Skip to content

2. New York – Boston, MA

Þessi pistill er skrifaður í Boston, þessari alræmdu verslunarborg í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum. Hingað streyma Íslendingar á haustin til að versla sér föt og annan varning fyrir jólin. Ég skil þessa hegðun ekki. Boston er ekki ódýr borg. Heimamenn kvarta sjálfir undan því hversu dýrt það er að kaupa sér hluti hérna. Ég hef farið í þykjustuverslunarleiðangur. Ég fór þangað þar sem allar verslanirnar eru, fann flottustu búðina, draumapleis hipsteranna, gekk um þar til ég sá svölustu buxurnar, mest töff bolinn og mest hipp skónna. Mátaði það allt á mig. Smellpassaði, og djöfull var ég flottur. Svo gekk ég úr búðinni, ánægður með sjálfan mig. Ég kom út úr búðinni hafandi keypt ekkert. Djöfulsins vitleysa að kaupa sér svona drasl. Djöfulsins vitleysa að eyða peningum í svona óþarfa. Frekar nota ég peninginn minn til að ferðast meira og víðar í Bandaríkjunum heldur en að borga fyrir að ganga í þröngum buxum sem líkast til slitna hvort eð er strax, eru ógeðslega óþægilegar og framleiddar af barnungum þrælum í Asíu. Nei, ég kom til Boston og keypti mér ekkert. Ég mana samlanda mína til að gera það sama núna þegar þeir fara að streyma hingað með haustinu. Því Boston er ekki bara einhver verslunarkjarni. Það er margt fleira hérna en bara verslanir. Reyndar eru verslanirnar hérna frekar ómerkilegar miðað við restina af borginni. Ef það er hægt að kalla einhvern stað „vöggu Bandaríkjanna“, þá er Boston andskoti góður kandídati. Lýðræðishugsjónin sem smitaðist um gjörvallan nýja heiminn og jafnvel til Evrópu undir lok 18. aldar og leiddi til þess að fyrsta ameríska nýlendan lýsti yfir sjálfstæði var af stórum hluta drifin héðan frá Massachusetts. Massachusettsbúar voru líka mjög áberandi í næstu uppreisnaröldu sem reið um Norðurríkin (ásamt Vestur-Evrópu) um miðja nítjándu öld og varð til þess að þrælahald var gert ólöglegt1. Fyrsta almenningsbókasafn Bandaríkjanna var stofnað hérna 1653, elsti almenningsgarðurinn sömuleiðis 1640. Harvard, elsti og virtasti háskóli Ameríku, er hérna líka. Svo að Boston er ansi áhugaverð borg og algjör synd að flestir Íslendingar sem koma hingað sjá bara stór hótel og leim verslunargötur.

Ferðin til Boston var ekki sú auðveldasta. Ég kom hingað frá Hudson, sem er um 7000 manna bær í New York-fylki, ekki ýkja langt frá borginni. Þar var ég í tæpa viku. Þetta er svona Seyðisfjörður Bandaríkjanna. Ótrúlega lifandi listalíf þrátt fyrir fáa íbúa. Mestan tímann sem ég var þarna var ég að heimsækja gallerí og hlusta á tónleika, þ.e. þykjast vera eitthvað menningarlegur. Hluta tímans var ég þó skammt frá bænum heima hjá vinkonu minni og listakonunni Dawn. Hún og maðurinn hennar Gionni voru ótrúlega góð við mig, gáfu mér mat og gistingu, kenndu mér (rifjuðu upp fyrir mér hvernig á) að prjóna og slíkt. Ég hjálpaði Gionni smá á verkstæðinu hans. Hann vildi ólmur borga mér laun, en ég var staðfastur á því að allt það sem þau höfðu gefið mér voru næg laun. Svo var komið að því að húkka sér far yfir fylkismörkin til Massachusetts. Það var ekki auðvelt að kveðja, en það var komið að því. Ég var búinn að vera þarna allt of lengi. Ég hætti meira að segja við að fara til Woodstock til að geta verið aðeins lengur hjá Dawn og Gionni.

Gionni skutlaði mér vel á leið, að réttum vegi sem ég gat haldið mig við hálfa leiðina. Þetta var lítill og notarlegur sveitavegur, fínn til að skoða sveitirnar hérna á meðan ég ferðast í stað þess að bruna fram hjá þeim á hraðbrautinni. Stefnan var að komast til Boston á tveim dögum þar sem CouchSörfer myndi bíða mín. Ég setti upp þumalinn og var ekki lengi að fá far. Svona 10 mílur með smiði að fara með verkfæri á annan stað. Ég var ekki fyrr búinn að setja upp þumalinn 10 mílum seinna áður en næsti bíll skutlaði mér aðrar 10 mílur yfir fylkismörkin (nú þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af löggunni lengur). Kona sem vinnur í mötuneyti hjá einkaskóla. Svona hoppaði ég 10-15 mílur í senn hálfa leiðina til Boston. Það byrjaði að dimma svo ég ákvað að slá upp tjaldi. Ég var kominn framhjá borg sem heitir Westfield en þurfti að fara framhjá enn stærri borg, Springfield, næsta morgun. Ég sá skóg hinum megin við veginn. Ég óð því yfir veginn með bakpokann á bakinu, yfir lestarteina samhliða veginum og inn í skóginn. Þarna var fullkomið tjaldsvæði þar sem enginn sá mig. Ég einn útaf fyrir mig, þar sem enginn getur skipt sér að. Frábært. Ég tjaldaði tjaldinu, setti pott á prímusinn og gerði mig líklegan til að elda mér linsubaunasúpu í kvöldmat en áttaði mig skyndilega á því að ég gleymdi að gera ráð fyrir vatni. „Ég þarf vatn til að geta gist hérna“. En það var ekkert mál að redda því. Ég skildi allt draslið mitt eftir í skóginum, fór til baka yfir teinana og veginn, þar var bílastæði sem ég gekk yfir þvert. Og loks beint inn í Wall-Mart þar sem ég gat fyllt á vatnið mitt, svona 200 metra frá tjaldinu. Mér leið eins og Walden 21. aldarinnar2.

Seinni dagurinn gekk ekki jafn vel og fyrri dagurinn. Ég var kominn af sveitaveginum og ætlaði að reyna að húkka mér far beint til Boston og vera kominn þangað fyrir hádegi. Fólk var ekki jafn gjarnt á að pikka mig upp í nálægt borginni. Borgir eru svo sannarlega svarinn óvinur puttaferðalanga. Í eitt skipti var ég búinn að vera við sama veginn í svona tvo tíma. Gangandi og húkkandi meðfram veginum. Loks komst ég að aðrein þar sem traffíkinn var það hæg að bílarnir þurftu ekki einu sinni að stoppa, bara opna svo ég gæti stokkið inn. Á aðreininni hægði einn blæjubíll ferðina enn meira, opnaði og sagði mér að hoppa inn. Þetta voru tveir menn, á mínum aldri. Ég þakkaði þeim glaður fyrir: „Í alvöru? Vá, takk. Enn fallegt af ykkur,“ þegar ég var svo kominn að bílnum og ætlaði að stíga inn brunuðu þeir skyndilega af stað: „Ekki fokking séns,“ öskruðu þeir hlæjandi á meðan þeir brunuðu í burtu. Mér langaði helst að sýna þeim fingurinn, en endaði á því að gefa þeim bara písmerkið. Það gerði líklegast sama gagn. Svona hálfvitar eru líklegast til allsstaðar, líka í Bandaríkjunum.

Ég komst loks í bíl sem skutlaði mér til Worcester (berist fram Vister, ekki ósvipað Hipster, þ.e. eins og Leicester – Lester). Ég hafði heyrt um þessa aðra stærstu borg Nýja Englands á leiðinni. Henni var hampað sem listrænni og akademískri þar sem stór hluti íbúa eru stúdentar. Þó svo að íbúarnir séu um 250.000 eru háskólarnir 13 talsins. Klukkan var orðin 2. Ef ég tæki rútuna til Bostan þaðan yrði ég kominn að ganga 4. Það var of seint fyrir CouchSörfarann minn í Boston svo ég hringdi í hann og sagðist ætla að vera tvo daga í Worcester. Allt í lagi með það. Ég reddaði mér sófa í Worcester og kom hingað tveim dögum síðar með lestinni. Ég verð að bæta við að ég varð svolítið skotinn í Worcester. Þar hitti ég fullt af kúl liði sem var gaman að hanga með. Þetta var svona pleis þar sem ég passaði fullkomlega inn í hópinn3.

Svo er það Boston. Hérna er ég ekki búinn að kaupa neitt nema hafragraut og súkkulaðimjólk. Í staðinn er ég búinn að vera að skoða borgina, háskólana (sótti meðal annars fyrirlestur í MIT) og slíkt. Skemmtilegasta safn sem ég hef farið á (Museum of Science) er hérna. Það safn hefur stærðfræðisannanir. Ekki sem fromúlur heldur sem leikföng. M.ö.o. osom! En þetta er svona safn þar sem maður getur leikið sér á allan daginn. Á morgun fer ég svo til New Hampshire með stuttri viðkomu við Waldens Pond (sjá neðanmálsgrein 1). Ég ætla að fara í gönguferð um White Montains, sem eru hluti af Appalacian Trail göngustígnum sem nær frá Georgíu til Maine. Þaðan verður svo haldið til Maine á puttanum Takmarkið er Quebec, Kanada. Þar til ég næ þangað ætla ég að búa í tjaldinu. Taka mér pásu frá stórborgarlífinu.

Rúnar Berg
Boston, Massachusetts
22. september 2011
_________

1: Frægur karakter í þeirri upreisnaröldu var Henry David Thoreau, höfundur Walden. Tjörnin sem hann bjó við þegar hann lifði í skóginum er einmitt hérna rétt hjá Boston.

2: Þess má geta að ég reyndi að tengjast internetinu í skóginum. Ég fékk samband, en netið krafðist lykilorðs sem ég hafði ekki.

3:Ef einhver sem er að lesa þetta finnst gaman í Nexus þá ætti sá hinn sami kannski að kíkja í verslunarleiðangur til Worcester. Þarna er ein búð sem selur allt sem meðal nördinn telur kúl. Einhver svalasta búð sem ég hef séð.

1. New York

Upphaflega ætlaði að nýta frelsið sem fylgir því að vera ferðalangur í það að sækja um skólavist fyrir haustið 2012. Ég, innblásinn af hugsjón vísindamannsins, ætlaði að ráðast á garðinn þar sem hann var hæstur. Markmiðið var að komast inn í skóla sem býður upp á doktorsnám í taugavísindum. Og ekki bara hvaða skóla sem er. Námið þurfti að vera með því fremsta og framsæknasta á sínu sviði í heiminum. Og ég er ennþá viss um að sá skóli er hérna í Bandaríkjunum. Stútfullur metnaði skráði ég mig í tvenn próf hérna í New York. Þetta voru stöðluð próf sem ég þurfti að taka til að geta sent inn umsókn í hvaða framhaldsnám sem er hérna í Bandaríkjunum. Án einkunna í þessum prófum væru umsóknirnar mínar ekki reknar til greina. Umsóknirnar mína áttu að verða fullkomnar. „Ég SKAL komast inn í þetta nám,“ hugsaði ég. Þriðja daginn í ferðinni minni vaknaði ég klukkan rétt yfir sex, eldaði mér hafragraut, gekk í skugga um að ég væri með vegabréfið mitt með mér og tók lestina yfir til Manhattan. Ég gekk inn í prófmiðstöðina, tók þar prófið með stökustu ró og gekk út fjórum og hálfum tímum seinna bölvandi hversu heimskuleg og ósanngjörn svona stöðluð próf eru. Þau eru greinilega hönnuð með hvítan karlmann, alinn upp á bandarísku millistéttaheimilli, í huga. Jæja, það stöðvaði ekki metnaðinn í að komast í óskanámið mitt. Ég hékk næstu daga á aðallestrarsalnum í gamla bókasafninu á Manhattan (Main Reading Room) þar sem ég vann að persónulegum yfirlýsingum (Statement of Purpose, SoP) og lærði undir næsta próf.1 „Ég er með ansi mögnuð meðmæli og get skrifað nokkuð góða yfirlýsingu. Möguleikarnir mínir á að komast inn eru ansi góðir,“ hugsaði ég. Tæpri viku eftir fyrra prófið tók ég lestina á sama stað, reiðubúinn sem aldrei fyrr. Núna skal ég negla þetta. Ég gekk í prófamiðstöðina fullur sjálfstrausti og fór í biðröðina, reiðubúinn að framvísa skilríkjunum svo að mér yrði hleypt í prófið. Fokk! Ég gleymdi vegabréfinu mína heima hjá Bill. Kannski taka þau við við debetkortinu mínu í staðinn? Röðin var komin að mér og ég framvísaði debetkortinu mínu. „Ertu með einhver önnu skilríki?“ „Nei, því miður bara þessi.“ „Ertu ekki með vegabréf eða ökuskirteini?“ „Nei, ég gleymdi vegabréfinu heima.“ „Geturðu hlaupið heim og sótt þau, og verið kominn aftur fyrir hálf níu?“ „Ekki séns, það tók mig þrjú korter að ferðast hingað með lestinni. En ég get verið kominn hérna fyrir tíu.“ „Það er ekki nógu gott, þú verður að vera kominn hingað með vegabréfið þitt fyrir hálf níu, annars færðu ekki að taka prófið.“ Ég gekk úr prófamiðstöðinni með brotið sjálfstraust. „Helvítis klaufaskapur hjá mér að gleyma vegabréfinu mínu.“ Ég gerði heiðarlega tilraun til að sníkjast eftir því að fá að taka prófið seinna. „Ekki nema þú skráir þig upp á nýtt. Það gera 160 dalir.“ Ég var ekki tilbúinn greiða slíka fjárhæð fyrir jafn mikin klaufaskap og þetta, og því fór sem fór. Fari ég í framhaldsnám í Bandaríkjunum verður það ekki fyrr en árið 2013 í fyrsta lagi. Hugsanlega skrái ég mig aftur í háskólann heima, væntanlega annað grunnnám, (umsóknarfrestur til apríl 2012, á móti nóvember/desember 2011 hér í Bandaríkjunum) og nýti þetta rúm sem skapaðist til að ferðast. Nú þarf ég ekki að einbeita mér að þessum bölvuðu umsóknum og get notið þess að ferðast. Frelsið er nú orðið algjört.

Nú, að New York borginni, sem ég hef verið í núna í rúma tíu daga.

Það fyrsta sem mér langar að segja um New York borg er að hún er stór. Hún er risa- risastór. Ég eiginlega skil ekki hvernig borgin virkar. Ég meina, hvernig fær allt þetta fólk vinnu? Hvaðan fær það matinn sinn? Hvert fer allt ruslið þeirra? Hvaðan og hvert rennur allt vatnið? Þetta er mér í raun jafn óskiljanlegt og það hvernig bíflugur geta flogið2. Annað sem ég vill að komi fram er að New York hefur í raun ekkert sameiginlegt við Reykjavík. Það eru núll hlutir sem Reykjavík hefur sameiginlegt með New York. Ég er viss um að Bangkok hefur meira sameiginlegt með Reykjavík heldur en New York.

Ég kom hingað semsé 1. september. Tók lestina frá flugvellinum til hostelsins míns í Brooklyn. Vegna hrakfara minna á flugvellinum mætti ég allt of seint á hostelið (sjá 0. Inngangur) en það reddaðist fljótt. Ég átti tvær nætur þarna. Þetta urðu þó að vera einu tvær næturnar sem ég myndi borga fyrir gistingu í ferðinni. Því ef ég þyrfti að borga sömu fjórhæð fyrir hverja nótt hérna í Bandaríkjunum, myndu peningarnir endast mér kannski í 80 nætur. Og þá ætti ég eftir að borga fyrir mat og annað, svo ég næði kannski tveim mánuðum hérna. Það fannst mér synd því að hostelið var mjög svallt. Þetta var svona húsaröð í Brooklyn, hver íbúð með helling af kojum og sameiginlegri sjónvarps/fúsbol/píanó- og eldundaraðstöðu. Ég náði að redda mér gistingu á gólfinu heima hjá vinkonu minni Elönu, einnig í Brooklyn, næstu tvær næturnar. Og svo var ég búinn að redda mér CouchSörfi hjá manni að nafni Bill á Manhattan restina af nóttunum sem ég hyggðist vera í stórborginni. Bill, hommi og njúdisti, reyndist mér afar vel. Maðurinn er víst algjört gull af manni, enda með næstum hundrað meðmæli á CouchSurfing.org. Hann lánaði mér m.a. kort sem hleypir mér inn á öll þau listasöfn sem ég hafði hugsað mér að heimsækja þar í borg.3 Eftir að hafa heimsótt öll þessi listasöfn komst ég að því að listasöfn eru ekki alveg minn tebolli. Mér finnst gaman að myndlist en það er bara snobbið sem fylgir þessu stóru söfnum sem ég get ekki. Ég held líka að mesta listræna upplifunin mín í New York hafi verið þegar ég fann eitt veggjakrot eftir Banksy á einum vegg í Brooklyn. Það er verkið þar sem ung stúlka heldur grammafón upp við eyrað á sér eins og það sé gettóblaster. Á söfnunum voru bestu verkin að mínu mati tölvuleikir, I-pod öpp og fleira í þeim dúr í sérstakri sýningu á MoMA. Mér fannst þau verk skara fram úr verkum eftir listamenn eins og Cézanne, von Gogh og Picasso.

Fyrir utan að sækja söfnin var aðallega þrennt sem ég gerði í þessari mestu borg veraldar: Hangsa, lesa og skrifa. Meðaldagurinn minn í New York var svo: Vaknaði, eldaði mér hafragraut, tók lestina eitthvert, fann fallegan garð eða bókasafn með þráðlausu neti, las og skrifaði, borðaði af kína-, pakistana- eða mexíkóbúllu (4-6 dalir máltíðinn), fór á safn, fann annan garð, las og skrifaði meira og tók lestina aftur heim þegar fór að rökkva. Tveir dagar skáru sig þó úr. Annar var mánudagurinn 5. september (Labor day). Ég ákvað þá að öðlast alvöru New York reynslu. Ég fór því og horfði á auglýsingar á Times square og tók myndir af Frelsisstyttunni. Alvöru New York reynsla. Hinn dagurinn var laugardagurinn 3. september. Þá hitti ég Elönu í fyrsta skiptið í New York. Hún bauð mér með sér í partý og á skemmtistað. Í partýinu (sem átti sér stað í Brooklyn) kynntist ég tveim alvöru hippsterum og á skemmtistaðnum sá ég eitthvað algjörlega út úr þessum heimi. Þetta leit út eins og ruslahaugur að utan. Maður skreið inn á milli fjala til að komast inn í port. Í portinu beið manns biðröð (sem við tróðum okkur inn í4). Inn á skemmtistaðnum tók ekkert skárra við. Tónlistin var eins og maður myndi búast við að heyra á ruslahaug og staðurinn var eins og fokheldur ruslahaugur. Allt ýkt spes. Elana sagði mér að flestir staðir í New York eru svona. Ennþá meira spes.

Ég vill líka að það komi fram að í Brooklyn fann ég einhverja áhugaverðustu bókabúð veraldar (og heimsótti ég Shakespeare and Company á Manhattan). Ég man ekki hvað hún heitir, hvort það var Black Bookstore eða álíka, en hún samanstóð af þrem bókahillum og þrem rakarastólum. Á meðan ég skoðaði mig í gegnum þessa kannski 100 – 200 titla sem búðin átti (allt mjög áhugaverðar bækur sem sérhæfðu sig í málefnum blökkumanna) sátu tveir svartir strákar í klippingu. Ég valdi úr eina bók sem heitir The Black Students Guide to Positive Education, algjör gullmoli sem ég efast um að hafi verið prentuð í meira en 500 eintökum. Bókin fékk mig til að hugsa um hvað sjálfstraust svartra er fótum troðið í menntakerfi þeirra Bandaríkjamanna. Svörtum (og hvítum) er kennt að afrísk menning sé á einhvern hátt óæðri evrópskri. Það sé svörtum fyrir bestu að afneita afrískum uppruna sínum og einbeita sér að passa í formið sem hefur verið gert fyrir hina hvítu millistétt, ameríska drauminn. Og viti menn, það er satt. Þegar ég gekk um the Met, aðallistasafn hinnar fjölmenningalegu New York borgar, hið mest virta safn sem safnar listaverkum til sýnis í borg sem er jafn afrísk, jafn asísk, jafn íslömsk og hún er evrópsk, var furðumikil áhersla á evrópska list. Evrópsk (hástétta) arfleið var til sýnis eins og herbergissamsætur í IKEA á meðan rétt var tæpt á afrískri list sem voru svona meira eins og áhugaverðir forngripir frekar en arfleið stórra hluta New York búa.

Og hvað lærði ég í New York. Í fyrsta lagi eru New York gífurlega fjölmenningarleg. Þar sér maður fólk af öllum toga. Múslimar, gyðingar, Pólverjar, svartir. Allir fá að halda í sína menningu í friði. Ólíkt þessu skandinavíska –verða að aðlagast „okkar“ menningu– bulli. Fyrir vikið stendur uppi þessi einstaka menningarsúpa, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Annað sem ég lærði var að Brooklyn er miklu svalari hluti New York heldur en Manhattan. Brooklyn er einhvernvegin meira ekta. Þessi borgarhluti (sem eitt sinn var sér borg), er reyndar annálaður fyrir hæsta hlutfall hippstera í heiminum, er mun afslappaðri en Manhattan, byggingarnar eru ekki jafn gígantískar, fólk er ekki flýta sér jafn mikið. Það er einhvernvegin betra andrúmsloft þarna heldur en á Manhattan. Og í þriðja lagi lærði ég að stundum þarf maður að fresta möguleikanum á framhaldsnámi vegna þess að maður gleymdi að taka með sér vegbréf.

Næst ætla svo að drulla mér úr þessari mögnuðu borg og skoða up state New York. Vinir mínir í hljómsveitinni Hellvar voru búin að mæla með bæ hérna sem heitir Hudson og er víst mjög artí. Svo hef ég líka heyrt af listamannanýlendu í bænum Woodstock. Ég hef aldrei heimsótt listamannanýlendu áður svo kannski að ég skoði hana.

Rúnar Berg
Germantown, New York
13. september 2011

_________

1Einhver hafði sagt mér að ef maður sé að læra í þessum lestrarsal sem spannar tvær húsaraðir og hlusti á Mozart, þá kæmi maður svo miklu í verk að það væri undravert. Ég varð að prófa þetta (mjög óvísindalega) og komst að því að Mozart + Main Reading Room virkar.

2Flug bíflugnanna hefur reyndar verið útskýrt eðlisfræðilega (http://en.wikipedia.org/wiki/Bee#Flight), en þið skiljið hvert ég er að fara.

3Listasöfn sem ég heimsótti: Museum of Modern Art (MoMA), The Metropolitan Museum (The Met), Guggenheim Museum og Whitney Museum of American Art.

4Skemmtileg reynsla þar á ferðinni, en sérstaklega fyrir þær sakir að stuttu seinna tróð sér framfyrir okkur hópur svertingja. Hvítingjarnir sem voru fyrir aftan okkur ætluðu algjörlega að missa sig. Við náttúrulega sögðum ekkert þar sem við vorum jafn sek og svertingjarnir fyrir framan okkur. En hvers vegna sögðu hvítingjarnir ekkert þegar við, öll hvít með tölu, tróðum okkur fram fyrir þá? Urðum við hér vitni að kynþáttamismunun? Eða hvað?

0. Inngangur

Ég veit ekki hvernig Bandaríkin eru. Bandaríkjamenn eru ekkert sérlega mikið fyrir að húkka sér far heima fyrir, og nú þegar ég hugsa um það held ég að ég hafi ekki hitt neinn sem hefur ferðast á puttanum í BNA. Það er þó til fræg bók eftir Jack Kerouac, Á vegum úti, þar sem aðalpersónan, Sal Paradise, ferðaðist um Bandaríkin þver og endilöng, oftast á puttanum. Einnig er fræg ferðasaga Kingu Freespirit og mannsins hennar Chopin (http://www.geocities.com/kingachopin/) sem ferðuðust á puttanum í kringum heiminn. Stór hluti af ferðinni þeirra var innan Bandaríkjanna og gekk þeim vel til. Nú um daginn, hér í New York, hitti ég líka Svía, Daniel að nafni, sem sagðist vera með 100 dali meðferðist á leiðinni til San Fransisco. „Ég ætla að húkka mér far megnið af leiðinni,“ segir hann mér, „ekki það að ég hafi nokkarra kosta völ með þennan pening meðferðis.“

Sjálfur er ég með örlítið meiri pening með mér en Daniel. Ég hef rúma hálfa milljón króna með mér til að lifa og ferðast næstu mánuðina. Það gera rúm 4000 dali. Ekki það að peningar skipti nokkru máli þegar kemur að ferðalögum. Í fyrrasumar ferðaðist ég til dæmis í kringum landið, ásamt vinum mínum Will og Celeste, á rúmri viku með 5000 kall í vasanum. Ég kom með meira en helminginn aftur til baka.

Þetta er ekki fyrsta stórferðin sem ég tek mér. Áður, líkt og Kinga og Chopin, hef ég farið hringinn í kring um hnöttinn (sjá http://runarberg.wordpress.com/reisupistlar). Ég fór með frænda mínum Skúla til 6 heimsálfa og yfir 20 landa. Sú ferð var farinn með fyrirfram bókuðum flugmiðum út um allt. Ég ætla ekki að gera þau mistök aftur. Allt sem er fyrirframbókað bindir mann til þess að vera á tilteknum stað og/eða á tilteknum tíma. Það hentar sumum við sum tilvik, ég meina meiri hlutinn af heimsreisunni okkar gekk eins og í sögu, en maður er að fórna frelsi. Frelsi til að vera viku í viðbót, frelsi til að fara austur en ekki vestur o.s.frv. Núna, eins og ég ákvað við miðbik heimsreisunnar, er ég bara með miða á staðinn, og lauslega (frávíkjanlega) ferðaáætlun næstu daga. Annað sem er öðruvísi við ferðina núna er fjárhagurinn. Seinast hafði ég safnað í langan tíma fyrir ferðinni, núna ferðast ég án þess að spá í peningum. Fyrir vikið get ég ekki leift mér lúxus eins og að borða á veitingastöðum, gista á gistiheimillum eða kaupa mér far1. Hér mun ég því elda mér sjálfur minn mat, tjalda eða gista hjá fólki sem leifir mér að gista hjá sér frítt (http://www.couchsurfing.org) og húkka mér far á milli staða.

Ég var að meina það áðan þegar ég sagðist ekki vita hvernig Bandaríkin eru. Ekki bara varðandi það hvernig er að húkka sér far hérna, heldur líka það að ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta land er. Ég veit ekkert um það. Ég hef fengið ákveðna mynd af því í gegnum Hollywood bíómyndir2 en ég á bágt með að trúa því að þetta fjölmennasta ríki hins vestræna heims og þriðja stærsta land í heimi sé nákvæmlega eins og Hollywood sýnir það. Mér hlakkar því til að sjá hvernig Bandaríkin eru í raun og veru.

Ég er búinn að vera með þessa ferð í maganum í langan tíma. Puttaferðalag um Bandaríkin. Að reyna að sjá sem mest af þessu landi fyrir sem minnstan pening. Ég vissi nokkurnvegin hvernig ég ætlaði að far að þessu án þess að setja mér ófrávíkjanlegar skuldbindingar. En skuldbindingarnar eru allsstaðar. Það er erfitt að vera vesturlandabúi án þess að skuldbinda sig, að minnsta kosti ómeðvitað. Um leið og maður kemur til Bandaríkjanna skuldbindur maður sig til dæmis til að vera farinn innan þriggja mánaða. Maður má heldur ekki fljúga inn í Bandaríkin nema vera búinn að skuldbinda sig til að fljúga til baka frá tilteknum stað á tilteknum tíma. Hellst á maður að vera búinn að skuldbinda sig til að gista á ákveðnum stað hverja nótt. Bandaríkin taka ekki við ferðalöngum eins og mér. Flestir fljúga hinga inn með miða til baka sem þeir síðan sleppa því að nota. Ég ákvað að prófa ódýrari valmöguleika, að kaupa mér vegabréfsáritun. Áritunin leifir mér að vera hérna í 6 mánuði og ég þarf ekki að vera með flugmiða út úr landinu. Bandarískir landamæraverðir voru þó ekki alveg á eitt sáttir við þennan valmöguleika þegar ég flaug hingað inn seinasta fimmtudag.

Í langan tíma hafði ég vel vellt því fyrir mér: „hvað ef þeir hleypa mér ekki inn í landið?“ Þær áhyggjur hurfu þó að messtu þegar ég fékk áritunina afhenta viku fyrir brottför. Ég settist því upp í flugvélina fyrsta þessa mánaðar svo til áhyggjulaus. Ég flaug yfir Grænland, Kanada og lennti á Newark flugvelli, New Jersey, án þess að lenda í neinum vandræðum. Ég beið í biðröð eftir að landamæravörður myndi hleypa mér inn í landið og hugsaði með mér: „Fyllti ég ekki örugglega út öll eyðublöð rétt?“ Svo var röðinn kominn að mér. Vörðurinn var ekki lengi að senda mig til baka. Ég átti eftir að fylla út B53 eða eitthvað svoleiðis til að áritunin mín teljist gild. Ég fór aftur í röðina, fyllti út þetta eyðublað og fór svo og talið við annan vörð með útfyllt eyðublaðið við höndina.

„Hver er tilgangurinn með ferð þinni hingað?“

„Ég ætla að ferðast og skoða Bandaríkin.“

„Hvert ertu að fara núna?“

„Á hostel niður í Brooklyn.“

„Hvað ætlarðu að vera hérna lengi?“

„Ég veit það ekki, þrjá til fimm mánuði.“

„Veistu það ekki?“

„Nei, ég ætla bara að skoða Bandaríkin, jafn lengi og ég get, og svo fer ég heim. Ég veit ekkert hvenær það verður.“

„Fyrirgefðu herra minn, komdu með mér.“

Í herbergi baka til leist mér ekkert á blikuna. Það átti ekki að hleypa mér inn í landið. Ég var með of lítinn pening til að ferðast, ég var ekki með flugmiða til baka. Bandaríkin eru ekki opin fyrir ferðamenn eins og mig. Mér fannst það dálítið óhugnanlegt að landamæraverðirnir vissu allt um mig. Hvert litla smáatriði sem ég hafði sagt sendiráðsfulltrúanum þegar ég sótti um áritunina vissu verðirnir. Þeir báðu mig um að sanna fyrir sér að ég væri ekki á leiðinni að vinna í Bandaríkjunum. Ég var ekki í neinni aðstöðu til að sanna neitt, enda nýkominn úr flugi með ekkert nema handfarangurinn minn meðferðis, nokkrar bækur og tónhlöðu. Að lokum komst ég að því að það eina sem ég þurfti að gera var að eiga vini og ættingja í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru opin þeim sem þekkja rétta fólkið. Ég gaf þeim nokkur nöfn (held meira að segja að ég hafi stafsett þau vitlaust í stressi) og mér var hleypt inn. „Í öllum bænum, bara ekki vinna hérna,“ var það seinasta sem vörðurinn sagði við mig. Ég lét mig hverfa, hljóp og náði í bakpokann minn og gekk svo ánægður inn í Bandaríkinn. -Hello America, Cliff is here

Og nú þegar ég er kominn inn i Bandaríkin eru nokkrir hlutir sem ég ætla mér að gera…

  • Heimsækja Celeste í Portland, Oregon, Elönu í New York, Jesse í Toronto, Kanada og Þorleif frænda í El Paso, Texas.
  • Hlusta á blús í Chicago, rapp í Detroid og djazz í New Orleans.
  • Skoða Miklagljúfur og Yellowstone.
  • Hitta Barrack Obama (kannski fæ ég far hjá honum úr Washington DC).
  • Læra að tala með suðurríkjahreim.
  • Og eitthvað í þeim dúr.

Látum þetta gott heita í bili. Ég er ekki enn farinn úr New York. Ég gef ykkur svo pistil um veru mína hér þegar hún er búin.

Cliff (Rúnar Berg)
Central Park, New York
4. september 2011.

_________

1Fyrsta daginn minn í Ameríku braut ég öll þessi viðmið.

2Með því fyrsta sem ég sá þegar ég var kominn inn í Bandaríkinn var t.d. par, augljóslega á stefnumóti, sem brosti hvert til annars, hélst í hendur á meðan það labbaði hægt framhjá mér þar sem ég beið eftir lest og var að segja frá sjálfum sér. Týbísk hegðun á fyrsta deiti skv. reglum Hollywood.