Skip to content

8. Occupy Idaho, Washington og Oregon

desember 2, 2011

„You’re on the wrong side of history.“ Öskruðu mótmælendur á óeirðarlögregluna meðan hún var að berja á okkur hérna í Portland. Við höfðum verið í mótmælagöngu um miðbæinn. Markmiðið var að loka sem flestum bönkum. Fyrsti bankinn tók nokkurn tíma og nokkrir mótmælendur voru handteknir. Næsti banki hafði heyrt af því hvað var að gerast og lokaði á undan okkur. Við gengum því næst fram hjá fjölmörgum útibúum sem öll voru lokuð. Markmiðinu var náð. Þvílík gleði. Við söfnuðumst saman fyrir utan eitt útibúið, einhver var með gettóblaster og spilaði fönk sem við öll dönsuðum við. Svona eiga byltingar að vera. Við marseruðum áfram um bæinn og sáum fleiri opin útibú. Við fórum að þeim og þau lokuðu. Nærveran ein var nóg til að loka þeim. En gleðin entist ekki fram á nótt. Óeirðarlögreglan mætti á svæðið þar sem við stóðum fyrir utan eitt útibú Chase bankans, sem er í eigu JPMorgan. Hún var staðráðin í að þessi mótmæli ættu að leysast upp í ofbeldi. Stundum velti ég því fyrir mér hvað það er sem gerir óeirðarlögreglu svona æsta í að berja fólk. Frá upphafi göngunar þá ógnuðu þessar lögreglur okkur fyrir það eitt að stíga fæti af gangbrautinni og út á götu. Hún var staðráðin í að berja okkur, en þurfti bara að finna afsökun fyrir það. Við vorum inn í anddyri Chase útibúsins, og það var nóg afsökun fyrir lögguna að ráðast á okkur með piparúða. Eftir það sakaði hún okkur um að vera á götunni og tefja traffík, þó svo að enginn væri á götunni nema hún sjálf. Hún hélt því áfram að ráðast á okkur, skipandi okkur að fara af götunni á sama tíma og hún ýtti okkur af gangstéttinni og út á götu. Þvílíkir hrottar.

1.
Frá því seinast eru þrjár borgir sem ég verð að segja ykkur frá. Fyrst er það Boise, höfuðborg Idaho, næst er það Seattle, stærsta borg Washington-fylkis og seinast er það Portland, Oregon, borgin sem Celeste, vinkona mín sem ég hitti í Níkaragva fyrir tæpum hálfum áratug síðan. Ég ætla að byrja á Boise.

2.
Einn daginn hafði ég fundið mér flottan stað í þinghúsi Boise. Þarna var sófi, nettenging, innstunga, salerni í 20 metra fjarlægð, hiti og vinnufriður. Þetta var fullkominn staður til að sitja og hangsa á internetinu eða skrifa stöff. Ég var rétt búinn að átta mig á þessari staðreynd þegar lögreglumaður kemur til mín og segir: „Afsakaðu að ég skuli trufla þig, en það er verið að rýma svæðið. Hvenær sem þú ert tilbúinn, værirðu þá til í að pakka saman og yfirgefa. Bara þegar þú ert tilbúinn.“ Ég furðaði mig á þessari rólegu og yfirveguðu rýmingu, pakkaði saman og gekk út. Þar sá ég starfsmenn þinghússins standa fyrir utan og stara. „Hvað er um að vera?“ Spurði ég lögreglumann sem stóð og stýrði umferð frá bygginguni. „Það barst sprengjuhótun ásamt bréfi með hvítu dufti.“ Þá þegar áttaði ég mig á því í hvaða landi ég er staddur. Land tækifæranna þar sem vitleysingjar halda að það sé sniðug hugmynd að hrekkja stjórnmálamenn með hvítu dufti með þeim afleiðingum að -þú veist- ég er rekin burt af stað sem ég var nýbúinn að uppgötva. Fúlt.

Ég átti yndislegan tíma í Boise. Þetta var svona staður þar sem allt small. Ég hitti yndislegt fólk og var ástfanginn af því um leið. Ástin var gagnkvæm. Ég kom þarna fyrsta dag götutökunnar, ennþá svektur yfir því að hafa ekki komist til Yellowstone (sjá 7. Viðstöðulaust á vegum miðvesturríkjanna). Ég fékk far að borginni og þurfti að labba í gegnum hana til að halda áfram til vesturstrandarinnar. Borgarstæðið var fallegt. Fjöll allt um kring, mun fallegri en Esjan, annars eðlis en Þorbjörn. Ég finn á mér að ég er að nálgast afleggjarann út úr borginni þegar ég sé þinghúsið og miðborgina. Í næstu húsaröð við er fyrsti dagur mótmælabúða Boise. Ég er ekki lengi að hugsa mig um og slæst í för með þeim. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun.

Þennan fyrsta dag voru mikil hátíðarhöld. Einn strákur hafði komið alla leið frá tjaldbúðunum í New York. Hann var virkur þátttakandi í götutökunni þar frá byrjun og var því hokinn reynslu, reynslu sem hann deildi með sinni heimaborg, Boise. Ég lærði líka fullt frá honum og öðrum í þessara borg. Réttara sagt lærðum við öll hvort af öðru. Menntun er öðruvísi í götutökunum en gengur og gerist í vestræna menntakerfinu þar sem upplýsingum er hamrað í nemendur. Við í götutökunum deilum reynslu og upplýsingum og komumst að sameiginlegri niðurstöðu sem við túlkum öll á okkar hátt. Hvernig fær maður allsherjarþing til að virkar betur? Hvernig er best að stýra slíkum þingum? Hvernig virka þau yfir höfuð? Hvað eru beinar aðgerðir? Hver er munurinn á samstöðu og sameiningu? Hvað eru ofbeldislausar aðgerðir? Hvernig hef ég kúgað aðra? Hvernig lýt ég á mig sem „æðri“ sökum kynþáttar, kyns, kynhneigðar, félagsgáfum, menntun, stétt o.s.frv.? Þessar spurningar og miklu fleiri fékk ég svar við í Boise. Götutökurnar eru ekki bara máttlaus mótmæli gegn auðvaldinu, heldur eru þetta beinar aðgerðir í að mennta hvort annað, í að kenna hvorum öðrum hvernig samfélög virka, í að vera góð við hvort annað. Sem slíkar eru götutökurnar besti skóli sem ég hef nokkurntíman farið í.

Ég sagði við fólk (mest í djóki) áður en ég kom hingað til Ameríku að ég væri að koma hingað til að gerast hippi. Í Boise komst ég næst því að vera old skúl hippi a la ’69. Dæmigert augnablik þarna sat ég undir tré og las eða orti meðan vinir mínir sátu í hring, drukku kaffi, spiluðu á gítar og sungu lög gegn stríði og óréttlæti í heiminum. Boise mun ávallt eiga sé stað í hjarta mínu upp frá þessu. Ég sakna Boise nú þegar.

3.
Aðstæður voru örlítið öðruvísi í Seattle.

Fyrsta morgunninn í Seattle var fólk að flykkjast til Portland. Heyrst hafði að lögreglan væri að fara að rýma tjaldbúðirnar þar. Nærliggjandi götutökur fylgdu liði til að aðstoða mótmælendur við að halda búðunum opnum. Daginn eftir heyrði ég sögurnar:

„Þetta var ýkt flott, við vorum svo mörg. Við stóðum gegn lögreglunni, hlupum í átt til hennar og hún flúði. Lét okkur alveg vera eftir það. Bara einn var handtekinn fyrir að kasta flugelda að löggunum. Tvær löggur særðust en enginn mótmælandi meiddist.“

„Ég reyndi að segja öllum að þetta væri bara byrjunin. Þegar allir voru farnir kom löggan aftur og rýmdi svæðið svo auðveldlega. Þetta var svo auðvelt fyrir hana. Við vorum svo fá og þreytt og gátum ekkert gert.“

Seinasta kvöldið í Seattle hljóp einn mótmælandinn um búðirnar eins og hann væri genginn af göflunum: „Hafið þið heyrt það, hafið þið heyrt það? Þeir eru með jarðýtur í New York. Það er verið að lúmskra á bræðrum okkar og systrum. Við verðum að gera eitthvað. Við verðum að standa með bræðrum okkar og systrum í New York. Með jarðýtum. Við verðum að gera eitthvað“ Klukkan var meira en miðnætti svo við fórum að sofa. Næsta kvöld, þegar ég skoðaði fréttirnar í Portland sá ég að mótmælandinn sagði satt. Lögreglan mætti með jarðýtur að tjaldbúðunum í New York og rýmdi þær með öllum ráðum tiltækum. Tjalbúðirnar í Portland voru líka horfnar.

Einn úr tjaldbúðunum í Boise var á leiðinni til Seattle. Ég fékk far með honum. Það snjóaði á leiðinni og veginum var lokað. Um tímabil leit út fyrir að við værum fastir einhversstaðar lengst út í rassgati, austurhluta Washington. Sem betur fer opnaði vegurinn og ég áður enn ég vissi af var langþráðu markmiði náð. Vesturströndin, ó hin blessaða vesturströnd Bandaríkjanna. Mikið var ég feginn að ná henni. Laus úr kulda miðvesturríkjanna og til Cascadíu, norðvesturríkja Bandaríkjanna, þar sem hlýir hafstraumar halda vetrinum hlýjum. Verst að allan veturinn blása vestanvindar sem ganga í skugga um að það styttir aldrei upp.

Mikið var erfitt að finna salerni í Seattle. Paul sagði mér að það væri sport að loka almenningssalernum eftir að einhver hafi verið að skjóta heróíni. Ein dama sagði mér að það gengi ekki að hafa spegla á salernum því að kókfíklar væru alltaf að brjóta þá og nota sem flatt yfirborð fyrir línu. Djöfull er pirrandi þegar samfélagsvandamál verða til þess að ég sé í spreng mest allan daginn.

Ég var ekki jafn ánægður með Seattle og ég hélt ég yrði. Móttökurnar í götutökunni voru fjandsamlegar. Ég býst við að því sé um að kenna fíkniefnavandamáli borgarinnar. Í Seattle er fjöldi fólks með geðraskanir, eiturlyfjafíklar og heimilislausir sem fá enga hjálp frá borginni. Heldur ráfa þau um götur borgarinnar. Götutökurnar hafa veitt þessu fólki hæli sem samfélagið hefur hingað til neitað að veita þeim. Gallinn er að þetta fólk þarf aðstoð sem götutökurnar geta ekki veitt þeim. Þetta fólk þarf læknishjálp. Því færast þessi félagslegu vandamál yfir til tjaldbúðanna. Þessi vandamál taka orku frá mótmælendum sem skilar sér í að ég fæ verri móttökur en ella.

Á sama tíma og fólk með þessi vandamál ráfa um göturnar eru Seattle (fræg fyrir WTO óeirðirnar 1999) draumaborg neysluhyggjunnar. Macy’s, GAP, Forever 21, jú neim itt, þær eru allar þarna. Og þær glimra. Þriggja hæða tískuvöruverslanir sem eru ein til tvær húsaraðir á stærð. Fólk getur svo sannarlega gleymt sér í hausttískunni á meðan Starbucks starfsmenn þurfa að hringja á sjúkrabíl því einhver tók of stórann skammt á klósettinu þeirra, aftur.

Seattle átti samt sín augnablik. Ég sótti úkulele tónleika, skoðaði frábæra bókabúð, sá ýkt svalan markað og slíkt. Ég endaði Seattle með hópfaðmlagi, þannig að það má segja að margt hafi farið vel.

4.
Ímyndið ykkur þetta: Brúnt rúgbrauð frá sjötta áratugnum stoppar á Starbucks. Út úr stígur ungur drengur, klæddur eins og haustið, tré eða bangsi… allavega mjög hippalegur. Hann faðmar miðaldra konu sem er líka hippaleg, hleypur inn á Starbucks og beint á klósettið. Hann kemur af klósettinu og spyr ringlaðann starfsmann (langt hár og hippaleg mállýska, greinilega ekki fæddur og uppalinn í Starbucks): „Hvar er ég?“ „Þú ert í Portland, Oregon maður. Portland, Oregon.“

Ég fæ að hringja í hjá Starbucks. Ég hringi í Celeste og finn út að það er hentugast fyrir okkur að mæla okkur mót í miðbænum. Ég finn út að besta leiðin þangað er með Maxinum. Ég kem úr honum heldur ringlaður. Ætla að hringja í Celeste og láta hana vita hvar ég er en fæ ekki internetsamband (ég hringi með netinu). Ég færi mig inn í anddyri nálægrar skrifstofubyggingu og reyni aftur. Ekkert samband. Hendi af mér bakpokanum og geng í kringum húsaröðina í leit af sambandi. Tveimur húsaröðum síðar fæ ég samband og hringi. Ég tala við Celeste, hún ætlar að koma til mín. Ég skelli á og geng af stað aftur að bakpokanum mínum. Þá átta ég mig á að áðan hafði ég gengið mjög grunsamlegur í átt að stórri byggingu. Horft öryggisvörðinn í augun, hent af mér stórum farmi og gengið burt með fartölvu. Ekkert lítið grunsamlegt. Þegar ég kem aftur að byggingunni sé ég að öryggisvörðurinn er að tala við löggu. Þau hætta samræðunum og stara á mig. Ég geng skömmustulegur að bakpokanum, tek hann upp og læt mig hverfa hið snarasta. En skammarlegt.

Jæja, ég var tvær vikur í Portland. Tvær vikur af lúxuslíferni þar sem ég svaf á dýnu undir hlýrri sæng í upphituðu húsi með eldhúsi og meðfylgjandi búsáhöldum. Algjör lúxus. Á þessum tveim vikum fékk ég mér þónokkra bjóra, en Portland er frægt fyrir brugghúsin sín, ég tók mér nokkrar gönguferðir, sótti einhver sjóv (meðlegendur Celestar eru öll tónlistarmenn), tók þátt í einni kröfugöngu, hélt upp á þakkagjörðarhátíðina, keypti ekkert á föstudeginum svarta (black friday) og fleiri sem krafðist lágmarks viðleitni. Þetta voru frábærar tvær vikur.

Í dag, þegar þetta er birt, eru þrír mánuðir síðan ég lenti í New York. Þvílíkir þrír mánuðir. Hefði ég komið inn í landið á venjulegum stimpli þá væri ég orðinn ólöglegur núna. En ég fékk áritun og er því öruggur í þrjá mánuði í viðbót. Þrír mánuðir af fleiri ævintýrum. Þrír mánuðir af Ameríku. Kannski fer ég til Mexíkó að þremur mánuðum liðnum, kannski hitti ég Alex vinkonu mína í Hudson, New York (sjá 2. New York – Boston, MA) eða kannski enda ég ferðina með siglingu um Kyrrahafið með Cody og vinum hans frá Omaha (sjá 6. Með hljómsveitarvan í Kansas og Nebraska). Það er allt á huldu. Hvað sem líður eru spennandi tímar framundan. Nú, í fyrsta sinn í ferðinni, hef ég slegið mér upp í föruneyti. Ég er ekki einn að ferðast lengur. Ég segi ykkur allt frá því í næsta pistli.

Runar (formerly known as Berg)
Bandon, Oregon
1. desember 2011

From → Reisupistill

3 athugasemdir
  1. Gunnar Hörður permalink

    Er að elska þessa pistla í drasl hjá þér Rúnar Berg!

  2. Vá, þú ert líka að verða betri og betri stílisti í skrifum þínum! Nú er textinn orðinn alveg sprell-lifandi! Ofsalega er ég glöð að fá að fylgjast með ferðum þínum um heiminn, það eru forréttindi. Og Boise….er það málið? Ég vil líka sitja undir tré og yrkja meðan vinir mínir sitja hjá og spila á gítar og drekka kaffi….mmmmm, þetta er það fallegasta sem ég get hugsað mér. Kær kveðja úr Hveragerði, Heiða

  3. Runar (formerly known as Berg) permalink

    Boise er algjörlega málið. Idaho er næst rauðasta (íhaldssamasta) fylki Bandaríkjana á eftir Alaska. Samt fann ég mig þarna eins og Siggi fann sig á Egilsstöðum eða eins og Alex fann sig í Hudson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: