Skip to content

5. Michigan: Eða hvernig ég tók Liberty Plaza

október 24, 2011

Smá baksaga. Eftir þrælastríðið í Bandaríkjunum um miðja 19. öld fluttust margir fyrrverandi þrælar til norðurríkjana í leit að vinnu. Í norðurríkjunum voru lífsskilyrðin betri, fleiri járnbrautir, betri hús, fleiri verksmiðjur og meiri peningur. Afkomendur þessara fyrrverandi þræla eru nú stór hluti íbúa í norðlægum fylkjum eins og hérna í í Michigan, enda hefur hér alltaf verið næga vinnu að fá þökk sé fjöldan allan af verksmiðjum sem þetta fylki er frægt fyrir. Það var líka hérna sem að bílaiðnaðurinn hófst. Detroit er oft kölluð bílahöfuðborg heimsins. Í kreppunni sem hófst 2008 (og reyndar nokkuð fyrir hana) var Detroit fyrst til að hrynja. Verksmiðjurnar lokuðu hver á eftir annarri, fátækt jókst, atvinnuleysi jókst, fleiri urðu heimillislausir og fleiri hús stóðu tóm. Sumir héldu kjurru fyrir í húsunum sínum þrátt fyrir að bankinn hafði tekið það að sér, aðrir fóru inn í önnur tóm hús eða verksmiðjur. Enn fleiri flúðu borgina. Núna stendur borgin eins og hálftóm Chernobyl. Annaðhvert hús er ýmist tómt, brunnið eða bæði, lóðir standa í órækt, verksmiðjurnar stopp, skrifstofubyggingar (jafnvel alveg í miðborginni) teknar yfir af hústökufólki sem átti ekki annarra kosta völ. Borgin er tóm. Eins og í heimsendamynd, eins og eftir Zombífaraldur. En í tómi gerast ótrúlegir hlutir. Fólk er ófeimið við að fynna sér garða í órækt og rækta grænmetið sitt þar¹. Einnig er þekkt að fólk noti tómu húsin sem listagallerí eða stúdíó². Svo að kreppan er ekki eintómt volæði. Kreppan gefur hlutum líf sem hefðu kramist undir orðum eins og ósamkepnishæfni og neikvæður hagvöxtur árið 2007. Sem færir mig að því sem allir er að tala um í Norður Ameríku í dag. Götutökurnar (occupy).

Ég veit ekki hvort þið trúið mér, en það eru ótrúlegir hlutir að gerast í Ameríku. Það lyktar af byltingu.

Þetta byrjaði allt saman á Wall Street, New York, fyrir rúmum mánuði síðan. Couch-hýsillinn minn í Worcester, MA, sagði mér frá því að hópur fólks hefði tekið yfir (occupied) Wall Street götuna í viðskiptahverfi New York borgar. Þegar ég var á leiðinni til Montréal, QU, sá ég að Aliza frá Boston, MA, hefði, ásamt öðrum Tufts nemendum, tekið þátt á samskonar viðburði í Boston. Þegar ég komst til Montréal frétti ég að þessi yfirtaka var víst töluvert stór. Fullt af fólki hefði komið þangað til að láta í sér heyra en hefði mætt harðri mótspyrnu ofbeldisfullra lögreglumanna. Í Montréal sá ég líka að samskonar viðburður var auglýstur á flestum ljósastaurum borgarinnar. Sömu söguna var að segja í Toronto, ON, en þessir viðburðir áttu að eiga sér stað 15. október, þegar ég var í Detriot, MI. Allsstaðar á leiðinni minn hafði ég heyrt fólk tala um hversu ósanngjarn og skaðlegur viðskiptaheimurinn er, og hversu samkrulluð pólitíkin er markaðinum. Allir, sama hvort það voru ökumenn sem tóku mig upp í eða hýslar frá CouchSurfing.org, töluðu um hversu mikið þetta þarf að breytast. Það leit út fyrir að alda byltingarinnar væri að elta mig alla leiðina frá New York, í gegnum New England og Kanada, til Michigan. Í Detroit náði hún mér. Mótmælaganga var skipulögð föstudaginn sem ég var þar og ég tók þátt í henni. Einungis með viðveru þó. Eftir gönguna setti hópur fólks upp tjaldbúðir á torginu samskonar þeirri sem hafði staðið frá því um miðjan september við Wall Street. Nokkur hundruð manns voru þar víst, þar á meðal fólk sem ég átti síðar eftir að kynnast. Í Ann Arbor, MI, (minna en klukkutíma fjarlægð frá Detriot) hóf ég beina þátttöku í byltingunni.

Hversvegna ég tók þátt í að yfirtaka Liberty Plaza í Ann Arbor er merkileg saga út af fyrir sig. Ég var á leiðinni til Chicago, IL, staðráðinn í að ná að vesturströndinni áður en það yrði of kallt. Ég var meira að segja búinn að bóka mér rútufar til Omaha, NE (12 dalir fyrir 8 tíma rútuferð tek ég) sem átti að fara miðvikudaginn seinasta frá Chicago. Ég húkkaði mér frá Detroit á sunnudaginn var og fékk fljótt far til Ann Arbor. „Þú ættir að kíkja á Ann Arbor,“ var sagt við mig. „Þetta er rosa flott borg, háskólaborg, mjög liberalt allt saman. Allt annað en Detroit.“ Ég var sannfærður og ákvað að kíkja að minnsta kosti í bröns þangað. Klukkan var ekki nema 10 og það var nú einu sinni sunnudagur. Þó ég fengi ekki far fyrr en 12 úr Ann Arbor yrði ég samt kominn til Chicago fyrir sólsetur. „Þú ætti að kíkja occupy-ið þarna, þú myndir kunna vel við þig þar.“ „Er Occupy í Ann Arbor?“ Spurði ég. Ég gekk um miðbæinn í hálfgerðri leit af yfirtökunni en var þó aðallega að leita að flottum veganstað sem byði upp á bröns, svona hippafíling. Áður en ég fann brönsið fann ég tökuna, og áður en ég vissi af var ég kominn inn á vinsælasta veitingastað hippa þessarar borgar, ekki til að snæða, heldur til að kaupa lífræna hrísgrjónamjólk til að búa til vegan grjónagraut fyrir yfirtökuna. Það sem átti að vera einn bröns varð 9 daga bein þátttaka í aktivistahreyfingum Ann Arbor. Áður en ég vissi af var ég orðinn allt of mikilvægur hlekkur í hreyfingunni. Ég var búinn að eignast fullt af vinum, taka þátt í helling af viðburðum, fundum, þinghöldum (general assemblies) og undir lokin ákvað ég að halda upp á afmælið mitt þarna þar sem ég var búinn að eignast svo marga vini.

Þegar ég sá fyrst götutökuna í Ann Arbor var þar bara ein stelpa, Michaela, sem sat og hélt á úr sér gengnu skilti sem á stóð „Occupy the World“, litirni afmáðir og hafði greinilega ringt töluvert á. Það var ekkert tjald, ekki einu sinni opið partítjald til að skýla henni fyrir rigningunni sem hafði gengið á undanfarna daga. Ég hjálpaði henni að reisa skýli svo að hún (og ég) þyrfti ekki að sofa undir rigningunni ef það skildi rigna. Hún hafði verið þarna í 4 daga áður en ég kom. Hún, ásamt nokkrum öðrum (Alex, Sincere og John) höfðu gist þarna undanfarnar nætur til að mótmæla misskiptingu í Amerísku samfélagi þar sem ríkir bissnesskarlar stjórna öllu með auðnum sínum á meðan fólk deyr á götum bandarískra borga því það á ekkert hús að verma. Sincere er búinn að vera heimillislaus sjálfur síðan í sumar og er búinn að lifa á þessu torgi. Þetta torg er líka þekkt fyrir að vera samkomustaður (og gististaður) heimillisleysingja borgarinnar. Eitt af því sem við vorum að berjast fyrir var að veita þessum fjölda skýli svo þau gætu lifað af veturinn. Borginn átti efni á að reisa nýjan íþróttaleikvang fyrir háskólann, en ekki að halda skýlum opnum fyrir heimillislausa. Slíkt hegðun borgaryfirvalda er vítaverð og er í raun ekkert nema morð.

Þegar mest var vorum við yfir 10 sem gistum þarna. Allt frá fimmtugum kommúnistum og fyrrverandi hermönnum til tvítugra graffara. Þegar ég fór var götutakan búinn að vaxa töluvert, þarna var bókasafn, skiltagerð, eldhús og eflaust gistipláss fyrir þrjátíu einstaklinga.

Ég veit núna að Ameríka er ekki jafn pólitískt heft og fólk vill meina heima. Þó þetta sé landið sem kaus George Bush sem forseta (tvisvar), er sífellt að ráðast inn í ný lönd, myrðir þegnana sinna í nafni réttarríkissins, er frægt fyrir kynþáttafordóma, homofóbíu, kristna bókstafstrú, misskiptingu og hamfarakapítalisma, þá er gífurleg mótspyrna að eiga sér stað í þessum töluðu orðum. Fólk er á leiðinni út á göturnar. Fólk sættir sig ekki við þetta ástand. Fólk tekur málin í sínar hendur.

Runar
Ann Arbor, Michigan
24. október 2011

Ýtarefni:

Decleration of the Occupation of New York City (http://www.nycga.net/resources/declaration/)

„Why We are Here“ First official release from Occupy Wall Street (http://occupywallst.org/forum/first-official-release-from-occupy-wall-street/)

Occupy Ann Arbor (http://www.occupya2.org/)

Andrew Schulman. (21. október 2011). Occupy Ann Arbor discusses challenges. The Michigan Daily. Sótt 24. október af http://www.michigandaily.com/news/occupy-ann-arbor-holds-third-meeting-liberty-plaza

_________

1: Urban agriculture er fræg iðja í Detroit. Til eru dæmi þar sem að tómar verksmiðjur eru notaðar undir búfé og fleiri húsaraðir undir grænmetis og baunarækt. Sjá til dæmis http://www.detroitagriculture.org/

2: Sjá til dæmis African Bead Museum http://www.mbad.org/

From → Reisupistill

Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: