7. Viðstöðulaust á vegum miðvesturríkjanna

Yellowstone þjóðgarðurinn í Wyoming er þekktur fyrir tvennar sakir. Í fyrsta lagi er þetta fyrsti þjóðgarður heims. Friðlýstur árið 1872 og varð fyrirmynd allra þjóðgarða víðsvegar um heiminn í dag. Í öðru lagi er askjan, sem þjóðgarðurinn er í, sú stærsta í Ameríku og talin uppspretta einhverja mögnuðustu elgosa sem jörðin hefur séð seinustu milljón árin. Eldgosið fyrir rúmum 2 milljón árum kemst ofarlega á lista yfir öflugustu eldgos sem vitað er um. Seinasta stórgos sem átti sér stað í þjóðgarðinum, fyrir um 700 þús.árum síðan, olli kjarnorkuvetri um gjörvalla jörðina. Heimamenn tala um að það sé kominn tími á nýtt stórgos. Afleiðingarnar verða stórkostlegar fyrir alla íbúa Norður Ameríku en líka fyrir jarðarbúa yfir höfuð. Ég gef fjallinu svona 100 þús. ár til að gjósa. Líkurnar á að það gjósi á mínum líftíma eru innan við hálft prósent samkvæmt því. Ofarlega í minninguni er Danau Toba á Súmötru sem ég heimsótti árið 2008. Það eldfjall er talið hafa útrýmt öllum tegundum manna nema Homo Sapiens og Homo Neanderdal fyrir um 70 þús. árum síðan. Ferðalagið um það eldfjall var ógleymanlegt, ég var því spenntur fyrir því að heimsækja Yellowstone.
Nú ætlaði ég að ferðast viðstöðulaust frá Omaha til Vesturstrandarinnar með smá viðkomu í Yellowstone. Það ferðalag var ógleymanlegt
Viðstöðulaust puttaferðalag er ferðalag þar sem ferðamátinn er húkkuð för án þess að stígið sé frá veginum eitt andartak, þar sem maður bókstaflega lifir á puttanum. Seinustu tvo mánuðina hef ég aldrei verið lengur en tvo daga viðstöðulaust á puttanum. Nóttin á milli hefur alltaf verið í tjaldi meðfram veginum. Oftast hef ég gist hjá CouchSörferum (sófahýslum) á milli í tvær eða fleiri nætur, notað tíman til að skoða borgina/staðinn sem ég er á í hvert sinn. Frá því ég skildi við Cody, Ellen og restina af liðinu í Omaha NE komst puttaferðareynslan mín á nýtt plan. Ég húkkaði mér viðstöðulaust í 6 daga, byrjaði á hrekkjavökunni, 31. október, og endaði 5. nóvember. Alla leiðina frá Omaha til Boise, Idaho, í gegnum 4 fylki, þúsundir mílna, yfir fjöll, gegnum skóga, gegnum gljúfur, um borgir, um bæji á strjálbyggðasta svæði meginlandsfylkjanna.
Að húkka sér viðstöðulaust í svo langan tíma er áhugaverð reynsla. Áður en ég kem að ferðasögunni ætla ég að deila smá innsæi inn í þetta líferni. Lífið á vegum úti.
- Maður veit aldrei hversu langt maður kemst hvern dag. Maður veit ekki hvar maður endar og þar af leiðandi veit maður ekki hvernig komandi nótt verður.
- Maður veit nokkurnveigin hvert maður er að fara en hvernig maður fer þangað lærir maður á meðan maður er á leiðinni. Bílstjórar gefa manni oft ráð sem maður tekur framyfir plönin sín. Oftast eru þau þess virði en það getur komið fyrir að svo er ekki.
Með öðrum orðum: Hafirðu einhver plön, geturðu gleymt því að þú fylgir þeim eftir, hafirðu einhverja hugmynd um hvernig hlutirnir munu æxlast, geturðu gleymt því að þeir geri það.
Ég skráði nákvæmlega hvernig ferðin var í dagbókina mína. Ég nenni ekki að afrita það allt en ég mæli með því, ef þið komið einhverntíman í heimsókn til mín í náinni framtíð, að þið gluggið í dagbókina mína og lesið hvernig þetta ferðalag var nákvæmlega. Hér fyrir neðan eru nokkrir útvaldir partar
Dagur 1. Þjóðvegur 75 norður (Zombie Hitchhiking; Hrekkjavökuhúkk).
2. Tíma gangur. Fullt af bílum. Enginn stoppar. Kannski ætti ég að færi mig hinum meginn við fylkismörkin, yfir til Iowa, og taka interstatið til Sioux City. Fæ að lokum far til Blair. Fokk hvað ég er svangur. Hafði engan morgunmat fengið.
„Eggs & Bacon (skipt út fyrir Hash Browns) + All you can eat pancakes.“ Jess. Loks get ég borðað. Feitur sunnudagsbröns ☺.
Hádegi: Fæ fljótt aftur far í næsta bæ með kristnum babtista, mjög trúaðum. Hann keyrir mig að kirkjunni sinni. Fæ þar sturtu og kaffi og eitthvað. Fæ líka tækifæri til að segja skoðun mína á Jesúa frá Nasaret (Jesús Kristi), að Jesúa hafi sjálfur verið róttækur í sinni trú, að hann hafi tekið afstöðu sem endurspeglaði ekki það sem stóð að Guð hafði sagt í gamla testamentinu. Og að þess vegna þurfi ég ekki endilega að trúa öllu sem Jesúa sagði. Ég má gagnrýna það sem Jesúa átti að hafa sagt alveg eins og að Jesúa mátti gagnrýna það sem Guð átti að hafa sagt.
Annar langur gangur upp 75. Klukkustund líður áður en ég fæ far til Decatur. Farið segir mér að taka 51 vestur í gegnum Norfolk, og þaðan á 20. Hérna eru akrarnir smærri, og fleiri tré heldur en nær Omaha. Ég er kominn á verndarsvæði Indíána. Ég stend við gatnamót 75 og 51 í svona 30 mínútur. Hérna er engin traffik. Á þessum hálftíma keyra svona 3 bílar framhjá mér.
Áður en ég veit af er ég kominn í trukkalest. Trukkur stoppaði við Decatur. Hann sannfærði mig um að halda áfram upp 75, keyrði mig einhverjar 20 mílur og spurði svo: „kanntu að keyra?“. Já, svara ég, en bendi á að ökuskírteinið mitt sé í Amasonskóginum (sjá LINK). „Það skiptir engu máli,“ Hann stoppar trukkinn þar sem fullt af öðrum trukkum og stórum landbúnaðarvélum hafði verið lagt. Hann skreppur í burtu og kemur til baka á pallbíl með eldsneytistank í eftirdragi og segir: „Þú ekur þá þessum.“
Ég fylgi stóru landbúnaðarvelunum á einhvern akur. Þær hefja uppskeru og mér er skutlað aftur á þjóðveginn, 75 þ.e. Ég fæ 20 dali fyrir þessa hðálftíma „vinnu“ (vonandi les bandaríska innflytjendaeeftirlitið þetta ekki☺).
Það er langur gangur áður en nokkur stoppar. Klukkan er 4 og það fer að styrrast í sólsetur. Indjáni stoppar og keyrir mig aðeins áfram. „Þú ert á verndarsvæði vinur minn. Um’aha. Við erum enn dáldið tortryggnir á ykkur hvítu mennina. Því miður.“
Indíánasystkyni stoppa næst. Þau voru að hittast fyrst núna eftir 20 ára fjarveru og voru á leiðinni frá Um’aha verndarsvæðinu í kasínó í næsta verndarsvæði. Þau stoppa og ég sé bilaðan bíl við vegakanntinn. „Guðslukka!“ Það er stoppað strax og keyrt mig beinustu leið til Sioux City. Er kominn fyrir rétt fyrir myrkur. „Listen, I know your way man. But if there is anything, just give me a call. If it starts raining or something don’t hesitate to give me a call. Here is me phone number. I’ll give you a place to sleep, man.“ Ég tjalda bara við aðreinina að 20 vestur. Inn í loopunni. Veðrið er gott og engin þörf á að taka útúrdúr inn í borgina fyrir þægilegt rúm. Á morgun er það vestur eftur 20. Alla leiðin til Wyoming.
Dagur 2. 20 vestur
Aftur hefst dagurinn á 2 tveggja tíma göngu, í þetta sinn vestur eftir þjóðvegi 20. Fæ nokkra stubba og set markið á O’neil, 100 mílur vestur.
Ég er kominn lengst út í rassgat. Klukkan er að verða 11. Einhver stoppar. „Ég er að fara til Wyoming, ekki alla leiðina til Yellowstone, en við fylkismörkin ertu meira ein hálfnaður til Yellowstone. Í fyrstu er ég mjög ánægður en kemst stuttu síðar að því að hann er hundleiðinlegur. Næstum óþolandi. Og ofan á það er hann að drekka. Ég fer um 100 mílur með honum og fer svo úr bílnum. Hann skáldar að hann sé að fara norður, en þar sem hann hleypir mér úr er engin afleggjari norður. Bara pínulítill bær. Kannski 10 íbúar. Göturnar eru malaðar og eini veitingastaður bæjarinns selur ekkert nema brauð með kjúkklingaskinku. Ég nota klósettið hans. Það er það ógeðslegasta sem ég hef séð. Og hef ég komið til Asíu.
Við eftirmiðdegið stoppa gömul hjón. Þau setja mig upp á pallinn og keyra mig nokkrar mílur. Þau eru æðisleg. Við þegar leiðir skiljast gefa þau mér afganginn af hrekkjavökunamminu sínu.
Klukkan er að ganga 5 og ég er nett að leita mér að yfirgefnu húsi eða brú til að tjalda undir. Þau segja að það muni snjóa í kvöld, en ég sé engin ský á himni. Himininn er fagurblár. Ég húkka meðan ég geng meðfram þjóðvegi 20 samhliða því að leita mér að næturstað. Ég finn engan. Allt í einsu stoppa hjón frá Norfolk. Þau eru á leiðinni til Chandran við fylkismörkin að horfa á son sinn spila amerískan fótbolta, það er háskólafótbolta. Farið er 5 tímar. Upp úr þurru sé ég hvernig skýinn hrannast upp og það byrjar að snjóa á minna en klukkutíma. Ótrúlegt.
Það er orðið dimmt og allt á kafi í snjó þegar við komum til Chandran. Þessi hjón kröfðust þess að borga handa mér mótelherbergi. Ég kom engum vörnum við og þáði það. Aldrei hef ég átt jafn lúxus næturstað á þessu ferðalagi fyrr. Þetta var mjög fallega gert af hjónunum.
Dagur 3. 20 vestur (part 2)
Það er yndislegt úti. Bongóblíða og allt á kafi í jólalegum snjó. Ég tek eftir því að ég þarf nýja skó. Gömlu leka. Ég mun kaupa nýja í Casper WY.
Ég fæ fljótt far einhverjar mílur inn í Wyoming. Það er fallegt hérna, engin umferð algjör kyrrð. Ég mun njóta þess að labba meðfram þjóðveginum hérna. En ég fæ far mjög fljótt.
Ég kemst til Casper um fjögur-leytið. Kaupi mér nýja skó og reyni að húkka mér far í gegnum borgina.
Það gengur ekki.
Reyni að taka strætó að hinum enda borgarinnar.
Það gengur ekki. (Því tjalda ég bak við Wall-Mart)
Dagur 4. Yellowstone
Byrja daginn á að labba í gegnum borgina.
Það gengur eftir. Ég hafði ofmetið stærð borgarinnar.
Það er reyndar lýgi, ég byrjaði daginn á að stelast inn á Hollyday inn og þykjast vera gestur. Þannig fékk ég frían morgunmat. Ég er búinn að mastera lífið á vegum úti.
Djöfull var kallt í nótt. Ég gæti þurft að kaupa mér hlýrri föt ef það heldur áfram að vera svona kallt. Að minnsta kosti er ég kominn með hlýja skó svo dagarnir verða ekki vandamál héðan af, sé til með næturnar.
Fæ far út úr borginni þegar indjáni tekur mig upp í. Hann segir mér frá því hvernig hvíti maðurinn hefur farið með landið. Svæðið sem ég er á núna er frægt í sögunni fyrir ofsóknir hvítra gegn hans fólki. Seinna heyri ég hvernig enn þann dag í dag er farið með Lacota indjánana í Suður Dakota, ekki ýkja langt frá Sioux City. Það fannst gull á verndarsvæðinu þeirra og því voru þeir reknir burt af landinu sínu svo að hvíti maðurinn gæti grafið eftir gulli. Í dag búa þeir í sárri fátækt, eins og stór hluti innfæddra í Bandaríkjunum.
Í Riverton fæ ég aftur far á pallinum. Í þetta sinn er það indjánafjölskylda sem tekur mig upp í. Þau keyra dálítið hratt og ég er pínu hræddur.
Svo tekur mormóni mig upp í. Hann getur keyrt mig 50 mílur frá þjóðgarðinum. Ég get tjaldað þar og komist til Yellowstone á morgun. Hann hringir í ömmu sína og kemst að því að Yellowstone lokaði fyrir þrem dögum síðan og verður lokað yfir veturinn.
Bömmer.
Mormónar eru áhugaverðir. Þessi var vel læs á öll vísindi og engan vegin neitaði hann neinum vísindum sem grafa undan kristni trú (að sálinni undanskilinni). Hann bara fann leið til að útskýra vísindin með Guði inn í þeim. Það var mjög gaman að tala við hann. Þar sem Yellowstone var lokað skutlaði hann mér suður að fylkismörkum Idaho, nær vesturströndinni. Ég fékk að gista í hlýju gestaherbergi heima hjá ömmu hans og afa í Alden. Það var þægilegt.
Dagur 5. Utah
Ég fæ far á einhverja hæð frá snjóbrettagaurum. Hérna er ólöglega fallegt. Ég sé inni í gyl og upp á snævi þakin fjöll. Hérna er heldur engin umferð. Jafnvel þó ég þurfi að labba í tvo tíma þá mun ég njóta þess að labba þennan veg.
Þriðji bíllinn framhjá stoppar eftir 15 mínútur.
Hann sannfærir mig um að fara með sér til Utah, þaðan get ég tekið hraðbrautina beint til Portland. Hann keyrir mig til Logan sem hann segir að sé áhugaverður háskólabær þar sem meirihluti íbúa eru mormónar, þetta er svona innihaldsnauður, skýrlífur og fallegur háskólabær þar sem allir eru ofur góðir við hvorn annan og allir eru í bindindi.
Ég festist á netinu í bænum í 2 tíma. Ég er þreyttari á útiverunni en ég hélt. Ég verð samt að halda áfram því ég hafði frétt af óveðri sem mun skella á í kvöld.
Ég fæ far á stað við hraðbrautina þar sem ég sé að ég get tjaldað undir henni. Ég held samt áfram að reyna að húkka mér. Ætla að reyna þar til það kemur myrkur
Um 5, rétt fyrir myrkur, stoppar trukkur. Hann skutla mér til Eden, Idaho. Svona 30 manna bær lengst út í rassgati. Ég segi honum hvernig ég get tjaldað í skjóli fyrir storminum undir hraðbrautinni en honum lýst ekkert á blikuna. Þegar við komum til Eden, í algjöru myrkri, býður hann mér í kvöldmat (ekta mexíkanskan [það er alvöru tortillur eins ég ég fékk í Gvatemala] enda er hann sjálfur frá Mexíkó) og segir að ég meigi gista í trukknum. Það er vel þegið.
Dagur 6. Occupy Boise
Djöfull var kallt um morguninn. Ég reyndi að elda mér hafragraut þegar ég steig út úr trukknum en prímusinn hafði ekki við kuldann. Þetta er kaldara en er nokkurntíman í Grindavík, vindkæling meðtalinn því rokið þarna var jafnslæmt og þegar verst er í köldustu norðaustan næpunni heima. Guði sé lof fyrir það að ég þurfti ekki að gista í tjaldi í nótt. Fingurnir hefðu frosnað áður en ég næði að pakka saman tjaldinu.
Ég er ekki lengi að fá far alla leið til Boise, höfuðborg Idaho fylkis. Ég stoppa í hádegismat og ætla að labba í gegnum borgina til að halda áfram vestur. Þegar ég geng í gegnum miðbæinn sé ég að hópur fólks er setju upp tjaldbúði. Mótmælabúðir. Þarna er Food-not-Bombs að dreifa mat en ekki einkaþotum. Beinar aðgerðir gegn kapítalisma þar sem ofgnótt matar endar í ruslinu á sama tíma og stór hluti Ameríkubúa svelltur í hel. Þar sem ég snæði og ræði gegn þessum ríku 1% sem stjórnar 99% stjórnmálamanna sé ég að ég mun falla vel inn í hópinn. Ég slæ því upp tjaldinu mínu í mótmælendabúðunum og tek þátt í götutöku Boise. Áður en ég veit af er ég orðinn vinsælasti strákurinn í Boise og á erfitt með að yfirgefa vina mína fyrir vesturströndina. Vesturströndin verður að bíða í bili. Ég mun sakna þessa fólks þegar ég fer héðan. Ég ætla aðeins að njóta mín hérna þar sem mér líður vel.
Í götutöku Boise var ég í næstum viku. En meira um það næst.
Rúnar the Revolutionary
Seattle, Washington
14. nóvember 2011
haha, Skemmtilegur pistill vinur. Njóttu nú vesturstrandarinnar og farðu svo að koma þér heim, farinn að sakna þín hérna…
Djöfuls harka er þetta í þér Rúnar. Ekkert smá „Streetwise“ að fá ókeypis morgunmat á Holiday Inn!