Skip to content

2. New York – Boston, MA

september 23, 2011

Þessi pistill er skrifaður í Boston, þessari alræmdu verslunarborg í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum. Hingað streyma Íslendingar á haustin til að versla sér föt og annan varning fyrir jólin. Ég skil þessa hegðun ekki. Boston er ekki ódýr borg. Heimamenn kvarta sjálfir undan því hversu dýrt það er að kaupa sér hluti hérna. Ég hef farið í þykjustuverslunarleiðangur. Ég fór þangað þar sem allar verslanirnar eru, fann flottustu búðina, draumapleis hipsteranna, gekk um þar til ég sá svölustu buxurnar, mest töff bolinn og mest hipp skónna. Mátaði það allt á mig. Smellpassaði, og djöfull var ég flottur. Svo gekk ég úr búðinni, ánægður með sjálfan mig. Ég kom út úr búðinni hafandi keypt ekkert. Djöfulsins vitleysa að kaupa sér svona drasl. Djöfulsins vitleysa að eyða peningum í svona óþarfa. Frekar nota ég peninginn minn til að ferðast meira og víðar í Bandaríkjunum heldur en að borga fyrir að ganga í þröngum buxum sem líkast til slitna hvort eð er strax, eru ógeðslega óþægilegar og framleiddar af barnungum þrælum í Asíu. Nei, ég kom til Boston og keypti mér ekkert. Ég mana samlanda mína til að gera það sama núna þegar þeir fara að streyma hingað með haustinu. Því Boston er ekki bara einhver verslunarkjarni. Það er margt fleira hérna en bara verslanir. Reyndar eru verslanirnar hérna frekar ómerkilegar miðað við restina af borginni. Ef það er hægt að kalla einhvern stað „vöggu Bandaríkjanna“, þá er Boston andskoti góður kandídati. Lýðræðishugsjónin sem smitaðist um gjörvallan nýja heiminn og jafnvel til Evrópu undir lok 18. aldar og leiddi til þess að fyrsta ameríska nýlendan lýsti yfir sjálfstæði var af stórum hluta drifin héðan frá Massachusetts. Massachusettsbúar voru líka mjög áberandi í næstu uppreisnaröldu sem reið um Norðurríkin (ásamt Vestur-Evrópu) um miðja nítjándu öld og varð til þess að þrælahald var gert ólöglegt1. Fyrsta almenningsbókasafn Bandaríkjanna var stofnað hérna 1653, elsti almenningsgarðurinn sömuleiðis 1640. Harvard, elsti og virtasti háskóli Ameríku, er hérna líka. Svo að Boston er ansi áhugaverð borg og algjör synd að flestir Íslendingar sem koma hingað sjá bara stór hótel og leim verslunargötur.

Ferðin til Boston var ekki sú auðveldasta. Ég kom hingað frá Hudson, sem er um 7000 manna bær í New York-fylki, ekki ýkja langt frá borginni. Þar var ég í tæpa viku. Þetta er svona Seyðisfjörður Bandaríkjanna. Ótrúlega lifandi listalíf þrátt fyrir fáa íbúa. Mestan tímann sem ég var þarna var ég að heimsækja gallerí og hlusta á tónleika, þ.e. þykjast vera eitthvað menningarlegur. Hluta tímans var ég þó skammt frá bænum heima hjá vinkonu minni og listakonunni Dawn. Hún og maðurinn hennar Gionni voru ótrúlega góð við mig, gáfu mér mat og gistingu, kenndu mér (rifjuðu upp fyrir mér hvernig á) að prjóna og slíkt. Ég hjálpaði Gionni smá á verkstæðinu hans. Hann vildi ólmur borga mér laun, en ég var staðfastur á því að allt það sem þau höfðu gefið mér voru næg laun. Svo var komið að því að húkka sér far yfir fylkismörkin til Massachusetts. Það var ekki auðvelt að kveðja, en það var komið að því. Ég var búinn að vera þarna allt of lengi. Ég hætti meira að segja við að fara til Woodstock til að geta verið aðeins lengur hjá Dawn og Gionni.

Gionni skutlaði mér vel á leið, að réttum vegi sem ég gat haldið mig við hálfa leiðina. Þetta var lítill og notarlegur sveitavegur, fínn til að skoða sveitirnar hérna á meðan ég ferðast í stað þess að bruna fram hjá þeim á hraðbrautinni. Stefnan var að komast til Boston á tveim dögum þar sem CouchSörfer myndi bíða mín. Ég setti upp þumalinn og var ekki lengi að fá far. Svona 10 mílur með smiði að fara með verkfæri á annan stað. Ég var ekki fyrr búinn að setja upp þumalinn 10 mílum seinna áður en næsti bíll skutlaði mér aðrar 10 mílur yfir fylkismörkin (nú þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af löggunni lengur). Kona sem vinnur í mötuneyti hjá einkaskóla. Svona hoppaði ég 10-15 mílur í senn hálfa leiðina til Boston. Það byrjaði að dimma svo ég ákvað að slá upp tjaldi. Ég var kominn framhjá borg sem heitir Westfield en þurfti að fara framhjá enn stærri borg, Springfield, næsta morgun. Ég sá skóg hinum megin við veginn. Ég óð því yfir veginn með bakpokann á bakinu, yfir lestarteina samhliða veginum og inn í skóginn. Þarna var fullkomið tjaldsvæði þar sem enginn sá mig. Ég einn útaf fyrir mig, þar sem enginn getur skipt sér að. Frábært. Ég tjaldaði tjaldinu, setti pott á prímusinn og gerði mig líklegan til að elda mér linsubaunasúpu í kvöldmat en áttaði mig skyndilega á því að ég gleymdi að gera ráð fyrir vatni. „Ég þarf vatn til að geta gist hérna“. En það var ekkert mál að redda því. Ég skildi allt draslið mitt eftir í skóginum, fór til baka yfir teinana og veginn, þar var bílastæði sem ég gekk yfir þvert. Og loks beint inn í Wall-Mart þar sem ég gat fyllt á vatnið mitt, svona 200 metra frá tjaldinu. Mér leið eins og Walden 21. aldarinnar2.

Seinni dagurinn gekk ekki jafn vel og fyrri dagurinn. Ég var kominn af sveitaveginum og ætlaði að reyna að húkka mér far beint til Boston og vera kominn þangað fyrir hádegi. Fólk var ekki jafn gjarnt á að pikka mig upp í nálægt borginni. Borgir eru svo sannarlega svarinn óvinur puttaferðalanga. Í eitt skipti var ég búinn að vera við sama veginn í svona tvo tíma. Gangandi og húkkandi meðfram veginum. Loks komst ég að aðrein þar sem traffíkinn var það hæg að bílarnir þurftu ekki einu sinni að stoppa, bara opna svo ég gæti stokkið inn. Á aðreininni hægði einn blæjubíll ferðina enn meira, opnaði og sagði mér að hoppa inn. Þetta voru tveir menn, á mínum aldri. Ég þakkaði þeim glaður fyrir: „Í alvöru? Vá, takk. Enn fallegt af ykkur,“ þegar ég var svo kominn að bílnum og ætlaði að stíga inn brunuðu þeir skyndilega af stað: „Ekki fokking séns,“ öskruðu þeir hlæjandi á meðan þeir brunuðu í burtu. Mér langaði helst að sýna þeim fingurinn, en endaði á því að gefa þeim bara písmerkið. Það gerði líklegast sama gagn. Svona hálfvitar eru líklegast til allsstaðar, líka í Bandaríkjunum.

Ég komst loks í bíl sem skutlaði mér til Worcester (berist fram Vister, ekki ósvipað Hipster, þ.e. eins og Leicester – Lester). Ég hafði heyrt um þessa aðra stærstu borg Nýja Englands á leiðinni. Henni var hampað sem listrænni og akademískri þar sem stór hluti íbúa eru stúdentar. Þó svo að íbúarnir séu um 250.000 eru háskólarnir 13 talsins. Klukkan var orðin 2. Ef ég tæki rútuna til Bostan þaðan yrði ég kominn að ganga 4. Það var of seint fyrir CouchSörfarann minn í Boston svo ég hringdi í hann og sagðist ætla að vera tvo daga í Worcester. Allt í lagi með það. Ég reddaði mér sófa í Worcester og kom hingað tveim dögum síðar með lestinni. Ég verð að bæta við að ég varð svolítið skotinn í Worcester. Þar hitti ég fullt af kúl liði sem var gaman að hanga með. Þetta var svona pleis þar sem ég passaði fullkomlega inn í hópinn3.

Svo er það Boston. Hérna er ég ekki búinn að kaupa neitt nema hafragraut og súkkulaðimjólk. Í staðinn er ég búinn að vera að skoða borgina, háskólana (sótti meðal annars fyrirlestur í MIT) og slíkt. Skemmtilegasta safn sem ég hef farið á (Museum of Science) er hérna. Það safn hefur stærðfræðisannanir. Ekki sem fromúlur heldur sem leikföng. M.ö.o. osom! En þetta er svona safn þar sem maður getur leikið sér á allan daginn. Á morgun fer ég svo til New Hampshire með stuttri viðkomu við Waldens Pond (sjá neðanmálsgrein 1). Ég ætla að fara í gönguferð um White Montains, sem eru hluti af Appalacian Trail göngustígnum sem nær frá Georgíu til Maine. Þaðan verður svo haldið til Maine á puttanum Takmarkið er Quebec, Kanada. Þar til ég næ þangað ætla ég að búa í tjaldinu. Taka mér pásu frá stórborgarlífinu.

Rúnar Berg
Boston, Massachusetts
22. september 2011
_________

1: Frægur karakter í þeirri upreisnaröldu var Henry David Thoreau, höfundur Walden. Tjörnin sem hann bjó við þegar hann lifði í skóginum er einmitt hérna rétt hjá Boston.

2: Þess má geta að ég reyndi að tengjast internetinu í skóginum. Ég fékk samband, en netið krafðist lykilorðs sem ég hafði ekki.

3:Ef einhver sem er að lesa þetta finnst gaman í Nexus þá ætti sá hinn sami kannski að kíkja í verslunarleiðangur til Worcester. Þarna er ein búð sem selur allt sem meðal nördinn telur kúl. Einhver svalasta búð sem ég hef séð.

From → Reisupistill

3 athugasemdir
  1. Björn Olsen permalink

    Glæsilegur. Verður gaman að fylgjast með þessu!

  2. Skúli permalink

    Alveg sé ég þig fyrir mér laga upp á kaffi í einhverjum skóg alveg við hraðbraut og læti :P

  3. Hilmar permalink

    Magnað að lesa þetta frá þér ! Ég er grænn af öfund þegar ég les pistlana þína.. Gangi þér vel og ég held áfram að fylgjast með þér félagi :)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: