Skip to content

12. Áramótin: Litið um öxl

janúar 9, 2012

Ameríka er þekkt fyrir fangelsin sín. Hérna eru fleiri í fangelsi heldur en í flestum vestrænum ríkjum samanlagt. Þrátt fyrir að vera aðeins 5% af jarðarbúum er tæpur fjórðungur af öllum föngum jarðarinnar í bandarísku fangelsi. Á Íslandi eru 47 af hverjum 100.000 íbúum í fangelsi, í Bandaríkjunum eru það 743, það er um 1580% fleiri miðað við höfðatölu. Fólk fer í fangelsi fyrir fáránlegustu brot. Hafi þau farið einusinni í fangelsi er allar líkur á að þau fari þangað aftur. Þegar út úr fangelsi er komið er ekki nokkur leið að fá vinnu né finna sér heimilli, ameríski draumurinn er úti.
Í Ann Arbor hitti ég mann. Hann var í slitnum fötum, órakaður og illa lyktandi. Hann var heimilislaus. Ég talaði við hann vel og lengi, við áttum góða samleið. Hann hafði góða innsýn í veruleikann. Við gátum talað saman um heimspeki, pólitík, samfélagið, taugakerfið og stjarnfræði. Ég velti því fyrir mér hvernig svo vel mæltur og vel lesinn maður byggi á götunni. Hvers vegna er maður, sem augljóslega á margt sem hann getur deilt með hinum akademíska heimi, ekki í skóla, að kenna, að skrifa, að smíða eða hana? Einhverstaðar í samræðunum kom það í ljós:
„Þegar ég var 17 ára var ég dæmdur í fangelsi. Ég var nokkur ár í fangelsi. Ég er búinn að vera laus um 5 ár núna. En ég fæ enga vinnu. Enginn ræður mann í vinnu sem hefur verið í fangelsi.“
Og hvers vegna var dæmdur í fangelsi?
„Fíkniefnabrot. Ég var með of mikið af fíkniefnum á mér. Þess vegna þurfti ég að dúsa nokkur ár í fangelsi.“
Í dag drekkur þessi maður ekki áfengi, hann reykir ekki sígarettur og tekur engin ólögleg vímuefni. „Ég reyki reyndar mikið gras, ég gæti ekki verið án kannabis, ég elska gras. Nú get ég reykt það án þess að brjóta nein lög,“ sagði hann mér eftir að hafa útskýrt að gras sé nú löglegt í Michigan hafi maður fengið það áskrifað frá lækni. Þessi maður er fyrirmyndar þegn. Snjall hugur sem á mikla möguleika. En vegna heimskulegs brots þegar hann var unglingur, og vegna hrikalegs refsikerfis á hann hvergi heima nema á götunni að mati samfélagsins hérna vestan Atlandshafsins.

Nýlega voru áramót. Margir nýta þessi tímamót til að líta yfir liðið ár og rifja upp það helsta. Ég ætla einmitt að gera það. Hérna í Ameríku hef ég kynnst svo mikið af merkilegu fólki og heyrt svo mikið af áhugaverðum sögum. Á þessum gregórísku tímamótum ætla ég að deila með ykkur nokkrum áhugaverðustu sögunum sem ég hef heyrt. Fyrsta sagan var af manni sem var sendur á götuna af ósanngjörnu refsikerfi bandaríkjamanna. Hér fyrir neðan fylgja svo tvær aðrar sögur sem ég hef heyrt af amerísku fólki á liðinu ári. Neðar mun ég segja ykkur frá Greg. Smiði sem frá Idaho sem lenti í vinnuslysi og þurfti að leggjast undir hnífinn í framhaldinu. Þegar hann mætti til vinnu, frískur, nokkrum vikum síðar, var honum sagt að hann hefði verið rekinn. Hann hafði verið frá vinnu í of langan tíma og gæti því ekki snúið þangað aftur. Ég ætla að byrja á sögunni af Assötu, dásamlegri konu í Detroit sem hóf um fimmtugt að ferðast um heiminn með bakpoka á bakinu. Mjög áhugaverð saga.

Assata bauð mig velkominn á heimillið sitt Í Detroit. Í Húsinu var par frá Montréal, ásamt Rússa sem hafði verið þar í lengri tíma. Assata sjálf er blökkukona, yfir fimmtug. Hún ver stundum sínum við að föndra, semja tónlist eða smíða allskyns listaverk. Hún var óvenju brosmild. Full af jákvæðri orku. Ég spurði hana hvers vegna hún byrjaði í CouchSurfing.
„Þegar ég var yngri fór ég í ýmiss ferðalög. Ég man það tildæmis að ég fór með vinkonu minni til Bahama. Við vorum þar á hóteli, með einkaströnd og öllu. Núna átta ég mig á því að ég var eiginlega ekki að ferðast. Ég fór aldrei út fyrir verndað svæði hótelsins. Ég fékk aldrei að kynnast alvöru Bahama.“
Sagan af Assötu, er saga af menneskju sem sér allt í einu fleiri hliðar á lífinu, að lífið er ekki jafn einfalt og það virðist. Hún var lögga, en nú er hún mótmælandi. Hún sagði mér frá reynslu sinni sem löggu og fékk mig til að sjá að löggan hefur líka hlið á málunum (þó svo að hún sjái ekki endilega hlið glæpamannana eða mótmælendanna). Það sem gerir sögu Assötu áhugaverða er að þessi stökkbreyting á veruleikasýn hennar varð ekki fyrr en á fertugsaldri. Eftir að hún hafði lokið við þessa meintu tilraunamensku æskuskeiðsins. „Næst þegar ég fór til Karíbahafsins, þá var ég farfuglaheimilli. Ég öppgreitaði mig upp frá túristahóteli yfir í hostel. Þar kynntist ég ungu fólki sem virtist hafa mun skemmtilegri ferðasögur en mér væri nokkurntíman unt að öðlast á verndarsvæðum hótelanna. Loks ákvað ég það. Að næst þegar ég ferðaðist, ætlaði ég að lifa með heimamönnum. Ég fór til Afríku, skráði mig á CouchSörfing, og bjó með þessari indælu fjölskyldu á meðan ég var þar. Ég fékk að kynnast því hvernig alvöru lífið er þarna í Afríku. Ekki bara einhverja glansmynd sem túristar fá, heldur fékk ég alvöru ferðareynslu.

Ég segi þessa sögu, söguna hennar Assötu, því að sjálf býr hún í borg sem hefur verið málað einhvernvegin öðruvísi en hún er. Hvað Detroit er, er eitthvað sem maður getur bara séð ef maður kemur til Detroit og kynnist fólkinu sem býr þar. Assata er lifandi dæmi þess að ekki er allt sem sýnist. Hennar saga af lífinu er akkúrat öfug við staðalmynd miðaldra blökkukvenna, sem eru ungir róttæklingar, finna sér svo stað í lífinu og setjast í helgan stein. Assata hóf að ferðast um mitt æviskeiðið. Og er enn að. Á meðan borgin hennar hrörnaði, er Assata frísk sem aldrei fyrr.

Nú, að lokum, ætla ég að segja söguna af Greg.

Það var snemma morguns að ég stóð við afleggjara í suður-Idaho að reyna að komast til Boise. Annar eða þriðji bíllinn framhjá stöðvaði, skrúfaði niður rúðuna og kynnti sig: „Sæll, ég heiti Greg.“ Þar sem við keyrðum í áttina til Boise, sagði hann mér söguna sína. Konan hans var í bílnum fyrir framan, þau voru á leiðinni til Boise, þar sem dóttir þeirra átti heima. Hún átti bílinn sem konan hans keyrði. Þau voru að skila honum. Þau ætluðu svo að keyra þessa klukkutímaferð til baka saman, í bílnum sem ég var í. Hann sagði mér frá persónulegri reynslu. Hann og konan hans keyrðu eitt sinn alla leiðina frá Idaho til Georgiu (3 dagar stanslaust) til að vera með syni þeirra í gegnum veikindi. Það fanst mér merkilegt. Ótrúlegasta sagan, og því miður sú sorglegasta var af því hvers vegna hann flutti í þennan bæ sem hann tók mig uppí í, smábær á engum kortum í klukkutíma fjarlægð frá dóttir sinni.
„Þannig var mál með vexti að ég var að vinna við að gera við trukka fyrir ákveðið fyrirtæki. Fyrirtæki sem flytur korn og kúaafurðir hérna á svæðinu, allt suður til Nevada og stundum Californiu. Ég fékk borgað í fastakaupi og var því með mjög stöðugan fjárhag. Keypti mér fínt hús hálftíma fyrir utan Boise, í fjöllunum. Ég var mjög ánægður með það. Ég hef aldrei búið í betra húsi á ævinni. Þú munt sjá það. Við keyrum fram hjá því á eftir. Einn daginn lenti ég í nokkuð alvarlegu slysi. Braut nokkur bein og þurfti að fara í aðgerð, ég get enn ekki snúið höfðinu til hægri lengra en þetta. En ég var heppin. Í fyrsta lagi að hafa ekki algjörlega lamast. En það var meira. Þegar læknarnir voru að laga mig eftir slysið, fundu þeir fyrir algjöra tilviljun illkynja æxli á byrjunarstigi. Ég hefði bara þurft að vera 2 – 3 vikur á spítala, en út af æxlinu þá var ég alls 6 vikur. Þeir náðu að fjarlægja æxlið. Það bjargaði lífi mínu víst. Hefði ég ekki lent í þessu slysi, þá hefði æxlið aldrei komið í ljós fyrr en of seint og ég væri líklegast rúmliggjandi núna, ef ekki dáinn. Þannig að ég var heppinn. Jæja, sex vikum síðar, þegar ég ætla að mæta til vinnu er mér tjáð að ég hafi verið of lengi frá vinnu og væri því ekki lengur með þessa vinnu. Þeir væru búnir að ráða annan. Ég, á mínum aldri, að jafna mig eftir erfiða meðferð, fæ ekki aðra vinnu svo gott. Og ofan á það þá sat ég uppi með sjúkrakostnaðinn. Krabbameinsmeðferðin var ekki tryggð. Nú, ég þurfti að selja húsið mitt út af þessu. Missti allt nema konu mína og börn. Núna nokkrum árum síðar fékk ég loksins aðra vinnu. Mjög svipað og seinast, nema bara hérna lengst í burtu. Þess vegna þurfti ég að flytja í bæinn þar sem ég tók þig uppí. Húsið er allt í lagi svo sem, en ég myndi mun frekar vilja búa í gamla húsinu. Við vorum að klára fluttningarnar í síðustu viku, og við þurfum ekki lengur auka bílinn. Þess vegna erum við að skila bílnum hennar dóttur minnar. Við þurfum hann ekki lengur.“
Ég hlustaði með ákefð á þessa hjartnæmu sögu. Eftir að hún var öll sögð tjáði ég auðvitað reiði mína í garð bandaríska heilbrigðiskerfisins sem skilur sjúklinga eftir í gríðarlegri skuld. En ennfremur tjáði ég reiði mína í garð bandarískra verkalýðslaga, sem geta rekið menn fyrir þær sakir að þeir verða alvarlega veikir yfir skammt skeið. Það var verið bjarga lífi hans. Þess vegna var hann rekinn. Hann hefði vitaskuld getað sleppt krabbameinsmeðferðinni og mætt til vinnu þar til krabbinn yfirbugaði hann. En fyrst og fremst varð ég reiður út í fyrirtækið sem gerði honum þetta, manneskjunum sem tóku þessa illu ákvörðun að svipta manninum öllu fjárræði bara því það var verið að bjarga lífi hans. Svona óþjóðalýður þrífst hérna í Bandaríkjunum. Svona óþjóðalýður situr á toppi ameríska draumsins. Svona óþjóðalýður er sá sem sýgur allan merg úr blóði góðra manna eins og Gregs.

Það mætti halda að ég sé ekkert búinn að vera að ferðast. Að höggið við að missa bakpokann minn og vera handtekinn strax við komuna í Kaliforníu hafi slegið á ferðakraftinn minn. Kannski er það satt. En ég er svo sannarlega kominn með kraftinn á nýjan leik. Ég keypti mér nýjan og betri bakpoka, nýtt og betra tjald, nýjan prímus og nýjan áttavita og er aftur kominn á veginn sem aldrei fyrr. Nú er ég meira að segja kominn með nýjan ferðafélaga, hana Chantal, jafnöldru mína sem var handtekinn með mér í San Francisco. Stúlku sem ég bjó með þessar þrjár vikur sem ég var í San Francisco. Ég segi ykkur meira frá þessum þrem vikum og ferðinni okkar Chantal til Yosemite og Death Valley í næsta pistli. Kannski segi ég ykkur jafnvel frá Las Vegas og Miklagljúfri ef ég er þess legur. En líklegra er að ég geri það ekki fyrr en í þarnæsta pistli.

Verði ykkur að góðu og gleðilegt nýtt ár

Rúberg
8. janúar 2012
Las Vegas, Nevada.

From → Reisupistill

One Comment
  1. Er að koma framhald?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: