1. New York
Upphaflega ætlaði að nýta frelsið sem fylgir því að vera ferðalangur í það að sækja um skólavist fyrir haustið 2012. Ég, innblásinn af hugsjón vísindamannsins, ætlaði að ráðast á garðinn þar sem hann var hæstur. Markmiðið var að komast inn í skóla sem býður upp á doktorsnám í taugavísindum. Og ekki bara hvaða skóla sem er. Námið þurfti að vera með því fremsta og framsæknasta á sínu sviði í heiminum. Og ég er ennþá viss um að sá skóli er hérna í Bandaríkjunum. Stútfullur metnaði skráði ég mig í tvenn próf hérna í New York. Þetta voru stöðluð próf sem ég þurfti að taka til að geta sent inn umsókn í hvaða framhaldsnám sem er hérna í Bandaríkjunum. Án einkunna í þessum prófum væru umsóknirnar mínar ekki reknar til greina. Umsóknirnar mína áttu að verða fullkomnar. „Ég SKAL komast inn í þetta nám,“ hugsaði ég. Þriðja daginn í ferðinni minni vaknaði ég klukkan rétt yfir sex, eldaði mér hafragraut, gekk í skugga um að ég væri með vegabréfið mitt með mér og tók lestina yfir til Manhattan. Ég gekk inn í prófmiðstöðina, tók þar prófið með stökustu ró og gekk út fjórum og hálfum tímum seinna bölvandi hversu heimskuleg og ósanngjörn svona stöðluð próf eru. Þau eru greinilega hönnuð með hvítan karlmann, alinn upp á bandarísku millistéttaheimilli, í huga. Jæja, það stöðvaði ekki metnaðinn í að komast í óskanámið mitt. Ég hékk næstu daga á aðallestrarsalnum í gamla bókasafninu á Manhattan (Main Reading Room) þar sem ég vann að persónulegum yfirlýsingum (Statement of Purpose, SoP) og lærði undir næsta próf.1 „Ég er með ansi mögnuð meðmæli og get skrifað nokkuð góða yfirlýsingu. Möguleikarnir mínir á að komast inn eru ansi góðir,“ hugsaði ég. Tæpri viku eftir fyrra prófið tók ég lestina á sama stað, reiðubúinn sem aldrei fyrr. Núna skal ég negla þetta. Ég gekk í prófamiðstöðina fullur sjálfstrausti og fór í biðröðina, reiðubúinn að framvísa skilríkjunum svo að mér yrði hleypt í prófið. Fokk! Ég gleymdi vegabréfinu mína heima hjá Bill. Kannski taka þau við við debetkortinu mínu í staðinn? Röðin var komin að mér og ég framvísaði debetkortinu mínu. „Ertu með einhver önnu skilríki?“ „Nei, því miður bara þessi.“ „Ertu ekki með vegabréf eða ökuskirteini?“ „Nei, ég gleymdi vegabréfinu heima.“ „Geturðu hlaupið heim og sótt þau, og verið kominn aftur fyrir hálf níu?“ „Ekki séns, það tók mig þrjú korter að ferðast hingað með lestinni. En ég get verið kominn hérna fyrir tíu.“ „Það er ekki nógu gott, þú verður að vera kominn hingað með vegabréfið þitt fyrir hálf níu, annars færðu ekki að taka prófið.“ Ég gekk úr prófamiðstöðinni með brotið sjálfstraust. „Helvítis klaufaskapur hjá mér að gleyma vegabréfinu mínu.“ Ég gerði heiðarlega tilraun til að sníkjast eftir því að fá að taka prófið seinna. „Ekki nema þú skráir þig upp á nýtt. Það gera 160 dalir.“ Ég var ekki tilbúinn greiða slíka fjárhæð fyrir jafn mikin klaufaskap og þetta, og því fór sem fór. Fari ég í framhaldsnám í Bandaríkjunum verður það ekki fyrr en árið 2013 í fyrsta lagi. Hugsanlega skrái ég mig aftur í háskólann heima, væntanlega annað grunnnám, (umsóknarfrestur til apríl 2012, á móti nóvember/desember 2011 hér í Bandaríkjunum) og nýti þetta rúm sem skapaðist til að ferðast. Nú þarf ég ekki að einbeita mér að þessum bölvuðu umsóknum og get notið þess að ferðast. Frelsið er nú orðið algjört.
Nú, að New York borginni, sem ég hef verið í núna í rúma tíu daga.
Það fyrsta sem mér langar að segja um New York borg er að hún er stór. Hún er risa- risastór. Ég eiginlega skil ekki hvernig borgin virkar. Ég meina, hvernig fær allt þetta fólk vinnu? Hvaðan fær það matinn sinn? Hvert fer allt ruslið þeirra? Hvaðan og hvert rennur allt vatnið? Þetta er mér í raun jafn óskiljanlegt og það hvernig bíflugur geta flogið2. Annað sem ég vill að komi fram er að New York hefur í raun ekkert sameiginlegt við Reykjavík. Það eru núll hlutir sem Reykjavík hefur sameiginlegt með New York. Ég er viss um að Bangkok hefur meira sameiginlegt með Reykjavík heldur en New York.
Ég kom hingað semsé 1. september. Tók lestina frá flugvellinum til hostelsins míns í Brooklyn. Vegna hrakfara minna á flugvellinum mætti ég allt of seint á hostelið (sjá 0. Inngangur) en það reddaðist fljótt. Ég átti tvær nætur þarna. Þetta urðu þó að vera einu tvær næturnar sem ég myndi borga fyrir gistingu í ferðinni. Því ef ég þyrfti að borga sömu fjórhæð fyrir hverja nótt hérna í Bandaríkjunum, myndu peningarnir endast mér kannski í 80 nætur. Og þá ætti ég eftir að borga fyrir mat og annað, svo ég næði kannski tveim mánuðum hérna. Það fannst mér synd því að hostelið var mjög svallt. Þetta var svona húsaröð í Brooklyn, hver íbúð með helling af kojum og sameiginlegri sjónvarps/fúsbol/píanó- og eldundaraðstöðu. Ég náði að redda mér gistingu á gólfinu heima hjá vinkonu minni Elönu, einnig í Brooklyn, næstu tvær næturnar. Og svo var ég búinn að redda mér CouchSörfi hjá manni að nafni Bill á Manhattan restina af nóttunum sem ég hyggðist vera í stórborginni. Bill, hommi og njúdisti, reyndist mér afar vel. Maðurinn er víst algjört gull af manni, enda með næstum hundrað meðmæli á CouchSurfing.org. Hann lánaði mér m.a. kort sem hleypir mér inn á öll þau listasöfn sem ég hafði hugsað mér að heimsækja þar í borg.3 Eftir að hafa heimsótt öll þessi listasöfn komst ég að því að listasöfn eru ekki alveg minn tebolli. Mér finnst gaman að myndlist en það er bara snobbið sem fylgir þessu stóru söfnum sem ég get ekki. Ég held líka að mesta listræna upplifunin mín í New York hafi verið þegar ég fann eitt veggjakrot eftir Banksy á einum vegg í Brooklyn. Það er verkið þar sem ung stúlka heldur grammafón upp við eyrað á sér eins og það sé gettóblaster. Á söfnunum voru bestu verkin að mínu mati tölvuleikir, I-pod öpp og fleira í þeim dúr í sérstakri sýningu á MoMA. Mér fannst þau verk skara fram úr verkum eftir listamenn eins og Cézanne, von Gogh og Picasso.
Fyrir utan að sækja söfnin var aðallega þrennt sem ég gerði í þessari mestu borg veraldar: Hangsa, lesa og skrifa. Meðaldagurinn minn í New York var svo: Vaknaði, eldaði mér hafragraut, tók lestina eitthvert, fann fallegan garð eða bókasafn með þráðlausu neti, las og skrifaði, borðaði af kína-, pakistana- eða mexíkóbúllu (4-6 dalir máltíðinn), fór á safn, fann annan garð, las og skrifaði meira og tók lestina aftur heim þegar fór að rökkva. Tveir dagar skáru sig þó úr. Annar var mánudagurinn 5. september (Labor day). Ég ákvað þá að öðlast alvöru New York reynslu. Ég fór því og horfði á auglýsingar á Times square og tók myndir af Frelsisstyttunni. Alvöru New York reynsla. Hinn dagurinn var laugardagurinn 3. september. Þá hitti ég Elönu í fyrsta skiptið í New York. Hún bauð mér með sér í partý og á skemmtistað. Í partýinu (sem átti sér stað í Brooklyn) kynntist ég tveim alvöru hippsterum og á skemmtistaðnum sá ég eitthvað algjörlega út úr þessum heimi. Þetta leit út eins og ruslahaugur að utan. Maður skreið inn á milli fjala til að komast inn í port. Í portinu beið manns biðröð (sem við tróðum okkur inn í4). Inn á skemmtistaðnum tók ekkert skárra við. Tónlistin var eins og maður myndi búast við að heyra á ruslahaug og staðurinn var eins og fokheldur ruslahaugur. Allt ýkt spes. Elana sagði mér að flestir staðir í New York eru svona. Ennþá meira spes.
Ég vill líka að það komi fram að í Brooklyn fann ég einhverja áhugaverðustu bókabúð veraldar (og heimsótti ég Shakespeare and Company á Manhattan). Ég man ekki hvað hún heitir, hvort það var Black Bookstore eða álíka, en hún samanstóð af þrem bókahillum og þrem rakarastólum. Á meðan ég skoðaði mig í gegnum þessa kannski 100 – 200 titla sem búðin átti (allt mjög áhugaverðar bækur sem sérhæfðu sig í málefnum blökkumanna) sátu tveir svartir strákar í klippingu. Ég valdi úr eina bók sem heitir The Black Students Guide to Positive Education, algjör gullmoli sem ég efast um að hafi verið prentuð í meira en 500 eintökum. Bókin fékk mig til að hugsa um hvað sjálfstraust svartra er fótum troðið í menntakerfi þeirra Bandaríkjamanna. Svörtum (og hvítum) er kennt að afrísk menning sé á einhvern hátt óæðri evrópskri. Það sé svörtum fyrir bestu að afneita afrískum uppruna sínum og einbeita sér að passa í formið sem hefur verið gert fyrir hina hvítu millistétt, ameríska drauminn. Og viti menn, það er satt. Þegar ég gekk um the Met, aðallistasafn hinnar fjölmenningalegu New York borgar, hið mest virta safn sem safnar listaverkum til sýnis í borg sem er jafn afrísk, jafn asísk, jafn íslömsk og hún er evrópsk, var furðumikil áhersla á evrópska list. Evrópsk (hástétta) arfleið var til sýnis eins og herbergissamsætur í IKEA á meðan rétt var tæpt á afrískri list sem voru svona meira eins og áhugaverðir forngripir frekar en arfleið stórra hluta New York búa.
Og hvað lærði ég í New York. Í fyrsta lagi eru New York gífurlega fjölmenningarleg. Þar sér maður fólk af öllum toga. Múslimar, gyðingar, Pólverjar, svartir. Allir fá að halda í sína menningu í friði. Ólíkt þessu skandinavíska –verða að aðlagast „okkar“ menningu– bulli. Fyrir vikið stendur uppi þessi einstaka menningarsúpa, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Annað sem ég lærði var að Brooklyn er miklu svalari hluti New York heldur en Manhattan. Brooklyn er einhvernvegin meira ekta. Þessi borgarhluti (sem eitt sinn var sér borg), er reyndar annálaður fyrir hæsta hlutfall hippstera í heiminum, er mun afslappaðri en Manhattan, byggingarnar eru ekki jafn gígantískar, fólk er ekki flýta sér jafn mikið. Það er einhvernvegin betra andrúmsloft þarna heldur en á Manhattan. Og í þriðja lagi lærði ég að stundum þarf maður að fresta möguleikanum á framhaldsnámi vegna þess að maður gleymdi að taka með sér vegbréf.
Næst ætla svo að drulla mér úr þessari mögnuðu borg og skoða up state New York. Vinir mínir í hljómsveitinni Hellvar voru búin að mæla með bæ hérna sem heitir Hudson og er víst mjög artí. Svo hef ég líka heyrt af listamannanýlendu í bænum Woodstock. Ég hef aldrei heimsótt listamannanýlendu áður svo kannski að ég skoði hana.
Rúnar Berg
Germantown, New York
13. september 2011
_________
1Einhver hafði sagt mér að ef maður sé að læra í þessum lestrarsal sem spannar tvær húsaraðir og hlusti á Mozart, þá kæmi maður svo miklu í verk að það væri undravert. Ég varð að prófa þetta (mjög óvísindalega) og komst að því að Mozart + Main Reading Room virkar.
2Flug bíflugnanna hefur reyndar verið útskýrt eðlisfræðilega (http://en.wikipedia.org/wiki/Bee#Flight), en þið skiljið hvert ég er að fara.
3Listasöfn sem ég heimsótti: Museum of Modern Art (MoMA), The Metropolitan Museum (The Met), Guggenheim Museum og Whitney Museum of American Art.
4Skemmtileg reynsla þar á ferðinni, en sérstaklega fyrir þær sakir að stuttu seinna tróð sér framfyrir okkur hópur svertingja. Hvítingjarnir sem voru fyrir aftan okkur ætluðu algjörlega að missa sig. Við náttúrulega sögðum ekkert þar sem við vorum jafn sek og svertingjarnir fyrir framan okkur. En hvers vegna sögðu hvítingjarnir ekkert þegar við, öll hvít með tölu, tróðum okkur fram fyrir þá? Urðum við hér vitni að kynþáttamismunun? Eða hvað?