ein hálfnaður til Yellowstone. Í fyrstu er ég mjög ánægður en kemst stuttu síðar að því að hann er hundleiðinlegur. Næstum óþolandi. Og ofan á það er hann að drekka. Ég fer um 100 mílur með honum og fer svo úr bílnum. Hann skáldar að hann sé að fara norður, en þar sem hann hleypir mér úr er engin afleggjari norður. Bara pínulítill bær. Kannski 10 íbúar. Göturnar eru malaðar og eini veitingastaður bæjarinns selur ekkert nema brauð með kjúkklingaskinku. Ég nota klósettið hans. Það er það ógeðslegasta sem ég hef séð. Og hef ég komið til Asíu.

Við eftirmiðdegið stoppa gömul hjón. Þau setja mig upp á pallinn og keyra mig nokkrar mílur. Þau eru æðisleg. Við þegar leiðir skiljast gefa þau mér afganginn af hrekkjavökunamminu sínu.

Klukkan er að ganga 5 og ég er nett að leita mér að yfirgefnu húsi eða brú til að tjalda undir. Þau segja að það muni snjóa í kvöld, en ég sé engin ský á himni. Himininn er fagurblár. Ég húkka meðan ég geng meðfram þjóðvegi 20 samhliða því að leita mér að næturstað. Ég finn engan. Allt í einsu stoppa hjón frá Norfolk. Þau eru á leiðinni til Chandran við fylkismörkin að horfa á son sinn spila amerískan fótbolta, það er háskólafótbolta. Farið er 5 tímar. Upp úr þurru sé ég hvernig skýinn hrannast upp og það byrjar að snjóa á minna en klukkutíma. Ótrúlegt.

Það er orðið dimmt og allt á kafi í snjó þegar við komum til Chandran. Þessi hjón kröfðust þess að borga handa mér mótelherbergi. Ég kom engum vörnum við og þáði það. Aldrei hef ég átt jafn lúxus næturstað á þessu ferðalagi fyrr. Þetta var mjög fallega gert af hjónunum.

 

Dagur 3. 20 vestur (part 2)

Það er yndislegt úti. Bongóblíða og allt á kafi í jólalegum snjó. Ég tek eftir því að ég þarf nýja skó. Gömlu leka. Ég mun kaupa nýja í Casper WY.

Ég fæ fljótt far einhverjar mílur inn í Wyoming. Það er fallegt hérna, engin umferð algjör kyrrð. Ég mun njóta þess að labba meðfram þjóðveginum hérna. En ég fæ far mjög fljótt.

Ég kemst til Casper um fjögur-leytið. Kaupi mér nýja skó og reyni að húkka mér far í gegnum borgina.

Það gengur ekki.

Reyni að taka strætó að hinum enda borgarinnar.

Það gengur ekki. (Því tjalda ég bak við Wall-Mart)

 

Dagur 4. Yellowstone

Byrja daginn á að labba í gegnum borgina.

Það gengur eftir. Ég hafði ofmetið stærð borgarinnar.

Það er reyndar lýgi, ég byrjaði daginn á að stelast inn á Hollyday inn og þykjast vera gestur. Þannig fékk ég frían morgunmat. Ég er búinn að mastera lífið á vegum úti.

Djöfull var kallt í nótt. Ég gæti þurft að kaupa mér hlýrri föt ef það heldur áfram að vera svona kallt. Að minnsta kosti er ég kominn með hlýja skó svo dagarnir verða ekki vandamál héðan af, sé til með næturnar.

Fæ far út úr borginni þegar indjáni tekur mig upp í. Hann segir mér frá því hvernig hvíti maðurinn hefur farið með landið. Svæðið sem ég er á núna er frægt í sögunni fyrir ofsóknir hvítra gegn hans fólki. Seinna heyri ég hvernig enn þann dag í dag er farið með Lacota indjánana í Suður Dakota, ekki ýkja langt frá Sioux City. Það fannst gull á verndarsvæðinu þeirra og því voru þeir reknir burt af landinu sínu svo að hvíti maðurinn gæti grafið eftir gulli. Í dag búa þeir í sárri fátækt, eins og stór hluti innfæddra í Bandaríkjunum.

Í Riverton fæ ég aftur far á pallinum. Í þetta sinn er það indjánafjölskylda sem tekur mig upp í. Þau keyra dálítið hratt og ég er pínu hræddur.

Svo tekur mormóni mig upp í. Hann getur keyrt mig 50 mílur frá þjóðgarðinum. Ég get tjaldað þar og komist til Yellowstone á morgun. Hann hringir í ömmu sína og kemst að því að Yellowstone lokaði fyrir þrem dögum síðan og verður lokað yfir veturinn.

Bömmer.

Mormónar eru áhugaverðir. Þessi var vel læs á öll vísindi og engan vegin neitaði hann neinum vísindum sem grafa undan kristni trú (að sálinni undanskilinni). Hann bara fann leið til að útskýra vísindin með Guði inn í þeim. Það var mjög gaman að tala við hann. Þar sem Yellowstone var lokað skutlaði hann mér suður að fylkismörkum Idaho, nær vesturströndinni. Ég fékk að gista í hlýju gestaherbergi heima hjá ömmu hans og afa í Alden. Það var þægilegt.

 

Dagur 5. Utah

Ég fæ far á einhverja hæð frá snjóbrettagaurum. Hérna er ólöglega fallegt. Ég sé inni í gyl og upp á snævi þakin fjöll. Hérna er heldur engin umferð. Jafnvel þó ég þurfi að labba í tvo tíma þá mun ég njóta þess að labba þennan veg.

Þriðji bíllinn framhjá stoppar eftir 15 mínútur.

Hann sannfærir mig um að fara með sér til Utah, þaðan get ég tekið hraðbrautina beint til Portland. Hann keyrir mig til Logan sem hann segir að sé áhugaverður háskólabær þar sem meirihluti íbúa eru mormónar, þetta er svona innihaldsnauður, skýrlífur og fallegur háskólabær þar sem allir eru ofur góðir við hvorn annan og allir eru í bindindi.

Ég festist á netinu í bænum í 2 tíma. Ég er þreyttari á útiverunni en ég hélt. Ég verð samt að halda áfram því ég hafði frétt af óveðri sem mun skella á í kvöld.

Ég fæ far á stað við hraðbrautina þar sem ég sé að ég get tjaldað undir henni. Ég held samt áfram að reyna að húkka mér. Ætla að reyna þar til það kemur myrkur

Um 5, rétt fyrir myrkur, stoppar trukkur. Hann skutla mér til Eden, Idaho. Svona 30 manna bær lengst út í rassgati. Ég segi honum hvernig ég get tjaldað í skjóli fyrir storminum undir hraðbrautinni en honum lýst ekkert á blikuna. Þegar við komum til Eden, í algjöru myrkri, býður hann mér í kvöldmat (ekta mexíkanskan [það er alvöru tortillur eins ég ég fékk í Gvatemala] enda er hann sjálfur frá Mexíkó) og segir að ég meigi gista í trukknum. Það er vel þegið.

 

Dagur 6. Occupy Boise

Djöfull var kallt um morguninn. Ég reyndi að elda mér hafragraut þegar ég steig út úr trukknum en prímusinn hafði ekki við kuldann. Þetta er kaldara en er nokkurntíman í Grindavík, vindkæling meðtalinn því rokið þarna var jafnslæmt og þegar verst er í köldustu norðaustan næpunni heima. Guði sé lof fyrir það að ég þurfti ekki að gista í tjaldi í nótt. Fingurnir hefðu frosnað áður en ég næði að pakka saman tjaldinu.

Ég er ekki lengi að fá far alla leið til Boise, höfuðborg Idaho fylkis. Ég stoppa í hádegismat og ætla að labba í gegnum borgina til að halda áfram vestur. Þegar ég geng í gegnum miðbæinn sé ég að hópur fólks er setju upp tjaldbúði. Mótmælabúðir. Þarna er Food-not-Bombs að dreifa mat en ekki einkaþotum. Beinar aðgerðir gegn kapítalisma þar sem ofgnótt matar endar í ruslinu á sama tíma og stór hluti Ameríkubúa svelltur í hel. Þar sem ég snæði og ræði gegn þessum ríku 1% sem stjórnar 99% stjórnmálamanna sé ég að ég mun falla vel inn í hópinn. Ég slæ því upp tjaldinu mínu í mótmælendabúðunum og tek þátt í götutöku Boise. Áður en ég veit af er ég orðinn vinsælasti strákurinn í Boise og á erfitt með að yfirgefa vina mína fyrir vesturströndina. Vesturströndin verður að bíða í bili. Ég mun sakna þessa fólks þegar ég fer héðan. Ég ætla aðeins að njóta mín hérna þar sem mér líður vel.

Í götutöku Boise var ég í næstum viku. En meira um það næst.

Rúnar the Revolutionary
Seattle, Washington
14. nóvember 2011

6. Með hljómsveitarvan í Kansas og Nebraska

Það er fyndið frá því að segja að á milli götutaka í Ann Arbor MC og Chicago IL fékk ég far frá „good republican“, góðum repúblikana sem hlustaði á vonda og heimska repúblika tala í útvarpinu allan leiðina. Þetta var töluvert verra en Útvarp saga. Maðurinn trúði ekki á þróunarkenninguna né hnattræna hlýnun. Hann sagði mér líka að það hefði verið tákn frá Guði að ég hefði staðið þarna í vegkantinum að húkka far. Samkvæmt kristnum hætti hjálpaði hann mér þegar ég bað um hjálp, góði samverjinn. Ég bar á borðið rökin fyrir þróunarkenningunni og loftslagsbreytingunum og reyndi að réttlæta vísindalega aðferð en endaði með því að hlusta á hann afneyta þeim, þá brosti ég bara og yppti öxlum. Stundum er betra að virða bara annarra manna trúar- og pólitískar skoðanir, það gerir nærveru þeirra bærilegri, stundum jafnvel skemmtilegri. Allavega er farþegasæti bílstjóra sem gerir manni þann greiða að taka mann upp í, ekki rétti staðurinn til að rífast um hluti sem breyta hvort eð er engu, eða allavega ekki á hraðbraut í Suður Michigan. Ég passaði mig allavega að minnast ekkert á götutökurnar við hann. Ég held samt að hann hafi grunað ýmislegt út frá hippalega viðmóti mínu. Ætli það hafi ekki verið þögult samkomulag milli okkar að fara ekki út í umræður sem við vissum báðir að tæku engan enda ef þær á annað borðið byrjuðu.

Ég var staðráðinn í að fara að götutökunni í Chacago. Bæði til að taka þátt og til að hafa einhvern samanstað. Gallin var sá að í Chicago er lögreglan ekki jafn svöl og í Michigan. Tvisvar hafði hún gert atlögu að mótmælendum og hindrað þau í að setja upp búðir. Um 300 hundruð manns voru handteknir fyrir vikið. Röskun á almannafrið var ástæðan sem lögreglan gaf, en mér sýnist sem lögreglan hafi verið sú sem raskaði friðinum frekar en friðsælir mótmælendur sem bara sátu kjurrir á meðan lögreglan kom með kilfur og handjárn. Götutakan í Chicago er því nokkuð sérstök. Hún er bókstaflega á götuhorni. Þar eru á milli 20 – 500 mótmælendur í senn, berja á drumbur, halda á skiltum, hrópa slagorð, spila á gítar allt eftir mjög þröngum reglum sem lögreglan setur þeim. Þau meiga til dæmis ekki vera innan við metra frá höfuðstöðum Bank of America, ekki hafa læti fyrir 08:00, ekki hindra flæði gangandi vegfarenda, ekki elda með gasi, ekki sofa eftir 06:00 o.s.frv. Götutakunni er líka mætt með þvílíkri ókurteisi móðgaðra vegfaranda sem vinna í skrifstofum nálægra bygginga. Þetta eru skirfstofublækur sem eru gjörsamlega heilaþvegin af þessum 1% sem stjórna í krafti auðæfa. Þessir reiðu vegfarandur sem trúa því að starf þeirra færi ameríku velmegun og að því meira sem þau vinna, þeim mun líklegra að einhvern daginn verði þau hluti af þessum 1%. Ég sá mótmælendur bjóða þeim kurteisislega góðan daginn en fengu í staðinn axslaskot með hvassum tón, svona illu kvæsi. Vegna skorts á tjaldbúðum þá svæafu mótmælendur, þar á meðal ég, bara á gangstéttinni fyrir utan bankann. Það er eins og að lögreglumenn og öryggisverðir höfðu gaman að því að gera hlutina erfaðri en þeir þurftu að vera. Til dæmis beið einn öryggisvörður þar til klukkan 3 um nóttina til að segja mér að ég mætti ekki sofa á tilteknum stað á gangstéttinni. Ég færði mig um hálfan metra og öryggisvörðurinn gat ekki sagt neitt, þremur tímum síðar kom lögreglan og vakti alla með móðgunum og dónaskap, lögin leifðu henni það. Mér heyrðist það á ráðleggingum spjalli við aðra mótmælendum að þetta og verra hafa þau þurft að þola í langan tíma. Chicago er svo bara eitt dæmi af mörgum verri um framgang yfirvalda gegn friðsömum mótmælendum. Í Boston hefur fjöldi manna verið handtekin. Þau eru látin dúsa í steinunum án þess að fá að hringja og láta vita af sér, án þess að fá heilbrigðan mat, án þess að fá að fara á klósettið. Fregnir heyrðust frá Oakland CA að lögreglan hafi þar beitt kilfum, táragasi og gúmmíkúlum á friðsöm mótmælin, allt banvæn vopn. Í Atalanta GA var borgarstjórinn hræddur um að mótmælin gætu orðið ófriðsöm svo hann beitti sannanlega ófriðsömum óeirðarsveitum gegn mótmælendum, þá fyrst urðu þau ófriðsöm og spádómar borgarstjórans rættust. Á bjartari nótunum heyrðist að í einhverri borg, ég man ekki alveg hverri, hafi lögreglan neitað að fara í þessar tilgangslausu og ofbeldisfullu handtökur á samborgurum sínum. Með því sýndi hún samstöðu og sýndi í verki að hún tilheyrir okkur 99% sem eru þrælað út og arðrænd af hinum 1%.

Strax fyrsta klukkutímam þar sem ég var þarna á móti byggingu seðlabankans í Chicago, með bakpokan á bakinu lennti ég á spjalli við áhugaverða fjórmenninga sem sátu friðsöm upp við eina súlu bankans. Þetta var hljómsveit sem var að túra um svæðið. Þau voru frá Omaha, Nebraska, og voru á leiðinni til Kansas City, Kansas/Missouri, tvemur dögum síðar. „Ó, kúl, ég er á leiðinni til Omaha, ég var meira að segja með rútumiða þangað seinasta miðvikudag sem ég missti af út af því að ég óvart occupy-aði Ann Arbor, Michigan.“ „Við erum á rosa stórum bíl, þú mátt koma með okkur til Omaha ef þú villt, þú þarft reyndar að koma með okkur til Kansas fyrst, en þú mátt koma með ef þú villt.“ Tveim dögum síðar, eftir að ég hafði heimsótt Northwestern University (einn háskólanna sem mig dreymir um að stunda nám við í nálægri framtíð), Baha’í hof (það eina í Norður Ameríku og eitt af 7 í öllum heiminum) og sótt ekta Chicago blús nálægt staðnum þar sem Haymarket mótmælin (ástæðan fyrir því að 1. maí er baráttudagur verkalýðsins) fóru fram, stóð ég og öskraði slagorð gegn kapítalismanum þegar stúlka að nafni Rachel kom og pikkaði í mig. „Lamgar þér enn að koma með okkur til Kansas?“ „Jújú,“ svaraði ég. „Trukkurinn okkar er einhversstaðar handan við hornið, við ætlum að koma við í IKEA og svo keyrum við til Iowa fyrst og förum svo til Kansas á morgun. Ertu til?“ „Jább, bíddu aðeins meðan ég sæki bakpokann minn,“ sagði ég og gekk fimm metrana að bakpokanum sem lá við sömu súlu og ég hafði hitt þau við tveim dögum áður. Við, Rachel og önnur stúlka að nafni Melissa, gengum fram að næsta götuhorni þar sem hinir hljómsveitarmeðlimirnir tveir, Cody og Ellen, sátu í frekar stórum vínrauðum og riðguðum sendiferðarbíl með afmáðum gulum „School Students“ límmiða á hægri síðunni. Ég hennti bakpokanum mínnum aftur í skott, ofan á einhverja magnara og trommusett og eitthvað og við keyrðum í átt til Kansas.

Í fyrsta skiptið í ferðinni minni gisti ég á hóteli. Ég borgaði 10 dali, ofan á það sem hljómsveitarmeðlimirnir höfðu borgað fyrir herbergið, til að fá að sofa á gólfinu. Kannski var það þess virði því herberginu fylgdi morgunmatur (sem var kannski 25 senta virði) og við morgunverðarborðið blasti við tvær erkitýpur Kansasbúa. Þetta voru tveir karlmenn á fertugsaldri að tala um búgarð og ródeó, með kúrekahatt á höfðinu og þennan þvílíka Kansashreim (y’all). Þá vanntaði bara tóbak til að tyggja og spíta í skirpidollu svo hljómar í fallegt klong. Þetta morgunverðarborð var þó það eina í kansas sem uppfyllti staðalmyndina sem ég hafði myndað mér um Kansas. Þegar ég fór með hljómsveitinni að skoða Kansas City (sem er meira í Missouri en Kansas) fékk ég að sjá ýkt vintage bókabúðir, góðan lífrænt ræktaðan vegan-mat, mega flotta listræna prentsmiðju og fleira svona hippadæmi.

Um kvöldið hélt hljómsveitin tónleika sem ég auðvitað sótti. Ég held það sé kominn tími til að opinbera að hljómsveitin ber nafnið Honeybee & Hers. Melissa syngur og spilar á gítar og hljómborð, Rachel spilar á gítar og melódiku, Ellen spilar á bassa og Cody á trommur. Hljóðdæmi má finna hér http://honeybeeandhers.com/2011/09/pigeon-video/. Þetta var ógleymanlegt kvöld. Honeybee & Hers voru önnur á svið og héldu frábæra tónleika. Ég mæli alveg með þeim sko. Svo var blúsband, einnig frá Omaha. Gítarleikarinn var æðislegur á gítar en hans var samt minnst sem gaurinn sem snertir hárið á stelpum undir húfunum þeirra. Öll reyndum við að spá í hvers lags blæti það var, hvað er sexý við undir húfuna og þess háttar. Bassaleikarinn í þessari hljómsveit var líka afbragðsbassaleikari. Ekta hippi með langt hár og í allt of stórum allt of grúví bol. Hann bauð mér í hrekkjavökupartý í Omaha kvöldið eftir. Þegar ég sagði honum að ég væri á leiðinni vestur yfir klettafjöllinn, hætti hann ekki að lýsa ást sinni á fjöllum. „Hefurðu einhverntíman séð fjöll?“ spurði hann mig eftir að hafa lýst hversu æðisleg fjöll eru. „Auðvitað maður, ég er frá Íslandi. Þar er ekkert nema fjöll.“ Eftir að hafa ferðast um Nebraska áttaði ég mig á því að spurningin er ekki svo heimskuleg. Í Nebraska er ekkert nema kornakrar, gresjur svo langt sem augað eigir. Þetta er í raun eins og að vera út á sjó, nema bara að það eru endalausar girðingar út um allt. Þessi bassaleikari fékk líka krípí stimpill á sig eftir kvöldið og ég endaði með að beila á hrekkjavökuboðinu hans. Ég veit ekki afhverju. Ég hóf kvöldið á því að fara með Cody og Ellen (þau eru kærustupar og búa saman, ég gisti heima hjá þeim í Omaha) á einhverskonar sýningu sem vildi svo heppilega til að var akkúrat verið að sýna þegar ég var þarna, lokasýningin sko. „Hvernig sýning?“ Spurði ég. „Þetta er einhverskonar performans sjóv, þú veist svona hreyfilist og þannig,“ „Það er ábyggilega einhver dans, ég sá að XXXX var með þeim. Hann er dansari.“ Jæja, ég sló til, enda hafði ég ekkert annað að gera hvort eð er. Sýningunni er sennilega best hægt að lýsa sem múltídisiplanerí. Það var blandað saman leiklist, hreyfilist, tónlist, dansi, heimspeki, vídeólist og fleira. Umfjöllunarefnið var geimurinn. Farið var með texta eftir menn eins og Carl Sagan, Carl Jung var þarna með konflikta um eiginleika meðvitundarinnar samanborið við geimflaugar og Major Tom, hugverk Davids Bowies fékk líka að vera með. Þetta var alveg magnað. Spontant sjóv sem virkaði sko.

Ég var einn dag í viðbót í Omaha, en gerði ekkert sem er skemmtilegt að segja frá. Ég fór í afmæli og horfið á Rocky Horror á spólu (!), þú veist, hrekkjavakan. Ég meina, ég skemmti mér alveg vel, en glætan að ég eigi eftir að finna einhverja skemmtilega leið til að gera það að áhugaverðu umfjöllunarefni. Það sem ég er að gera núna er eflaust mun skemmtilegra fyrir ykkur að lesa. Ég segi ykkur frá því í næsta pistli.

Hrekkjavökukveðja.

Runar
Casper, Wyoming
2. nóvember 2011

5. Michigan: Eða hvernig ég tók Liberty Plaza

Smá baksaga. Eftir þrælastríðið í Bandaríkjunum um miðja 19. öld fluttust margir fyrrverandi þrælar til norðurríkjana í leit að vinnu. Í norðurríkjunum voru lífsskilyrðin betri, fleiri járnbrautir, betri hús, fleiri verksmiðjur og meiri peningur. Afkomendur þessara fyrrverandi þræla eru nú stór hluti íbúa í norðlægum fylkjum eins og hérna í í Michigan, enda hefur hér alltaf verið næga vinnu að fá þökk sé fjöldan allan af verksmiðjum sem þetta fylki er frægt fyrir. Það var líka hérna sem að bílaiðnaðurinn hófst. Detroit er oft kölluð bílahöfuðborg heimsins. Í kreppunni sem hófst 2008 (og reyndar nokkuð fyrir hana) var Detroit fyrst til að hrynja. Verksmiðjurnar lokuðu hver á eftir annarri, fátækt jókst, atvinnuleysi jókst, fleiri urðu heimillislausir og fleiri hús stóðu tóm. Sumir héldu kjurru fyrir í húsunum sínum þrátt fyrir að bankinn hafði tekið það að sér, aðrir fóru inn í önnur tóm hús eða verksmiðjur. Enn fleiri flúðu borgina. Núna stendur borgin eins og hálftóm Chernobyl. Annaðhvert hús er ýmist tómt, brunnið eða bæði, lóðir standa í órækt, verksmiðjurnar stopp, skrifstofubyggingar (jafnvel alveg í miðborginni) teknar yfir af hústökufólki sem átti ekki annarra kosta völ. Borgin er tóm. Eins og í heimsendamynd, eins og eftir Zombífaraldur. En í tómi gerast ótrúlegir hlutir. Fólk er ófeimið við að fynna sér garða í órækt og rækta grænmetið sitt þar¹. Einnig er þekkt að fólk noti tómu húsin sem listagallerí eða stúdíó². Svo að kreppan er ekki eintómt volæði. Kreppan gefur hlutum líf sem hefðu kramist undir orðum eins og ósamkepnishæfni og neikvæður hagvöxtur árið 2007. Sem færir mig að því sem allir er að tala um í Norður Ameríku í dag. Götutökurnar (occupy).

Ég veit ekki hvort þið trúið mér, en það eru ótrúlegir hlutir að gerast í Ameríku. Það lyktar af byltingu.

Þetta byrjaði allt saman á Wall Street, New York, fyrir rúmum mánuði síðan. Couch-hýsillinn minn í Worcester, MA, sagði mér frá því að hópur fólks hefði tekið yfir (occupied) Wall Street götuna í viðskiptahverfi New York borgar. Þegar ég var á leiðinni til Montréal, QU, sá ég að Aliza frá Boston, MA, hefði, ásamt öðrum Tufts nemendum, tekið þátt á samskonar viðburði í Boston. Þegar ég komst til Montréal frétti ég að þessi yfirtaka var víst töluvert stór. Fullt af fólki hefði komið þangað til að láta í sér heyra en hefði mætt harðri mótspyrnu ofbeldisfullra lögreglumanna. Í Montréal sá ég líka að samskonar viðburður var auglýstur á flestum ljósastaurum borgarinnar. Sömu söguna var að segja í Toronto, ON, en þessir viðburðir áttu að eiga sér stað 15. október, þegar ég var í Detriot, MI. Allsstaðar á leiðinni minn hafði ég heyrt fólk tala um hversu ósanngjarn og skaðlegur viðskiptaheimurinn er, og hversu samkrulluð pólitíkin er markaðinum. Allir, sama hvort það voru ökumenn sem tóku mig upp í eða hýslar frá CouchSurfing.org, töluðu um hversu mikið þetta þarf að breytast. Það leit út fyrir að alda byltingarinnar væri að elta mig alla leiðina frá New York, í gegnum New England og Kanada, til Michigan. Í Detroit náði hún mér. Mótmælaganga var skipulögð föstudaginn sem ég var þar og ég tók þátt í henni. Einungis með viðveru þó. Eftir gönguna setti hópur fólks upp tjaldbúðir á torginu samskonar þeirri sem hafði staðið frá því um miðjan september við Wall Street. Nokkur hundruð manns voru þar víst, þar á meðal fólk sem ég átti síðar eftir að kynnast. Í Ann Arbor, MI, (minna en klukkutíma fjarlægð frá Detriot) hóf ég beina þátttöku í byltingunni.

Hversvegna ég tók þátt í að yfirtaka Liberty Plaza í Ann Arbor er merkileg saga út af fyrir sig. Ég var á leiðinni til Chicago, IL, staðráðinn í að ná að vesturströndinni áður en það yrði of kallt. Ég var meira að segja búinn að bóka mér rútufar til Omaha, NE (12 dalir fyrir 8 tíma rútuferð tek ég) sem átti að fara miðvikudaginn seinasta frá Chicago. Ég húkkaði mér frá Detroit á sunnudaginn var og fékk fljótt far til Ann Arbor. „Þú ættir að kíkja á Ann Arbor,“ var sagt við mig. „Þetta er rosa flott borg, háskólaborg, mjög liberalt allt saman. Allt annað en Detroit.“ Ég var sannfærður og ákvað að kíkja að minnsta kosti í bröns þangað. Klukkan var ekki nema 10 og það var nú einu sinni sunnudagur. Þó ég fengi ekki far fyrr en 12 úr Ann Arbor yrði ég samt kominn til Chicago fyrir sólsetur. „Þú ætti að kíkja occupy-ið þarna, þú myndir kunna vel við þig þar.“ „Er Occupy í Ann Arbor?“ Spurði ég. Ég gekk um miðbæinn í hálfgerðri leit af yfirtökunni en var þó aðallega að leita að flottum veganstað sem byði upp á bröns, svona hippafíling. Áður en ég fann brönsið fann ég tökuna, og áður en ég vissi af var ég kominn inn á vinsælasta veitingastað hippa þessarar borgar, ekki til að snæða, heldur til að kaupa lífræna hrísgrjónamjólk til að búa til vegan grjónagraut fyrir yfirtökuna. Það sem átti að vera einn bröns varð 9 daga bein þátttaka í aktivistahreyfingum Ann Arbor. Áður en ég vissi af var ég orðinn allt of mikilvægur hlekkur í hreyfingunni. Ég var búinn að eignast fullt af vinum, taka þátt í helling af viðburðum, fundum, þinghöldum (general assemblies) og undir lokin ákvað ég að halda upp á afmælið mitt þarna þar sem ég var búinn að eignast svo marga vini.

Þegar ég sá fyrst götutökuna í Ann Arbor var þar bara ein stelpa, Michaela, sem sat og hélt á úr sér gengnu skilti sem á stóð „Occupy the World“, litirni afmáðir og hafði greinilega ringt töluvert á. Það var ekkert tjald, ekki einu sinni opið partítjald til að skýla henni fyrir rigningunni sem hafði gengið á undanfarna daga. Ég hjálpaði henni að reisa skýli svo að hún (og ég) þyrfti ekki að sofa undir rigningunni ef það skildi rigna. Hún hafði verið þarna í 4 daga áður en ég kom. Hún, ásamt nokkrum öðrum (Alex, Sincere og John) höfðu gist þarna undanfarnar nætur til að mótmæla misskiptingu í Amerísku samfélagi þar sem ríkir bissnesskarlar stjórna öllu með auðnum sínum á meðan fólk deyr á götum bandarískra borga því það á ekkert hús að verma. Sincere er búinn að vera heimillislaus sjálfur síðan í sumar og er búinn að lifa á þessu torgi. Þetta torg er líka þekkt fyrir að vera samkomustaður (og gististaður) heimillisleysingja borgarinnar. Eitt af því sem við vorum að berjast fyrir var að veita þessum fjölda skýli svo þau gætu lifað af veturinn. Borginn átti efni á að reisa nýjan íþróttaleikvang fyrir háskólann, en ekki að halda skýlum opnum fyrir heimillislausa. Slíkt hegðun borgaryfirvalda er vítaverð og er í raun ekkert nema morð.

Þegar mest var vorum við yfir 10 sem gistum þarna. Allt frá fimmtugum kommúnistum og fyrrverandi hermönnum til tvítugra graffara. Þegar ég fór var götutakan búinn að vaxa töluvert, þarna var bókasafn, skiltagerð, eldhús og eflaust gistipláss fyrir þrjátíu einstaklinga.

Ég veit núna að Ameríka er ekki jafn pólitískt heft og fólk vill meina heima. Þó þetta sé landið sem kaus George Bush sem forseta (tvisvar), er sífellt að ráðast inn í ný lönd, myrðir þegnana sinna í nafni réttarríkissins, er frægt fyrir kynþáttafordóma, homofóbíu, kristna bókstafstrú, misskiptingu og hamfarakapítalisma, þá er gífurleg mótspyrna að eiga sér stað í þessum töluðu orðum. Fólk er á leiðinni út á göturnar. Fólk sættir sig ekki við þetta ástand. Fólk tekur málin í sínar hendur.

Runar
Ann Arbor, Michigan
24. október 2011

Ýtarefni:

Decleration of the Occupation of New York City (http://www.nycga.net/resources/declaration/)

„Why We are Here“ First official release from Occupy Wall Street (http://occupywallst.org/forum/first-official-release-from-occupy-wall-street/)

Occupy Ann Arbor (http://www.occupya2.org/)

Andrew Schulman. (21. október 2011). Occupy Ann Arbor discusses challenges. The Michigan Daily. Sótt 24. október af http://www.michigandaily.com/news/occupy-ann-arbor-holds-third-meeting-liberty-plaza

_________

1: Urban agriculture er fræg iðja í Detroit. Til eru dæmi þar sem að tómar verksmiðjur eru notaðar undir búfé og fleiri húsaraðir undir grænmetis og baunarækt. Sjá til dæmis http://www.detroitagriculture.org/

2: Sjá til dæmis African Bead Museum http://www.mbad.org/

4. Kanada og góðar göngur hingað til

Mér langar, kæru lesendur, að byrja þennan pistill á að segja ykkur frá frábæru tómstundargamani sem ég hef stundað villt og galið seinasta mánuðinn og viku til. Það tómstundargaman gengur undir mörgum nöfnum en er hellst kallað göngutúr. Í Boston, Montreal, Hudson, New York og um þau svæði við veginn sem ég hef tjaldað til nætur fjarri byggðu bóli hef ég eytt mörgum stundum í að ganga um. Ég hef stundum líka kosið að ganga að áfangastað frekar en að nota almenningssamgöngur einungis því að gangan þangað höfðar til mín. Gangan gefur mér tilfinningu fyrir umhverfinu sem strætisvagnar og enn síður neðanjarðarlestir gætu aldrei gefið mér. Jafnvel þótt gangan taki mig tvær til þrjár klukkustundir þá er hún þess virði. Best þykir mér þó að ganga um. Bara byrja að labba án þess að hafa nokkurn stað þar sem ég þarf að enda á, né koma við á. Bara labba og labba og labba. Þurfi ég á klósettið, fer ég á það, sé ég svangur, borða ég. Sé ég fallega bókabúð, skoða ég hana, langi mér í kaffi, finn ég mér kaffihús, og sé ég orðinn þreyttur fer ég heim. Að ganga um götur bæjarins er það besta sem ég geri. Kannski læt ég hugann reika á meðan göngu stendur, kannski nýti ég tækifærið og skoða umhverfið. En oftast geng ég bara. Slekk á allri líkamsstarfssemi fyrir utan þeirri sem gangan krefst.

Hingað til hefur besta gangan sennilega verið gangan frá rútustöð í miðbæ Montréal heim til Roz sem ég var að sörfa hjá. Hún bjó í svona 90 mínútna göngufæri frá miðbænum. Á leiðinni skoðaði ég McGill háskólann, og sótti þar fyrirlestur um seglun og segulsvið, fékk mér Québecska beyglu á litlu krúttlegu kaffihúsi, skoðaði graff og ýmislegt. Stundum tók ég bakpokann af mér, skildi hann eftir á öruggum stað og gekk bara eitthvert í dágóðan tíma áður enn ég snéri aftur að sækja bakpokann og hélt áfram í átt heim til Roz. Samtals var ég svona 5 tíma á leiðinni til hennar, með og án bakpokans.

Þessi gönguferð um Montréal er svolítið lýsandi fyrir Ameríkuferðina mína í heild. Núna er ég til dæmis á leiðinni á einn tiltekinn áfangastað, Portland, Oregon, en á leiðinn ferðast ég bara. Ég tek mér útúrtúra, stoppa við, skoða, geri hitt og þetta á leiðinni og nýtt þess að ferðast. Ég ferðast ekki til að komast á milli staða, heldur ferðast ég í þeim tilgangi að ferðast. Ég meina, það tekur nokkra klukkutíma að fljúga frá New York til Portland, nokkra daga að keyra, en ég ætla þessa leið á nokkrum mánuðum.

Þessi ferðaháttur minn vakti minna en litla grunsemd meðal landamæraverða sem áttu að hleypa mér inn í Kanada um daginn. Þetta var sama vesen og þegar ég kom inn í Bandaríkin um Newark flugvöll, nema bara núna þá var mér ekki hleypt inn í landið. Eftir klukkutíma tilraun í að reyna að sannfæra landamæravörðinn um að ég væri bakpokalingur hvers tilgangur væri að ferðast og skoða Norður-Ameríku var ég látinn skrifa undir plagg þar sem beiðni mín um að komast til Kanada var dregin til baka. Það sem upp á vantaði var símanúmer vinkonu minna Jesse Crow sem býr í Toronto, sönnun á fjárhag og að ég hafði aðgang að peningunum mínum í Kanada og sönnun á að ég væri með gistipláss í Montréal. Ég fór aftur yfir landamærin til Bandaríkjanna (þar sem annað eins umstang átti sér stað) og safnaði saman öllum þessum sönnunargögnum með hjálp nýju tölvunnar minnar. Mér var aftur vísað frá Kanada í annarri tilraun þar sem landamæravörðurinn vildi í þetta sinn sjá að ég væri sjúkratryggður. Ég þurfti að gista nóttina á landamærunum því ég gat ekki hringt til Íslands til að grennslast fyrir um trygginguna fyrr en morguninn eftir þegar allt opnaði á ný heima. Morguninn eftir hringdi ég í Vísa, fékk trygginguna á hreint, og sönnun þar um senda með tölvupósti, og reyndi við landamærin í þriðja sinn. Nú voru verðirnir tveir. Eftir mikla tregðu hleyptu þeir mér inn með þremur skilyrðum (ég býst við að þeir voru orðnir uppiskroppa með afsakanir fyrir að halda mér úti), ég þurfti að yfirgefa Kanada áður en tryggingin mín rennur út 31. október, ég mátti ekki vinna og ég mátti ekki sækja mér neina menntun1. Landamæralöggan er ekki hrifin af ferðaháttum mínum2.

Að Québec fylki. Ég hafði misreiknað ferðatímann inn í Montréal og kom þangað degi of snemma. Það var allt í lagi. Það var þó miður skemmtilegt hve mikið rigndi á meðan ég var í Montréal. Ég þrjóskaðist til að skoða gröff borgarinnar á hjóli, lagði af stað undir morguninn. Ég hafði fengið einhverjar upplýsingar um hvar helstu gröffin væru að finna en mest hjólaði ég bara út í buskann og svo lengra út í buskann. Svona eins og góð gönguferð. Og eins og í góðri gönguferð leit ég inn í fjöldann allan af kaffihúsum, plötubúðum, bókabúðum, hjólaði í gegnum garða, sá krakka spila amerískan fótbolta, fór upp á borgarfjallið, Mont Royal, o.s.frv. Ég kom heim undir kvöld gegnvotur eftir um 7 tíma hjólreiðatúr í rigningunni. Æði. Roz, sem ég minntist á áðan, og kærastinn hennar, François, voru á leiðinni að hitta foreldra François, sem eiga heima í smábæ norðar í Québec, ásamt því að skoða haustlitina í leiðinni. Þau buðu mér að fara með. Ég hafði þegar séð haustlitina í New Hampshire (sjá 3. The Appalachian Trail at Franconia Notch in the White Mountain National Forest, New Hampshire) en ég þáði samt boðið. Það var algjört ævintýri. Það hellirigndi allan tímann. Við tókum smá göngu upp á nálægt fjall. Svona klukkutíma ganga. Nógu löng til að við vorum guðslifandi feginn að koma inn í hlýjuna hjá foreldrum François þar sem heit súpa og álíka heitar pólitískar umræður biðu okkar.

Sjáið til. Ég var ekki búinn að segja ykkur frá François. Fyrir það fyrsta notar hann Linux af pólitískum ástæðum, frjálsa hugbúnaðarbyltingin. Hann ræktar eigið hunang í bakgarðinum sínum og er líka með hlynsíróptré í garðinum sínum sem hann tappar af hvert vor og síður sjálfur síróp úr. Ef hann er spurður segist hann ekki vera Kanadabúi heldur Québecbúi. Hann er sumsé hlynntur aðskilnaði Québec og Kanada, eins og svo margir Québecbúar. Reyndar er heimilli Rozar mjög pólitískt heimilli. Þar eru saman komnir aktivistar, feministar, umhverfisverndarsinnar og ég veit ekki hvað og hvað. Einn morguninn vaknaði ég við að stofan var full af fólki frá latnesku Ameríku sem hélt þar fund á spænsku (ég held um hvernig hjálpa má innflytjendum sem lenda utan kerfisins). Allavega, foreldrar François eru jafn pólitískir og hann og Roz, en þeim greinir á um margt eins og svo algengt er á milli kynslóða, hversu róttækur maður má vera o.s.frv. Þetta var skemmtileg ferð norður.

Að Ontario fylki. Eftir næstum viku í Québec var komið að Toronto, Ontario. Ég frétti af 15 dala rútuferðum á milli þessara stórborga Kanada, svo ég leyfði mér þennan lúxus svona einu sinni. 15 dalir fyrir 5 tíma rútuferð er mjög sanngjarnt verð finnst mér, ef til vill mætti kalla það ódýrt.

Aðalafsökunin fyrir því að fara til Kanada var að hitta vinkona mína Jesse Crow sem ég hafði áður kynnst í Reykjavík. Hún hafði gefið mér klippingu og ég hafði bakað handa henni pönnukökur. Nú skildi endurtaka leikinn í Toronto. Þegar ég kom seint á þriðjudagskvöldi tók Jesse Crow á móti mér og fór með mig beint á karaokebar, ennþá með bakpokann á bakinu, ef til vill lýsandi hegðun fyrir Jesse sem aldrei missir af Karaoke. Ég var viku í þessari borg. Mest var ég að dást að því hversu svöl þessi borg var. Jesse sagði mér frá garði þar sem allir hipsterarnir spóka sig í. Auðvitað varð ég að skoða hann og framkvæma óformlega atferliskönnun á þessum sérflokki manna sem aðrir kalla hipstera3. Ó já, ég gleymdi að segja að Toronto er ásamt Brooklyn, New York, álitin nafli hipsteramenningarinnar. Það eru allir hipsterar í Toronto (þeim hverfum sem ég var í allavega). Ég meina, ÉG var hipster í Toronto. Ég var farinn að bretta inn buxurnar mínar, þóttist þekkja ógeðslega mikið af frægu fólki og meira að segja fór ég í að minnsta kosti eina vintage (ísl. það sem er gamalt og kúl) verslanir á dag, ekki bara til að skoða plötur og bækur heldur líka jakka og vesti, og mér þótti það gaman. Hann ég sem kaupi mér aldrei föt væri sennilega búinn að kaupa flíkur í tonnatali ef ég byggi í Toronto. Ég meina, þarna voru afbragðs gömlu manna jakkar á svona 30 dali og ullarbindi á svona fimm. Annað sem gerir Toronto að svona svala er graff og tattúmenningin. Það er pís á öðruhverju húsi þarna. Flest þeirra mjög töff, og allir hipsterar eru flúraðir mjög flottum flúrum, helst frá toppi til táar. Ég ætlaði að ná einhverjum sjóvum þarna en lét aldrei verða af því. Toronto er líka þekkt tónlistarborg. Sérstaklega á indírokk og raftónlistar sviðinu. Ég náði einu raftónlistarbandi en hefði vilja ná á rokktónleika. En svona er þetta.

Það voru tveir atburðir sem ég verð að bæta inn í sem gerðust í Toronto. Annarsvegar þá fullkomnaði ég hipsteralúkkið mitt með klippingu sem Jesse gaf mér fyrir íslenskar pönnukökur sem ég bakaði4. Hinsvegar vildi svo heppilega til að kanadíska þakkagjörðarhátíðin var haldinn á meðan ég var í þarna. Jesse tók mig með sér á þakkagjörð munaðarleysingja (e. orphin thanksgiving) sem hún kallaði svo, en var í rauninni nokkrir vinir sem enginn átti fjölskyldu í borginni (Jesse Crow er til dæmis uppalin í Saskachuwan). Hver kom með sinn rétt og lögðu saman í kalkún. Grænmetisætan ég eldaði auðvitað hnetusteik sem kom í stað kalkúnsins við mikla hrifningu gesta. Ætli ég sé ekki bara ágætur kokkur.

Að lokum pistilsins. En ég mun halda áfram að ferðast ekki vitandi nákvæmlega hvaða leið ég fer, ekki vitandi nákvæmlega hvernig ég fer hana. Ég mun bara ferðast. Ekki til að versla, ekki til að heimsækja neinn heldur mun ég ferðast með þeim eina tilgangi að ferðast. Eins og góður göngutúr er markmiðið einungis ferðalagið sjálft. Allt annað er bónus.

Rúnar Berg a.k.a. Cliff
Ancaster, Ontario
11. október 2011

– uppfært
Rúnar Berg
Detroit, Michigan
13. október 2011

_________

1:Ég hef nú þegar sótt þrjá fyrirlestra við virta háskóla í Kanda og lært að búa til veski úr silfurteipi, auk þess sem ég er um margt vitrari um Québecsk stjórnmál, skildi það vera brot á þriðju reglunni? Svo bakaði ég pönnukökur fyrir klippingu í Toronto, skildi það flokkast undir atvinnu?

2:Ég velti því oft fyrir mér hve minniháttar þessir erfiðleikar eru fyrir mig. Ég meina, það er ansi pirrandi að vera hamlaður svona út af heimskulegri og ósýnilegri línu sem eflaust hefur orsakað fleiri stríð en nokkuð annað í heiminum. Ég meina, miðað við flóttamenn og hælisleitendur sem oft eru sendir heim til sín þar sem pólitískar ofsóknir bíða þeirra. Svo finnst mér landamæri slæm fyrirbæri fyrir samfélag manna að allt sem ég hef um það að segja kem ég enganveginn fyrir í einni neðanmálsgrein. En endilega spyrjið mig um það hvers vegna ég hata landamæri næst þegar þið hittið mig.

3:Hipster er einstaklingur sem er and-meinstrím. Hipster hlustar á jaðartónlistarstrauma (alls ekki popptónlis), er oftar en ekki í hljómsveit, klæðist ekki fötum nema annar hafi átt þau á undan honum (vintage) og svei mér þá ef þeir tali ekki með sérstökum hreim líka. Hipster ég myndi bretta upp á buxurnar mínar svo þær yrðu þröngar, ganga um með óstyrktu gleraugun mín og röndóttum bol. Hipster ég væri líka búinn að kaupa vintage jakka frá 8. áratugnum.

4:Þegar ég ætlaði að máta hipsteragleraugun mín við nýju klippinguna, komst ég að því að þau höfðu brotnað í vasanum mínum. Mér þótti það miður.

3. The Appalachian Trail at Franconia Notch in the White Mountain National Forest, New Hampshire

Þriðji bíllinn sem stoppaði fyrir mér á leið minni frá Hudson, New York, til Boston, Massachusetts, var bæjarstarfsmaður í bænum Great Barrington, MA. Hann er vanur að stoppa fyrir öllum sem hann sér bera stóra bakpoka því Appalachian Trail (AT), göngustígurinn um frá Georgíu til Maine um Appalachian fjallagarðinn, liggur nokkrar mílur fyrir austan bæinn. Hann sjálfur er göngugarpur og skilur því leiðindin sem fylgja því að ganga með fram umferðargötum, þjóðvegum og hraðbrautum áður en maður kemst út í alvöru náttúru. Hann lýsti þessari gönguleið fyrir mér á meðan hann keyrði mig nær Boston. Hún fer upp og niður, um þjóðlendur og skóga, stórkostlegur núna þegar byrjar að hausta og tréin fara að skipta litum. Ég mun sjá rautt, gult, brúnt allsstaðar. Ég var mjög áhugasamur og lofaði honum að ég skildi fara á þessa gönguleið einhversstaðar á leiðinni.

Þegar ég kom til Worcester næsta dag sagði CouchSörfarinn sem hýsti mig, David, mér frá sömu gönguleið. Hann sýndi mér myndir frá göngu sem hann hafði farið fyrr um sumarið og mælti með tilteknu svæði þar sem bæði dagsferðum og viku leiðangrar væru mögulegir. Svæðið, eða þjóðgarðurinn, heitir White Mountain National Forest, í New Hampshire. Í Boston tók ég endanlega ákvörðun. „Ég er búinn að hafa það allt of gott í þessum stórborgum og smábæjum. Nú er kominn tími á að ég fari að lifa einn með sjálfum mér í tjaldi út í náttúrunni. Ég fer núna til New Hampshire í þennan þjóðgarð og labba um þessi fjöll. White Mountain, hér kem ég.“

Ég notaði síðasta daginn minn í Boston til að undirbúa mig, hala niður kortum, skrifa niður veganúmerin sem ég þurfti að húkka, merkja gönguleiðir í White Mointain og þess háttar. Um kvöldið fór ég reyndar óvart út á lífið með Alizu, sem þá var að hýsa mig í Boston. Hún er sálfræðinemi við Tufts háskóla í Boston og bjó á kampusnum þar. Svo ég fékk smá snefill af amerísku kampus lífi. Þetta er ekki alveg eins og í bíómyndunum en þó á allt öðru leveli en háskóla lífið heima. Aliza sýndi mér fallbyssu á háskólasvæðinu sem hefð er að mála upp á nýtt hverja einustu nótt. Hún var máluð með ameríska fánanum í þetta sinn (málararnir þurfa að vernda fallbyssuna alla nóttina, því annars er hætta á að hún verði máluð upp á nýtt). Svo gengum við að túni þar rétt hjá sem búið var að afmarka með gulum lögregluborða. Innan borðans voru eldkastarar að leika listir sýnar, og utan hans var fjöldinn allur af stúdentum að æfa sig með svokallað poi. Þar voru líka ýmsir sem tóku það að sér að kenna hver öðrum að poi-a. Þetta er víst gert hvern einasta fimmtudag er er sjálfsprottið athæfi stúdenta. Ég fékk mína lexíu í poi-i. Þegar við gengum til baka var búið að mála fallbyssuna hvíta með gráu graffi. Svo var pakkað saman og skellt sér út á lífið, komið heim, sofið í nokkra tíma, vaknað eldsnemma og út á vegina. Vegina sem eiga að einkenna þetta ferðalag mitt um Ameríku.

Mér þótti leiðinlegt að yfirgefa Alizu svona snemma, hún bauð mér að vera eina nótt í viðbót gegn því skilyrði að ég mætti í partý um kvöldið. En ég hafði tekið ákvörðun. Vegirnir kölluðu og nú var rétti tíminn til að fara. Kannski hitti ég Alizu einhverntíman aftur í öðru lífi.

Ég byrjaði ferðina mína að White Mountain með því að taka comuter lestina að bæ rétt utan við Boston sem heitir Concord, MA. Concord er heimabær Henry Davids nokkurns Thoreau, höfund Walden. Árið 1845 rölti Thoreau út í skóginn þar til hann kom að tjörn sem núna heitir Walden’s Pond. Hann byggði sér kofa þar, kofa á stærð við lítið herbergi (minni en gamla stúdíóíbúðin mín á háskólagörðum). Og í þessum kofa bjó hann, í burtu frá samfélaginu í 2 ár, 2 mánuði og 2 daga. Það sem hann kallaði tilraun. Bókin Walden: Or Life in the Woods fjallar einmitt um þessa tilraun hans. Sem aðdáandi Thoreaus varð ég að skoða þennan stað sem þessi merki rithöfundur og pólitíski andófsmaður þróaði lífsspeki sína þegar hann var lítið eldri en ég er núna.

Í Concord setti ég þumalinn upp á nýjan leik. Klukkan var að nálgast hádegi. Ég hafði misst af fyrstu lestinni úr Boston og var lengur við Waldens Pond en ég hafði reiknað með. Ég var í seinna lagi. Aðeins fimm góðir tímar eftir af deginum til að húkka sér áður en ég þarf að tjalda. Ég náði að Manchester, NH, stærstu borgar New Hampshire. Þar byrjaði að rigna. Klukkan var orðin fimm og ég sá fram á að þurfa að labba í gegnum borgina þvera til að fá far frá þessu svartholi puttalingsins. Það eina sem er verra á vegi puttaferðalangs en stórborg, er stórborg að nóttu til. Ég var staddur við veg þar sem stórverslanir á borð við Wall-Mart eru út um allt. Þetta er ein lengja og finnst víðast hvar við helstu umferðaræðar inn og út úr bæjum og borgum Bandaríkjanna. Ég sá fram á að geta tjaldað óáreittur fyrir aftan eina stórverslun sem var í byggingu. Rigningin ágerðist með kvöldinu og ég endaði á að borða kvöldmatinn minn rennandi blautur. Ég hefði átt að vera með regndúk til að koma í veg fyrir það. Ég skreið inn í tjaldið og skipti hið snarasta úr blautu fötunum. Loks fór að hellidemba. „Ég má ekki blotna,“ „ef það gerist, verður mér kallt og fæ engan svefn.“ Ég kúrði mig ofan í svefnpokann og reyndi að hreifa mig sem minnst. Hver hreyfing á tjaldinu myndi hleypa regndropum inn. Þarna lá ég hreyfingarlaus þar til það versta var yfirstaðið og hugsaði um að á sama tíma hefði ég getað verið í partýi heima hjá Alizu.

Ég náði einhverjum svefni um nóttina, en töluvert af regndropum hafði komist inn í tjaldið. Það voru pollar á gólfinu. Öll fötin mín voru rök (sennilega frá kvöldinu áður frekar en nóttinni) og koddinn minn (hreinu nærfötin) var gegnvotur. Svefnpokinn var líka í blautara lagi þar sem ég hafði misst hann ofan í einhverja polla um nóttina. En það þarf ekki að væla út af því. Veðrið var að skána og það leit út fyrir að ég fengi blíðu þegar ég færi í gönguferðina um þjóðgarðinn. Það væri fyrir öllu.

Það var rétt hjá mér sem ég hafði ályktað kvöldið áður. Ég þurfti að ganga í gegnum alla Manchester, NH, til að geta fengið far frá henni. „Því norðar sem þú ert, þeim mun auðveldara verður fyrir þig að fá far“ sögðu þeir mér. Það reyndist líka rétt. Ég kom að þjóðgarðinum um 4 leitið. Fullkomið, það var glampandi sólskin og góður þurrkur, ég gæti notað restina af deginum til að þurrka það sem hafði blotnað kvöldið áður. Ég þurfti að labba tvær mílur frá þeim stað sem mér var skutlað að tjaldsvæðinu. Á leiðinni hitti ég annan puttaferðalang sem kom á móti mér. Hann sagði mér að ég gæti tjaldað þar sem Appalachian Trail fer undir hraðbrautina. Ég athugaði málið og sá þar fullkomið tjaldsvæði. Burt frá öllum sem vilja rukka mig pening, einungis nokkrir göngugarpar myndu sjá mig, engar löggur, ég var undir hraðbrautinni, semsagt í skjóli frá rigningu, það var búið að búa til eldstæði og safna eldiviði, fullt af vatni og á til að þvo föt og leirtau og til að baða sig í. Ef mér hefur einhverntíman langað að búa undir hraðbraut þá væri það þarna.

Eins og vanalega vaknaði ég við dögun (sirka 6:40). Ég skildi allt óþarfa eftir í tjaldinu og hélt meðfram AT upp á fyrsta tindinn, Mount Liberty, 4459 fet. Það var út úr almannaleið. Flestir ganga Franconia loop sem nær á AT við Little Haystack, 4800 fet, svona þrem mílum norðar. Það var eins og að ganga á túristavegg þegar ég kom þangað. Ég hitti engan á leiðinni upp Mt. Liberty en á Little Haystack þar sem gönguleiðirnar mætast voru svona 100 manns. Leiðin lá svo upp á tvo aðra tinda, Mt. Lincoln (5089 fet) og Mt. Lafayette (5249 fet). Ég var kominn aftur að tjaldinu mínu um fimm leitið. Nóg fyrir þvott, og sundsprett fyrir kvöldmat. Veðrið var æðislegt og ég sá að það var ástæða fyrir því hvers vegna allir höfðu mælt með þessari göngu. Haustið litaði svo sannarlega fjallshlíðarnar stórfenglegum litum. Mér leið vel í þessum þjóðgarði, og ég var alvarlega að spá í að pakka saman og halda mér á AT vestur til Vermont og húkka mér þaðan upp til Kanada, en ég fann á mér að ég þurfti að koma mér til byggða og láta vita af mér. Fólkið heima var eflaust byrjað að hafa áhyggjur af mér. Upp á hraðbrautina með mig, upp með þumalinn og upp til Kanada. Það er næsta stopp.

Ég er kominn til Kanada núna. En ég segi ýtarlega frá Kanada-útúrdúrnum mínum í næsta pistli. Þangað til segi ég peace out ☮

Cliff Baugsson Sigríðarson
Saint Jean Sur Richelieu, Quebec
29. september 2011