Skip to content

10. Þegar ég og Benjamín ferðuðumst til Kaliforníu

desember 11, 2011

Áður en ég byrja.

Ég klúðraði. Ég fór illa að ráði mínu. Ég skildi bakpokann minn eftir á röngum stað og á röngum tíma. Ég faldi hann. Ég taldi að það væri öruggt. Það var það ekki. Ég klúðraði. Hlýju fötin mín, vegabréfið mitt, græjurnar mínar, svefnpokinn og tjaldið. Ekki bækurnar mínar, tölvan, myndavélin og veskið mitt þó. En allt hitt. Í höndunum á þjófi núna. Ég klúðraði.
Og í eina skiptið þar sem ég þurfti alvarlega á þjónustu lögreglumanna að halda, þá fékk ég auðvitað hálfvita löggumann. Ég veit ekki hvað það er… Er löggan samansafn hálfvita og vondra manna, sem gera ekkert nema pína mótmælendur og vera með derring? Maður spyr sig.

Núna byrja ég.
Ég, Benjamín og Phil að aka niður 101, nýbúnir að borða ljúffengar Quesedillur er Phil eldaði í vaninum sínum. Ég sitjandi á gólfinu, Benjamín í farþegasætinu og Phil að keyra. Við erum í Suður Oregon, stöðvum við hvert tækifæri til að skoða þessa gullfallegu strandlengju sem Oregon er fræg fyrir. Gullið. En bíddu nú við. Hver er Benjamín, og hver er Phil?

1. Hvernig ég hitti Benjamín.
Ég tók lestina (eða Maxinn) eins langt vestur og ég komst frá Portland. Þaðan þurfti ég að ganga heilan helling áður en ég fann sómasamlegan afleggjara til að geta húkkað. Hálfri mílu frá þessum afleggjara fékk ég loks far þangað afan á pallbíl. Þegar ég gekk yfir brúnna sá ég mann í fjarska, puttaling eins og mig.
„Sæll vertu.“
„Komdu sæll.“
„Á puttanum?“
„Jamm. Þú líka?“
„Já.“
„Hvert er förinni heitið?“
„Að þjóðvegi 101.“
„Ég líka. Til Kalíforníu?“
„Aha, San Fracsisco. En fyrst til Redwoods.“
„Vó, akkúrat eins og ég.“
„Jæja, langar þér að ríða á vaðið í smá stund á meðan ég fer þangað inn og fæ mér hamborgara.“
„Ég var að spá hvort við ættum ekki að vera samfó frekar.“
„Já, afhverju ekki. Sæll ferðafélagi, ég heiti Benjamín, hvað heitir þú?“

Og síðan þá hef ég og Benjamín ferðast saman frá Portland þar sem það vildi svo til að fyrsti puttalingurinn sem ég hitti á vegum úti var á sömu leið og ég.

Það er gaman frá því að segja að Benjamín hefur atvinnu af lífinu á vegum úti. Hann er það sem við hinir kalla atvinnumaður, eða prófesíónal. Hann skrifar pistla og tekur upp vídeó sem hann fær borgað fyrir (ég mæli með að skoða síðuna hans www.adventuresauce.com/). Sjálfur er hann á frá Ann Arbor, Michigan¹, að ferðast suður frá vetrinum. Hann ætlar að hitta kærustuna sínu hérna í San Francisco.²

2. Svo kemur Phil
Við, Benjamín, fengum nokkur för og gistum á skrítnum stöðum áður en við komum að þjóðvegi 101 sem liggur meðfram strandlengju Washingtonfylkis, Oregon og mestmegnis Kalíforníu. Hann er frægur fyrir að fara meðfram gullfallegri kyrrahafsströnd Bandaríkjanna. Eitt farið okkar, sem keyrði okkur af 26 og inn á 101, var það fallegur að taka okkur í lítinn leiðsagðann leiðangur. Sýndi okkur meðal annars klettana þar sem Goonies, mynd Stevens Spielbergs, var tekin upp, svo og sýndi hann okkur fleiri skóga, risa tré og gullfallegar strendur með hvítum sandi.

Það leið ekki á löngu áður en Phil tók okkur Benjamín uppí. Hann ekur um og lifir í gömlum amerískum sendiferðabíl sem hefur verið breytt í húsbíl, svokallaður hippavan. Hann er á leiðinni suður til Costa Rica frá British Columbia, Kanada. Sjálfur er hann Ástrali frá New South Wales. Við þremenningarnir ókum saman eftirmiðdegið, allan næsta dag og morguninn þar eftir. Við kláruðum kyrrahafsströnd Oregon á tæpum tveim dögum. Við stöldruðum við þar sem við vildum staldra við, skoðuðum það sem við vildum skoða, gistum þar sem við vildum gista. Við tókum okkur semsagt góðan tíma við að aka þessa leið. Þetta voru góðir tímar.

3.Nancy og Verne í Gasquet, California
Phil ætlaði ekki að skoða rauðviðina jafn harkalega og við Benjamin. Hann hafði reddað sér vinnu við að snyrta gras í Eureka Californiu, aðeins sunnar en þjóðgarðarnir frægu. Okkur Benjamín langaði nefninlega að tjalda einhversstaðar lengst inn í skóginum þar sem enginn getur angrað okkur. Lífið í skóginum, eins og Valden forðum (sjá 3. The Appalachian Trail at Franconia Notch in the White Mountain National Forest, New Hampshire). Við vissum líka að vegir okkar lægu ekki saman. Við puttalingarnir Benjamín ferðumst allt öðruvísi en fulltimer-inn Phil sem getur ekki hugsað sér að sofa í tjaldi við vegkantinn. Við kvöddum Phil í Crescant City, borguðum okkar hluta af bensíninu (bara sanngjarnt fyrir þriggja daga ferð, ferðalangur fyrir ferðalang) og hófum að undirbúa fyrir þessa miklu skógarferð. Ef við gætum værum við viku í skóginum. Við þurftum bara að finna út hvar í skóginum væri best að vera, og til þess þurftum við upplýsingar frá netinu og heimamönnum. Við trúðum að við fengjum upplýsingarnar í Crescant City.
Í miðjum undirbúningnum (sem var unninn í Starbucks) kemur miðaldra kona að Benjamín: „Fyrirgefðu? Benjamín?“
Benjamín: „Ha?“
„Þú ert Benjamín, er það ekki?“
„Ehh jú.“
Kona: „Ohh, en frábært. Ég er áskrifandi að síðunni þinni. Ég horfi á myndböndin þín. Ég sendi þér tölvupóst um daginn. Sástu hann ekki?“
Benjamín: „Ég fæ svo marga tölvupósta hann hlýtur að hafa farið framhjá mér. Hvað heitir þú?“
Kona: „Nancy. Ég sá vídjóið þitt í Oregon á YouTube og hugsaði með mér: „Hann hlýtur að vera einhverstaðar hérna nærri.“ Ég sagði það við þig [bendir á manninn sinn]: „Hann er ábyggilega hérna í kring akkúrat núna,“ og hérna ertu.“
Benjamín: „Vá en frábært. Frábært að hitta þig. Og þú bara þekktir mig. Þetta er frábært.“
Nancy: „Þetta er maðurinn minn, Verne, og við vorum að spá í hvort þú viljur ekki koma í kvöldmat til okkar. Þú getur tekið þér sturtu, hlýjað þér og svona. Við getum svo spilað saman og eitthvað, langar þér að koma?“
Benjamín: „Þetta er Rúnar, vinur minn. Við erum búnir að vera að ferðast saman síðan í Portland. Það vildi svo til að við hittum á sama afleggjarann á sama tíma á leiðinni á sama staðinn. Hann er svalur náungi.“
Við heilsumst
Nancy: „Þú ert velkominn líka. Hvað segið þið, viljið þið koma í kvöldmat til okkar, og að spila og svona. Það verður rosa gaman.“

Við skelltum okkur til þeirra,. Við höfðum eytt nóttinni ofan á varamannaskýli á hafnaboltaleikvangi og ruslað okkur hvítlauksbrauði í morgunmat. Boðið var því mjög kærkomið og Nancy og Verne voru líka afbragðs fólk. Þau höfðu gengið pílagrímsgöngu Santiago de Compostela og voru að þjálfa sig til að fara aftur. Þetta voru gamlir hippar frá 7. áratugnum. Nancy hafði sjálf húkkað sér um allt 68 og Verne er blúsari af guðs náð. Þau eru sannarlega af 69 kynslóðinni frægu. Ég er kominn til Kalíforníu. Ég get ekki beðið eftir að sjá Ground Zero. San Francisco.

Þetta var skrítið. Við Benjamín höfðum átt hræðilega nótt. Svo hræðileg var hún að ég tók þá ákvörðun þá þegar að héðan í frá verð ég Straight Edge (það er að halda heilanum mínum hreinum af öllum efnum sem aftra huganum frá því að starfa eðlilega)³. Og núna vorum við í þessu hlýja húsi að borða þennan yndislega mat. Þau buðu okkur líka gistingu sem við þáðum. Reyndar sváfum við þarna tvær nætur. Nancy og Verne vissu ýmislegt um rauðviðina, hvar væri best að vera og annað slíkt sem kom sér mjög vel upp á framhaldið. Einnig buðu þau okkur í skoðunarferð um skógana í kring, sem þau óku okkur til. Nancy og Verne voru frábær. Áður en við kvöddumst þá gáfu þau mér ýmislegt drasl til að byrja endurnýjun aleigu minnar. Gammósíur, hlýja peysu, svefnpoka og, það besta, gamla strigapokann hennar Nancyar. Axlapoki sem hún notaði sjálf til að húkka sér um bandaríkin á sjöunda áratugnum frá San Francisco. Þetta er poki sem var eflaust notaður í seinna stríðinu, svo gamall er hann. Og hann kom sér vel í rauðviðunum.

4. Redwood National and State Parks
Ef þið hafið séð seinustu Stjörnustríðsmyndina, atriðið í frumskóginum, þar sem Ewokarnir búa, seinna tungl Endor, þá hafið þið fengið smekkinn af því hvernig rauðviðirnir líta út. Þetta eru þau tré sem vaxa til að verða þau hæstu í heimi. Gullfalleg. Við Benjamín vorum nokkra daga í skóginum. Við tjölduðum algjörlega óáreittir. Það var enginn í skóginum nema við. Vá hvað það var kúl. Benjamín tók sínar myndir og ég tók mér margar gönguferðir. Ein besta sem ég tók var um svæði sem heitir Fern Canyon. Göngustígurinn fer úr gilinu á einum ákveðnum stað og heldur áfram meðfram því. Ég neitaði að fara úr gljúfrinu og hélt áfram meðfram ómerktum rollustíg inn í því þar til að ég sá brú einhverri mílu síðar. Þá prílaði ég upp úr gilinu, fór aftur á merktan stíg og fékk að njóta þess að ganga meðal þessara risa aleinn allan daginn. Gullið.

Eitt sem ég vill segja í lokinn varðandi rauðviðina. Einn rauðviður getur aldrei staðið einn. Hann þarf hjálp frá rótum allra hinna trjánna í samfélaginu til að geta staðið svona langt upp í himininn. Rætur trjánna eru nefninlega mjög grunnt undir yfirborðinu. En þær ná langt til allra átta. Þær flækja sér síðan saman til að mynda eina heild rauðviðaskógs. Hvert tré fær stuðning frá öllum hinum trjánum. Saman standa þau, sundruð falla þau. Eitthvað sem ég hugsaði mikið um meðan ég sat í varðhaldi lögreglunnar ásamt tugum annarra mótmæla hérna í San Francisco. En meira um það síðar.

Rúnar Berg (ekki segja löggunni) Baugsson Sigríðarson
San Francisco, California
11. desember 2011

_________

1: Sama Ann Arbor og ég gerði garðin frægan í Október seinastliðnum (sjá. 5. Michigan: Eða hvernig ég tók Liberty Plaza).

2: Fyrir myndbönd sem Benjamín tók af mér sjá youtupe síðuna hans (Youtupe: AdventureSauce), ég er í myndböndunum My Oregon Van Time Lapse og All Night Time Lapse (Sleeping On Dugout Roof).

3: Edrú er ekki góð þýðing þar sem Staight Edge er um miklu meira en bara að halda sér frá vímuefnum. Þetta snýst um hámarksafköst hugans. Alkahol, Kanabis, koffín og fleira eru huganum til trafala og því er betra að sleppa þeim. Ég geri það af því það hentar mér best sem sjálfráða einstakling en alls ekki því ég á við fíkn að stríða eða vegna þess að samfélagið lítur hornauga á þessi efni.

From → Reisupistill

2 athugasemdir
  1. Hey Roomba!

    Svo ánægð að sjá þú ert með nýja dagbókarfærslu! Ég hélt að þú gætir hafa bæði verið sykur-loafed og vinstri til að laða flýgur við hlið af the vegur …

    Ég er að njóta að lesa bloggið þitt við Google Þýðandi, til dæmis-

    Recently the New Year. Many take advantage of this moment to look over the past year and reviews the key. I’m just doing it. Here in America I have met so many amazing people and heard so many interesting stories. In the Gregorian moment I’m going to share some interesting stories I’ve heard.

    Google Translator gerir sögur þínar mjög fyndið örugglega

    Mikið ást frá Occumom þínum

  2. Hilmar Sigurðsson permalink

    Snilld að lesa þetta Rúnar ! Get ekki ímyndað mér hvað á daga þína hefur drifið undanfarið en ég get sagt það að ég væri til í að hafa þetta hugrekki þitt og þessa ævintýraleit !
    Kveðja frá Hollandi !

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: