Skip to content

3. The Appalachian Trail at Franconia Notch in the White Mountain National Forest, New Hampshire

september 29, 2011

Þriðji bíllinn sem stoppaði fyrir mér á leið minni frá Hudson, New York, til Boston, Massachusetts, var bæjarstarfsmaður í bænum Great Barrington, MA. Hann er vanur að stoppa fyrir öllum sem hann sér bera stóra bakpoka því Appalachian Trail (AT), göngustígurinn um frá Georgíu til Maine um Appalachian fjallagarðinn, liggur nokkrar mílur fyrir austan bæinn. Hann sjálfur er göngugarpur og skilur því leiðindin sem fylgja því að ganga með fram umferðargötum, þjóðvegum og hraðbrautum áður en maður kemst út í alvöru náttúru. Hann lýsti þessari gönguleið fyrir mér á meðan hann keyrði mig nær Boston. Hún fer upp og niður, um þjóðlendur og skóga, stórkostlegur núna þegar byrjar að hausta og tréin fara að skipta litum. Ég mun sjá rautt, gult, brúnt allsstaðar. Ég var mjög áhugasamur og lofaði honum að ég skildi fara á þessa gönguleið einhversstaðar á leiðinni.

Þegar ég kom til Worcester næsta dag sagði CouchSörfarinn sem hýsti mig, David, mér frá sömu gönguleið. Hann sýndi mér myndir frá göngu sem hann hafði farið fyrr um sumarið og mælti með tilteknu svæði þar sem bæði dagsferðum og viku leiðangrar væru mögulegir. Svæðið, eða þjóðgarðurinn, heitir White Mountain National Forest, í New Hampshire. Í Boston tók ég endanlega ákvörðun. „Ég er búinn að hafa það allt of gott í þessum stórborgum og smábæjum. Nú er kominn tími á að ég fari að lifa einn með sjálfum mér í tjaldi út í náttúrunni. Ég fer núna til New Hampshire í þennan þjóðgarð og labba um þessi fjöll. White Mountain, hér kem ég.“

Ég notaði síðasta daginn minn í Boston til að undirbúa mig, hala niður kortum, skrifa niður veganúmerin sem ég þurfti að húkka, merkja gönguleiðir í White Mointain og þess háttar. Um kvöldið fór ég reyndar óvart út á lífið með Alizu, sem þá var að hýsa mig í Boston. Hún er sálfræðinemi við Tufts háskóla í Boston og bjó á kampusnum þar. Svo ég fékk smá snefill af amerísku kampus lífi. Þetta er ekki alveg eins og í bíómyndunum en þó á allt öðru leveli en háskóla lífið heima. Aliza sýndi mér fallbyssu á háskólasvæðinu sem hefð er að mála upp á nýtt hverja einustu nótt. Hún var máluð með ameríska fánanum í þetta sinn (málararnir þurfa að vernda fallbyssuna alla nóttina, því annars er hætta á að hún verði máluð upp á nýtt). Svo gengum við að túni þar rétt hjá sem búið var að afmarka með gulum lögregluborða. Innan borðans voru eldkastarar að leika listir sýnar, og utan hans var fjöldinn allur af stúdentum að æfa sig með svokallað poi. Þar voru líka ýmsir sem tóku það að sér að kenna hver öðrum að poi-a. Þetta er víst gert hvern einasta fimmtudag er er sjálfsprottið athæfi stúdenta. Ég fékk mína lexíu í poi-i. Þegar við gengum til baka var búið að mála fallbyssuna hvíta með gráu graffi. Svo var pakkað saman og skellt sér út á lífið, komið heim, sofið í nokkra tíma, vaknað eldsnemma og út á vegina. Vegina sem eiga að einkenna þetta ferðalag mitt um Ameríku.

Mér þótti leiðinlegt að yfirgefa Alizu svona snemma, hún bauð mér að vera eina nótt í viðbót gegn því skilyrði að ég mætti í partý um kvöldið. En ég hafði tekið ákvörðun. Vegirnir kölluðu og nú var rétti tíminn til að fara. Kannski hitti ég Alizu einhverntíman aftur í öðru lífi.

Ég byrjaði ferðina mína að White Mountain með því að taka comuter lestina að bæ rétt utan við Boston sem heitir Concord, MA. Concord er heimabær Henry Davids nokkurns Thoreau, höfund Walden. Árið 1845 rölti Thoreau út í skóginn þar til hann kom að tjörn sem núna heitir Walden’s Pond. Hann byggði sér kofa þar, kofa á stærð við lítið herbergi (minni en gamla stúdíóíbúðin mín á háskólagörðum). Og í þessum kofa bjó hann, í burtu frá samfélaginu í 2 ár, 2 mánuði og 2 daga. Það sem hann kallaði tilraun. Bókin Walden: Or Life in the Woods fjallar einmitt um þessa tilraun hans. Sem aðdáandi Thoreaus varð ég að skoða þennan stað sem þessi merki rithöfundur og pólitíski andófsmaður þróaði lífsspeki sína þegar hann var lítið eldri en ég er núna.

Í Concord setti ég þumalinn upp á nýjan leik. Klukkan var að nálgast hádegi. Ég hafði misst af fyrstu lestinni úr Boston og var lengur við Waldens Pond en ég hafði reiknað með. Ég var í seinna lagi. Aðeins fimm góðir tímar eftir af deginum til að húkka sér áður en ég þarf að tjalda. Ég náði að Manchester, NH, stærstu borgar New Hampshire. Þar byrjaði að rigna. Klukkan var orðin fimm og ég sá fram á að þurfa að labba í gegnum borgina þvera til að fá far frá þessu svartholi puttalingsins. Það eina sem er verra á vegi puttaferðalangs en stórborg, er stórborg að nóttu til. Ég var staddur við veg þar sem stórverslanir á borð við Wall-Mart eru út um allt. Þetta er ein lengja og finnst víðast hvar við helstu umferðaræðar inn og út úr bæjum og borgum Bandaríkjanna. Ég sá fram á að geta tjaldað óáreittur fyrir aftan eina stórverslun sem var í byggingu. Rigningin ágerðist með kvöldinu og ég endaði á að borða kvöldmatinn minn rennandi blautur. Ég hefði átt að vera með regndúk til að koma í veg fyrir það. Ég skreið inn í tjaldið og skipti hið snarasta úr blautu fötunum. Loks fór að hellidemba. „Ég má ekki blotna,“ „ef það gerist, verður mér kallt og fæ engan svefn.“ Ég kúrði mig ofan í svefnpokann og reyndi að hreifa mig sem minnst. Hver hreyfing á tjaldinu myndi hleypa regndropum inn. Þarna lá ég hreyfingarlaus þar til það versta var yfirstaðið og hugsaði um að á sama tíma hefði ég getað verið í partýi heima hjá Alizu.

Ég náði einhverjum svefni um nóttina, en töluvert af regndropum hafði komist inn í tjaldið. Það voru pollar á gólfinu. Öll fötin mín voru rök (sennilega frá kvöldinu áður frekar en nóttinni) og koddinn minn (hreinu nærfötin) var gegnvotur. Svefnpokinn var líka í blautara lagi þar sem ég hafði misst hann ofan í einhverja polla um nóttina. En það þarf ekki að væla út af því. Veðrið var að skána og það leit út fyrir að ég fengi blíðu þegar ég færi í gönguferðina um þjóðgarðinn. Það væri fyrir öllu.

Það var rétt hjá mér sem ég hafði ályktað kvöldið áður. Ég þurfti að ganga í gegnum alla Manchester, NH, til að geta fengið far frá henni. „Því norðar sem þú ert, þeim mun auðveldara verður fyrir þig að fá far“ sögðu þeir mér. Það reyndist líka rétt. Ég kom að þjóðgarðinum um 4 leitið. Fullkomið, það var glampandi sólskin og góður þurrkur, ég gæti notað restina af deginum til að þurrka það sem hafði blotnað kvöldið áður. Ég þurfti að labba tvær mílur frá þeim stað sem mér var skutlað að tjaldsvæðinu. Á leiðinni hitti ég annan puttaferðalang sem kom á móti mér. Hann sagði mér að ég gæti tjaldað þar sem Appalachian Trail fer undir hraðbrautina. Ég athugaði málið og sá þar fullkomið tjaldsvæði. Burt frá öllum sem vilja rukka mig pening, einungis nokkrir göngugarpar myndu sjá mig, engar löggur, ég var undir hraðbrautinni, semsagt í skjóli frá rigningu, það var búið að búa til eldstæði og safna eldiviði, fullt af vatni og á til að þvo föt og leirtau og til að baða sig í. Ef mér hefur einhverntíman langað að búa undir hraðbraut þá væri það þarna.

Eins og vanalega vaknaði ég við dögun (sirka 6:40). Ég skildi allt óþarfa eftir í tjaldinu og hélt meðfram AT upp á fyrsta tindinn, Mount Liberty, 4459 fet. Það var út úr almannaleið. Flestir ganga Franconia loop sem nær á AT við Little Haystack, 4800 fet, svona þrem mílum norðar. Það var eins og að ganga á túristavegg þegar ég kom þangað. Ég hitti engan á leiðinni upp Mt. Liberty en á Little Haystack þar sem gönguleiðirnar mætast voru svona 100 manns. Leiðin lá svo upp á tvo aðra tinda, Mt. Lincoln (5089 fet) og Mt. Lafayette (5249 fet). Ég var kominn aftur að tjaldinu mínu um fimm leitið. Nóg fyrir þvott, og sundsprett fyrir kvöldmat. Veðrið var æðislegt og ég sá að það var ástæða fyrir því hvers vegna allir höfðu mælt með þessari göngu. Haustið litaði svo sannarlega fjallshlíðarnar stórfenglegum litum. Mér leið vel í þessum þjóðgarði, og ég var alvarlega að spá í að pakka saman og halda mér á AT vestur til Vermont og húkka mér þaðan upp til Kanada, en ég fann á mér að ég þurfti að koma mér til byggða og láta vita af mér. Fólkið heima var eflaust byrjað að hafa áhyggjur af mér. Upp á hraðbrautina með mig, upp með þumalinn og upp til Kanada. Það er næsta stopp.

Ég er kominn til Kanada núna. En ég segi ýtarlega frá Kanada-útúrdúrnum mínum í næsta pistli. Þangað til segi ég peace out ☮

Cliff Baugsson Sigríðarson
Saint Jean Sur Richelieu, Quebec
29. september 2011

From → Reisupistill

Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd