Skip to content

4. Kanada og góðar göngur hingað til

október 12, 2011

Mér langar, kæru lesendur, að byrja þennan pistill á að segja ykkur frá frábæru tómstundargamani sem ég hef stundað villt og galið seinasta mánuðinn og viku til. Það tómstundargaman gengur undir mörgum nöfnum en er hellst kallað göngutúr. Í Boston, Montreal, Hudson, New York og um þau svæði við veginn sem ég hef tjaldað til nætur fjarri byggðu bóli hef ég eytt mörgum stundum í að ganga um. Ég hef stundum líka kosið að ganga að áfangastað frekar en að nota almenningssamgöngur einungis því að gangan þangað höfðar til mín. Gangan gefur mér tilfinningu fyrir umhverfinu sem strætisvagnar og enn síður neðanjarðarlestir gætu aldrei gefið mér. Jafnvel þótt gangan taki mig tvær til þrjár klukkustundir þá er hún þess virði. Best þykir mér þó að ganga um. Bara byrja að labba án þess að hafa nokkurn stað þar sem ég þarf að enda á, né koma við á. Bara labba og labba og labba. Þurfi ég á klósettið, fer ég á það, sé ég svangur, borða ég. Sé ég fallega bókabúð, skoða ég hana, langi mér í kaffi, finn ég mér kaffihús, og sé ég orðinn þreyttur fer ég heim. Að ganga um götur bæjarins er það besta sem ég geri. Kannski læt ég hugann reika á meðan göngu stendur, kannski nýti ég tækifærið og skoða umhverfið. En oftast geng ég bara. Slekk á allri líkamsstarfssemi fyrir utan þeirri sem gangan krefst.

Hingað til hefur besta gangan sennilega verið gangan frá rútustöð í miðbæ Montréal heim til Roz sem ég var að sörfa hjá. Hún bjó í svona 90 mínútna göngufæri frá miðbænum. Á leiðinni skoðaði ég McGill háskólann, og sótti þar fyrirlestur um seglun og segulsvið, fékk mér Québecska beyglu á litlu krúttlegu kaffihúsi, skoðaði graff og ýmislegt. Stundum tók ég bakpokann af mér, skildi hann eftir á öruggum stað og gekk bara eitthvert í dágóðan tíma áður enn ég snéri aftur að sækja bakpokann og hélt áfram í átt heim til Roz. Samtals var ég svona 5 tíma á leiðinni til hennar, með og án bakpokans.

Þessi gönguferð um Montréal er svolítið lýsandi fyrir Ameríkuferðina mína í heild. Núna er ég til dæmis á leiðinni á einn tiltekinn áfangastað, Portland, Oregon, en á leiðinn ferðast ég bara. Ég tek mér útúrtúra, stoppa við, skoða, geri hitt og þetta á leiðinni og nýtt þess að ferðast. Ég ferðast ekki til að komast á milli staða, heldur ferðast ég í þeim tilgangi að ferðast. Ég meina, það tekur nokkra klukkutíma að fljúga frá New York til Portland, nokkra daga að keyra, en ég ætla þessa leið á nokkrum mánuðum.

Þessi ferðaháttur minn vakti minna en litla grunsemd meðal landamæraverða sem áttu að hleypa mér inn í Kanada um daginn. Þetta var sama vesen og þegar ég kom inn í Bandaríkin um Newark flugvöll, nema bara núna þá var mér ekki hleypt inn í landið. Eftir klukkutíma tilraun í að reyna að sannfæra landamæravörðinn um að ég væri bakpokalingur hvers tilgangur væri að ferðast og skoða Norður-Ameríku var ég látinn skrifa undir plagg þar sem beiðni mín um að komast til Kanada var dregin til baka. Það sem upp á vantaði var símanúmer vinkonu minna Jesse Crow sem býr í Toronto, sönnun á fjárhag og að ég hafði aðgang að peningunum mínum í Kanada og sönnun á að ég væri með gistipláss í Montréal. Ég fór aftur yfir landamærin til Bandaríkjanna (þar sem annað eins umstang átti sér stað) og safnaði saman öllum þessum sönnunargögnum með hjálp nýju tölvunnar minnar. Mér var aftur vísað frá Kanada í annarri tilraun þar sem landamæravörðurinn vildi í þetta sinn sjá að ég væri sjúkratryggður. Ég þurfti að gista nóttina á landamærunum því ég gat ekki hringt til Íslands til að grennslast fyrir um trygginguna fyrr en morguninn eftir þegar allt opnaði á ný heima. Morguninn eftir hringdi ég í Vísa, fékk trygginguna á hreint, og sönnun þar um senda með tölvupósti, og reyndi við landamærin í þriðja sinn. Nú voru verðirnir tveir. Eftir mikla tregðu hleyptu þeir mér inn með þremur skilyrðum (ég býst við að þeir voru orðnir uppiskroppa með afsakanir fyrir að halda mér úti), ég þurfti að yfirgefa Kanada áður en tryggingin mín rennur út 31. október, ég mátti ekki vinna og ég mátti ekki sækja mér neina menntun1. Landamæralöggan er ekki hrifin af ferðaháttum mínum2.

Að Québec fylki. Ég hafði misreiknað ferðatímann inn í Montréal og kom þangað degi of snemma. Það var allt í lagi. Það var þó miður skemmtilegt hve mikið rigndi á meðan ég var í Montréal. Ég þrjóskaðist til að skoða gröff borgarinnar á hjóli, lagði af stað undir morguninn. Ég hafði fengið einhverjar upplýsingar um hvar helstu gröffin væru að finna en mest hjólaði ég bara út í buskann og svo lengra út í buskann. Svona eins og góð gönguferð. Og eins og í góðri gönguferð leit ég inn í fjöldann allan af kaffihúsum, plötubúðum, bókabúðum, hjólaði í gegnum garða, sá krakka spila amerískan fótbolta, fór upp á borgarfjallið, Mont Royal, o.s.frv. Ég kom heim undir kvöld gegnvotur eftir um 7 tíma hjólreiðatúr í rigningunni. Æði. Roz, sem ég minntist á áðan, og kærastinn hennar, François, voru á leiðinni að hitta foreldra François, sem eiga heima í smábæ norðar í Québec, ásamt því að skoða haustlitina í leiðinni. Þau buðu mér að fara með. Ég hafði þegar séð haustlitina í New Hampshire (sjá 3. The Appalachian Trail at Franconia Notch in the White Mountain National Forest, New Hampshire) en ég þáði samt boðið. Það var algjört ævintýri. Það hellirigndi allan tímann. Við tókum smá göngu upp á nálægt fjall. Svona klukkutíma ganga. Nógu löng til að við vorum guðslifandi feginn að koma inn í hlýjuna hjá foreldrum François þar sem heit súpa og álíka heitar pólitískar umræður biðu okkar.

Sjáið til. Ég var ekki búinn að segja ykkur frá François. Fyrir það fyrsta notar hann Linux af pólitískum ástæðum, frjálsa hugbúnaðarbyltingin. Hann ræktar eigið hunang í bakgarðinum sínum og er líka með hlynsíróptré í garðinum sínum sem hann tappar af hvert vor og síður sjálfur síróp úr. Ef hann er spurður segist hann ekki vera Kanadabúi heldur Québecbúi. Hann er sumsé hlynntur aðskilnaði Québec og Kanada, eins og svo margir Québecbúar. Reyndar er heimilli Rozar mjög pólitískt heimilli. Þar eru saman komnir aktivistar, feministar, umhverfisverndarsinnar og ég veit ekki hvað og hvað. Einn morguninn vaknaði ég við að stofan var full af fólki frá latnesku Ameríku sem hélt þar fund á spænsku (ég held um hvernig hjálpa má innflytjendum sem lenda utan kerfisins). Allavega, foreldrar François eru jafn pólitískir og hann og Roz, en þeim greinir á um margt eins og svo algengt er á milli kynslóða, hversu róttækur maður má vera o.s.frv. Þetta var skemmtileg ferð norður.

Að Ontario fylki. Eftir næstum viku í Québec var komið að Toronto, Ontario. Ég frétti af 15 dala rútuferðum á milli þessara stórborga Kanada, svo ég leyfði mér þennan lúxus svona einu sinni. 15 dalir fyrir 5 tíma rútuferð er mjög sanngjarnt verð finnst mér, ef til vill mætti kalla það ódýrt.

Aðalafsökunin fyrir því að fara til Kanada var að hitta vinkona mína Jesse Crow sem ég hafði áður kynnst í Reykjavík. Hún hafði gefið mér klippingu og ég hafði bakað handa henni pönnukökur. Nú skildi endurtaka leikinn í Toronto. Þegar ég kom seint á þriðjudagskvöldi tók Jesse Crow á móti mér og fór með mig beint á karaokebar, ennþá með bakpokann á bakinu, ef til vill lýsandi hegðun fyrir Jesse sem aldrei missir af Karaoke. Ég var viku í þessari borg. Mest var ég að dást að því hversu svöl þessi borg var. Jesse sagði mér frá garði þar sem allir hipsterarnir spóka sig í. Auðvitað varð ég að skoða hann og framkvæma óformlega atferliskönnun á þessum sérflokki manna sem aðrir kalla hipstera3. Ó já, ég gleymdi að segja að Toronto er ásamt Brooklyn, New York, álitin nafli hipsteramenningarinnar. Það eru allir hipsterar í Toronto (þeim hverfum sem ég var í allavega). Ég meina, ÉG var hipster í Toronto. Ég var farinn að bretta inn buxurnar mínar, þóttist þekkja ógeðslega mikið af frægu fólki og meira að segja fór ég í að minnsta kosti eina vintage (ísl. það sem er gamalt og kúl) verslanir á dag, ekki bara til að skoða plötur og bækur heldur líka jakka og vesti, og mér þótti það gaman. Hann ég sem kaupi mér aldrei föt væri sennilega búinn að kaupa flíkur í tonnatali ef ég byggi í Toronto. Ég meina, þarna voru afbragðs gömlu manna jakkar á svona 30 dali og ullarbindi á svona fimm. Annað sem gerir Toronto að svona svala er graff og tattúmenningin. Það er pís á öðruhverju húsi þarna. Flest þeirra mjög töff, og allir hipsterar eru flúraðir mjög flottum flúrum, helst frá toppi til táar. Ég ætlaði að ná einhverjum sjóvum þarna en lét aldrei verða af því. Toronto er líka þekkt tónlistarborg. Sérstaklega á indírokk og raftónlistar sviðinu. Ég náði einu raftónlistarbandi en hefði vilja ná á rokktónleika. En svona er þetta.

Það voru tveir atburðir sem ég verð að bæta inn í sem gerðust í Toronto. Annarsvegar þá fullkomnaði ég hipsteralúkkið mitt með klippingu sem Jesse gaf mér fyrir íslenskar pönnukökur sem ég bakaði4. Hinsvegar vildi svo heppilega til að kanadíska þakkagjörðarhátíðin var haldinn á meðan ég var í þarna. Jesse tók mig með sér á þakkagjörð munaðarleysingja (e. orphin thanksgiving) sem hún kallaði svo, en var í rauninni nokkrir vinir sem enginn átti fjölskyldu í borginni (Jesse Crow er til dæmis uppalin í Saskachuwan). Hver kom með sinn rétt og lögðu saman í kalkún. Grænmetisætan ég eldaði auðvitað hnetusteik sem kom í stað kalkúnsins við mikla hrifningu gesta. Ætli ég sé ekki bara ágætur kokkur.

Að lokum pistilsins. En ég mun halda áfram að ferðast ekki vitandi nákvæmlega hvaða leið ég fer, ekki vitandi nákvæmlega hvernig ég fer hana. Ég mun bara ferðast. Ekki til að versla, ekki til að heimsækja neinn heldur mun ég ferðast með þeim eina tilgangi að ferðast. Eins og góður göngutúr er markmiðið einungis ferðalagið sjálft. Allt annað er bónus.

Rúnar Berg a.k.a. Cliff
Ancaster, Ontario
11. október 2011

– uppfært
Rúnar Berg
Detroit, Michigan
13. október 2011

_________

1:Ég hef nú þegar sótt þrjá fyrirlestra við virta háskóla í Kanda og lært að búa til veski úr silfurteipi, auk þess sem ég er um margt vitrari um Québecsk stjórnmál, skildi það vera brot á þriðju reglunni? Svo bakaði ég pönnukökur fyrir klippingu í Toronto, skildi það flokkast undir atvinnu?

2:Ég velti því oft fyrir mér hve minniháttar þessir erfiðleikar eru fyrir mig. Ég meina, það er ansi pirrandi að vera hamlaður svona út af heimskulegri og ósýnilegri línu sem eflaust hefur orsakað fleiri stríð en nokkuð annað í heiminum. Ég meina, miðað við flóttamenn og hælisleitendur sem oft eru sendir heim til sín þar sem pólitískar ofsóknir bíða þeirra. Svo finnst mér landamæri slæm fyrirbæri fyrir samfélag manna að allt sem ég hef um það að segja kem ég enganveginn fyrir í einni neðanmálsgrein. En endilega spyrjið mig um það hvers vegna ég hata landamæri næst þegar þið hittið mig.

3:Hipster er einstaklingur sem er and-meinstrím. Hipster hlustar á jaðartónlistarstrauma (alls ekki popptónlis), er oftar en ekki í hljómsveit, klæðist ekki fötum nema annar hafi átt þau á undan honum (vintage) og svei mér þá ef þeir tali ekki með sérstökum hreim líka. Hipster ég myndi bretta upp á buxurnar mínar svo þær yrðu þröngar, ganga um með óstyrktu gleraugun mín og röndóttum bol. Hipster ég væri líka búinn að kaupa vintage jakka frá 8. áratugnum.

4:Þegar ég ætlaði að máta hipsteragleraugun mín við nýju klippinguna, komst ég að því að þau höfðu brotnað í vasanum mínum. Mér þótti það miður.

From → Reisupistill

Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: